07.05.1981
Neðri deild: 89. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4065 í B-deild Alþingistíðinda. (4179)

36. mál, tímabundið innflutningsgjald á sælgæti og kex

Frsm. minni hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Á s. l. hausti hélt ríkisstj. því fram, að réttlætanlegt væri að gefa út brbl. og leggja sérstakt vörugjald á innflutt sælgæti og kex vegna samdráttar í innlendri framleiðslu. Á það var bent, að til stöðvunar atvinnurekstrar í þessum iðngreinum gæti komið. Þegar til þings kom hafði ríkisstj. með öllu gleymt þessum forsendum brbl. og til þess að afla ríkissjóði aukinna tekna var þá hækkað vörugjald á sælgæti og gosdrykkjum, en því hefur hins vegar verið breytt nú eins og kunnugt er.

Það er ljóst af brbl. að þau voru sett til þess að afla ríkissjóði tekna, en ekki af umhyggju fyrir sælgætisiðnaðinum. Hér er um að ræða framhald af skattastefnu núv. ríkisstj. í framhaldi af skattastefnu vinstri stjórnarinnar 1978–1979 sem undirritaðir nm. eru andvígir.