07.05.1981
Efri deild: 93. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4056 í B-deild Alþingistíðinda. (4167)

123. mál, hollustuhættir

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir eftir nokkrar breytingar í Nd., hefur fengið ítarlega meðferð undanfarin ár í sérstakri nefnd sem skipuð var af fyrrv. heilbr.- og trmrh. Matthíasi Bjarnasyni í ágústmánuði 1978. Þeirri nefnd var falið að endurskoða lög nr. 12/1969, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með hliðsjón af fenginni reynslu og enn fremur að semja drög að nýrri heilbrigðisreglugerð.

Fljótlega eftir að nefndin kom saman og að höfðu samráði við þáv. heilbr.- og trmrh., Magnús H. Magnússon, var ákveðið að undirbúa tillögugerð, nokkru víðtækari en í öndverðu var ætlað, um sameiningu þeirra stofnana svo og samvinnu þeirra nefnda og annarra aðila sem með mál fara á þessu sviði. Í framhaldi af þessari ákvörðun var Guðlaugur Hannesson, forstöðumaður Matvælarannsókna ríkisins, skipaður í nefndina. Enn fremur var Eyjólfur Sæmundsson, fyrrv. deildarverkfræðingur hjá Heilbrigðiseftirliti ríkisins og núv. forstjóri Vinnueftirlits ríkisins, ráðinn sérstakur ráðgjafi nefndarinnar með hliðsjón af mengunarmálefnum. Að öðru leyti áttu sæti í nefndinni dr. Jón Sigurðsson, fyrrv. borgarlæknir, Þórhallur Halldórsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar, Hrafn V. Friðriksson yfirlæknir, forstöðumaður Heilbrigðiseftirlits ríkisins, og Albert K. Sanders, bæjarstjóri í Njarðvík.

Þessi nefnd vann mjög gott starf og lagði fyrir mig, fljótlega eftir að ég kom í heilbrrn., tillögur sínar að frv. til l. um hollustuhætti og hollustuvernd sem nú hefur í meðferð Nd. fengið nafnið um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Ég lagði frv. fyrir hv. Alþingi fyrir jól og mælti fyrir því í Nd. 3. des. s. l. Þar gerði ég grein fyrir helstu breytingum sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Þær eru allvíðtækar, einkum að því er varðar einföldun á því eftirlitskerfi sem hefur verið á þessum sviðum. En í frv. er gert ráð fyrir að sérstök stofnun, Hollustuvernd ríkisins, verði sett á laggirnar og þar með væri starfsemi Matvælarannsókna ríkisins, Heilbrigðiseftirlits ríkisins og Geislavarna ríkisins sameinuð í einni stofnun og undir einni stjórn. Enn fremur er gert ráð fyrir í frv. þessu að Eiturefnanefnd, Áfengisvarnaráði og Manneldisráði verði sköpuð aðstaða innan þessarar stofnunar og þar verði um mjög náið samstarf að ræða.

Hér er um að ræða grundvallaratriði þessa frv., þ. e. einföldun á hollustueftirliti, á heilbrigðiseftirliti og hollustuvernd í landinu. Hitt meginatriði frv. er það, að hér á landi hefur ekki verið í gildi heildstæð mengunarvarnalöggjöf. Reglugerðir um mengunarvarnir, sem settar hafa verið, hafa byggt á lögunum um eiturefni og hættuleg efni og fá fyrirmæli hafa verið í lögum um þessi mál nema í sérlögum um einstaka þætti og stofnanir. Er lagt til í þessu frv. að veruleg bót verði ráðin á í þessu efni þannig að lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit nái einnig yfir mengunarvarnir. En það er ekki ætlast til þess — og ber að leggja á það áherslu — að þetta frv., ef að lögum verður, nái yfir mengunarmálefni sem þegar gilda um sérlög og alþjóðasamþykktir. Má í þeim efnum nefna lög nr. 51/1970, um Siglingamálastofnun ríkisins, en þar er Siglingamálastofnun ríkisins m. a. falið að annast mengunarvarnir á sjó í samræmi við alþjóðasamninga frá 1966 um losun úrgangs í sjó.

Við meðferð málsins í hv. Nd. voru gerðar nokkrar breytingar á frv. sem ég vil aðeins víkja að mjög lauslega og þó sérstaklega einni þeirra. Í frv., eins og það lítur út eftir 2. umr. í Nd., er gert ráð fyrir að 36. gr. orðist svo:

„Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 1982. Með lögum þessum eru felld úr gildi lög nr. 12/1969, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, lög nr. 74/1977, um Matvælarannsóknir ríkisins, svo og ósamrýmanleg ákvæði annarra laga.“

Ábendingar komu fram um það við 3. umr. málsins í Nd., að hér væri í raun og veru ekki um nægilega heppilegt orðalag að ræða og væri því nauðsynlegt að það kæmi fram hjá ráðh. við framsögu fyrir málinu í síðari deild, hvaða lög hér væri einkum átt við. Vil ég fara yfir þann lista hér svo að hv. Ed. geti glöggvað sig á þeim lögum sem hér er átt við, og á sá listi í raun og veru að vera tæmandi. Hér er átt við lög um hundahald og varnir gegn sullaveiki, lög um varnir gegn jónandi geislum frá 1962, lög nr. 27/1977 um tóbaksreykingar, lög um heilbrigðiseftirlit og hollustuhætti, lög um matvælarannsóknir, lög um eiturefni og hættuleg efni og áfengisvarnalög.

Hér er um að ræða eina sjö lagabálka sem þetta snertir með einhverjum hætti, mismunandi miklum. Í sumum tilvikum er gert ráð fyrir að þessi lög, sem ég nefndi, verði afnumin algjörlega. Í öðrum tilvikum stendur málið þannig að þetta frv., ef að lögum verður, mun snerta framkvæmdaþætti þeirra laga sem ég nefndi áðan, t. d. laganna um hundahald og laganna um varnir gegn jónandi geislum.

Ég held að þessi upptalning eigi að vera nægjanleg til þess að taka af tvímæli um það, að hér er í raun og veru ekki verið að afsala neinu valdi úr höndum Alþingis varðandi lagasetningu. Hér er aðeins verið að taka af tvímæli þegar hugsanlega er um það að ræða að þau tilteknu lög, sem ég taldi upp áðan, rekist á þau ákvæði sem gert er ráð fyrir í frv. þessu.

Eitt veigamesta ákvæði frv. og markverðasta nýmæli er um stofnun Hollustuverndar ríkisins. Þeirri stofnun er ætlað að hafa yfirumsjón með hollustueftirliti, matvælaeftirliti, mengunarvörnum og rannsóknum þessu tengdum og á hún að sjá um framkvæmd þessa í samræmi við frv. þetta, reglugerðir og ákvæði annarra laga og reglna. Stofnuninni er ekki ætlað það sem kallað er beint hollustueftirlit nema í undantekningartilvikum, þar sem kosið er að halda því fyrirkomulagi að sveitarfélög hafi slíkt áfram, en þó á nokkuð annan veg en hingað til. Stofnuninni er sérstaklega ætlað að halda uppi fræðslu fyrir almenning um mál, er varða hollustu, og standa fyrir námskeiðum fyrir þá aðila, sem vinna að þessum málum, og enn fremur að standa fyrir menntun og fræðslu fyrir hollustufulltrúa. Á slíkt hefur skort til þessa og er hér um að ræða einhver mikilvægustu ákvæði frv. Eins og ég sagði áðan eru það þó tvö meginatriði sem mestu skipta varðandi þetta frv. Annars vegar er hér um að ræða einföldun stjórnkerfisins og hins vegar er hér um að ræða þýðingarmikil ákvæði um mengunarvarnir.

Við meðferð málsins í hv. Nd. kom það fram, einkum hjá einum hv. þm., að hér væri um það að ræða að Hollustuvernd ríkisins hefði mjög ískyggilegt vald, að ekki væri meira sagt, hún hefði í rauninni svo hrikalegt vald samkv. þessum lögum að dómstólakerfið væri gagnvart henni svo að segja afnumið. Þetta er mikill misskilningur, eins og þar kom fram. Og hvað snertir valdsvið Hollustuverndar ríkisins sem stofnunar er gert ráð fyrir að það verði að mestu óbreytt miðað við vald Heilbrigðiseftirlits ríkisins samkv. gildandi lögum.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að taka lengri tíma deildarinnar í að gera grein fyrir þessu máli. Ég vil fyrir mitt leyti leggja á það áherslu, að málið fái lokameðferð þegar á þessu þingi í þessari hv. deild. Það hefur þegar verið rækilega undirbúið. Um það er góð samstaða fulltrúa úr öllum flokkum — eða þannig kom það út í hv. Nd. Ég geri mér því góðar vonir um að svo hljóti einnig að fara hér að samstaða náist um þetta mál með fulltrúum allra flokka, enda hefur það í rauninni verið svo við undirbúning málsins að þar hafa komið við sögu menn úr öllum þeim flokkum sem nú eiga sæti á Alþingi, beint og óbeint. Ég held því að hægt sé að treysta því, að hér sé um að ræða faglega vel undirbúið mál, mjög faglega undirbúið og tímabært. Hér er gerð tilraun til að einfalda hlutina þannig að ekki sé um að ræða hættu á skörun á milli stofnana, eins og menn hafa bent á að hætta kynni að vera á. Og ég verð auðvitað að taka fram að oft hljóta að geta komið upp markatilvik á milli stofnana sem fjalla um hollustuhætti og almenna heilbrigðisvernd í landinu. Slíkt þarf engum að koma á óvart í sjálfu sér. En hér er unnið að því að einfalda hlutina og draga úr þessari hættu.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2, umr. og hv. heilbr.- og trn.