07.05.1981
Efri deild: 93. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4055 í B-deild Alþingistíðinda. (4164)

7. mál, horfnir menn

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Frv. til l. um horfna menn var lagt fram á fyrstu dögum haustþings. Því er ætlað að koma í stað laga nr. 23 frá 1922, um sönnun fyrir dauða manna sem ætla má að farist hafi af slysum, og seinni breytinga á þeim lögum. Eins og að líkum lætur hefur margt breyst á þeim tæpu 60 árum sem liðin eru frá því að hin gömlu lög gengu í gildi. Var því talin full þörf á að breyta þessari löggjöf. Frv. þetta er samið að tilhlutan dómsmrn. af Ármanni Snævarr hæstaréttardómara. Um þetta frv. má margt segja, en aðeins fá orð verða látin falla um það að sinni.

Þegar maður hefur horfið, þ. e. þegar þeir, sem hagsmuna hafa að gæta vegna dauða hans, geta ekki sannað hvar hann er niður kominn eða hvort hann er lífs eða liðinn, geta skapast ýmis vandkvæði í sambandi við eignir hans og réttarstöðu og einnig fyrir ýmsa þá sem standa í lögskiptum eða lögtengslum við hann. Ljóst er að það skiptir miklu máli að lögum að ganga úr skugga um hvort maður sé lífs eða liðinn, enda tengjast margháttuð lagaáhrif við andlát manns. Minna má á að við andlát fellur rétthæfi manns almennt niður. Þá reynir á sérstaka skiptameðferð á búi hans. Hjúskapur fellur niður. Refsiábyrgð fellur brott. Á líftryggingagreiðslur getur reynt og greiðslur annars lífeyris. Framfærsluskylda fellur niður. Ýmis skattaréttarleg áhrif eru bundin við látið. Gera þarf ráðstafanir út af rekstri embættis eða annars opinbers starfs, er andlát ber að höndum, svo og um fyrirsvar er maður hefur haft fyrir fyrirtæki eða vegna rækslu hans sem fjárráðamanns ólögráða. Þannig mætti lengi telja.

Frv. þetta er 7. mál þingsins. Um það hefur verið fjallað í Nd. og hefur það hlotið einróma samþykki að öðru leyti en því, að nokkrir frestir eru styttir. Geri ég ekki sérstaka athugasemd við það.

Ég hef þessi orð ekki fleiri, en vænti þess, að þetta frv. fái greiða göngu í þessari deild og meðferð. Ég legg til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.