10.11.1980
Neðri deild: 14. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í B-deild Alþingistíðinda. (418)

33. mál, málefni Flugleiða hf.

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég stend upp í fjarveru fjmrh. Síðasti hv. ræðumaður beindi til mín spurningu. Ég vil lýsa því yfir, að að sjálfsögðu fær fyrirtækið ekki þá fyrirgreiðslu sem hér er um að ræða nema umræddum skilyrðum verði fullnægt. Ég lít svo á, að ef Alþ. samþykkir þetta frv. sé samþykkið skilyrt með þeim atriðum sem fjh.- og viðskn. Ed. hefur látið frá sér fara. Ég sagði í Ed. að ég gerði ekki ráð fyrir að á þessu yrðu neinar breytingar, en mér var kunnugt um þessar efasemdir gagnvart hlutafélagalögum. Ef eitthvað slíkt kemur upp yrði að sjálfsögðu að hafa samráð við fjh.- og viðskn. a.m.k. En ég geri ekki ráð fyrir því.

Ég vil aðeins upplýsa það, að þegar frá þessum skilyrðum hafði verið gengið s.l. fimmtudag átti ég fund með formanni Flugleiða og reyndar stjórninni og gerði grein fyrir þeim öllum þar. Það gerði ég í samráði við fjh.- og viðskn. Ed., og ég tók jafnframt fram að vildi stjórnin koma ákveðnum aths. á framfæri þyrftu slíkar aths. að koma fyrir næsta dag. En mér er ekki kunnugt um að neinar slíkar aths. hafi borist.

Af því að ég er staðinn upp vil ég taka undir það sem hv. þm. sagði, að mér finnst ekkert undarlegt þó að fjölmiðlar og almenningur hafi forvitnast um þetta mál, og mér finnst helgisvipurinn, sem er á ýmsum í því sambandi, heldur óviðeigandi. Hér er um gífurlegt mál að ræða. Um er að ræða ríkisábyrgð upp á 15 millj. dala, og hér er um að ræða svo að segja allar okkar samgöngur við umheiminn, getum við sagt, og um það að ræða, hvernig þær verði tryggðar áfram. Mér finnst því ekki undarlegt þó að fjölmiðlar hafi verið forvitnir. Reyndar hefðu þeir brugðist skyldu sinni ef þeir hefðu ekki reynt að upplýsa þetta mál.