07.05.1981
Neðri deild: 89. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4063 í B-deild Alþingistíðinda. (4175)

56. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal beindi til mín fsp. og hefur flutt brtt. við frv. eins og það liggur fyrir eftir 2. umr. í Nd. Um aths. hv. þm. varðandi þá mgr., sem hann flytur brtt. um, vil ég aðeins endurtaka það sem ég greindi frá í umr. í gær, að mgr. þessi, um að skattstjórar skuli fyrir 1. júní ár hvert ókeypis og ótilkvaddir gefa Framleiðsluráði upplýsingar um afurðamagn, bústofn o. s. frv., er óbreytt frá því sem hún var ákveðin í lögunum 1979. Hér er því ekki verið að taka upp neinar nýjar kvaðir á hendur skattstofum til þess að gefa upplýsingar. En þær upplýsingar, sem hér er farið fram á, eru nauðsynlegar ef til að mynda beitt er svokölluðu kvótakerfi sem lögin gefa heimildir um. Ég vil því lýsa þeirri skoðun minni, að ég tel æskilegt, að þetta ákvæði sé áfram í lögum, og er því andvígur þeirri brtt. sem hér hefur verið lýst.

Hv. þm. spyr mig hvort ég telji að það, sem inn kemur vegna fóðurbætisgjalds, eigi að ganga inn og út í fjárlögum, fyrst vera aflað til ríkisins, en síðan greitt af ríkinu til ákveðinna viðfangsefna. Ég vil segja um það atriði, að hér er ekki um skatt til ríkisins að ræða. Hér er um að ræða gjald á tiltekna rekstrarvöru sem notað er til framleiðslustjórnunar og verður varið í þágu þeirra sem gjaldið er tekið af. Hér er því a. m. k. hæpið og umdeilanlegt að tala um þetta gjald sem skatt, vegna þess að þar er ekki um skattheimtu í venjulegum skilningi að ræða. Ég vísa til þess er ég greindi hér frá í umr. í gær varðandi það sem sagt er, að lögin eins og þau voru gangi nokkuð langt í því að afhenda vald frá löggjafarvaldinu til framkvæmdavaldsins varðandi þessa gjaldtöku og að jafnvel sé hæpið að það standist samkv. stjórnarskrá, eins og hér hefur verið haldið fram. Um það atriði hef ég leitað álits lögfróðra manna, sem lögðu til þær breytingar á lögunum frá 1979, sem ákveðnar voru með afgreiðslu hv. d. á frv. í gær. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjalla um það frekar í löngu máli.

Þá spurði hv. þm. Halldór Blöndal hvort ég væri enn þeirrar skoðunar, að skattur þessi eigi að koma fyrirvaralaust, og taldi að ég hefði einhvern tíma sagt að þessi gjaldtaka kæmi ekki að haldi nema ákvörðun kæmi fyrirvaralaust. Þetta gjald var ákveðið með brbl. 23. júní í fyrra og það var mín skoðun, að nauðsynlegt væri eða a. m. k. miklu heppilegra að það væri gert með brbl. og fyrirvaralaust, ekki vegna þess að þessi aðgerð kæmi ekki að haldi þótt lengri aðdraganda hefði, heldur vegna þess að með því að ákvörðun væri tekin fyrirvaralaust hefðu þeir, sem væru betur megandi og hefðu meiri fjárráð, ekki möguleika til þess að birgja sig upp með birgðum af fóðurvörum áður en þessi gjaldheimta tæki gildi. Þess vegna var nauðsynlegt og hyggilegt að um fyrirvaralausa aðgerð væri að ræða. Ef aðdragandi hefði orðið hefði án efa orðið mikil mismunun á milli aðila hvað aðstöðu alla snerti til að afla sér þessara rekstrarvara. Það er allt annað en það, að þessi stjórnunaraðgerð komi að haldi. Hún hefði vitaskuld komið að haldi eigi að síður, þótt verkanir hefðu e. t. v. orðið nokkru lengur að koma fram. Þess vegna er ég algerlega sömu skoðunar enn hvað þetta snertir. Eins og þetta er nú framkvæmt er það í föstu horfi og ekki ráðgerðar neinar snöggar breytingar á því. Það getur þó þurft að grípa til breytingar eftir því sem framleiðsla segir til um, eftir því sem árferði og fóðurforði kann að segja til um og jafnvel eftir verði á innfluttu fóðri.