16.10.1980
Sameinað þing: 4. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

Beiðni um umræður utan dagskrár

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Forseti Sþ. hefur greint réttilega frá fundi okkar í gær. Ég átti satt að segja ekki von á því á þeim fundi, að hann mundi láta í ljós neina sérstaka ánægju yfir þeirri beiðni sem ég setti þar fram um að umræður yrðu leyfðar utan dagskrár um málefni Flugleiða. Svo varð auðvitað ekki. Það var enginn ánægjusvipur á hæstv. forseta á þessum fundi okkar. En af fyrri kynnum mínum við hæstv. forseta átti ég ekki heldur von á því, að hann mundi neita þessari beiðni, og það gerði hann ekki heldur þá.

Sumir menn kunna þá list að segja nei með þeim hætti að maður viti ekki fyrir víst hvort neiið hafi verið sagt. Ég held að hæstv. forseti sé einn af þessum mönnum, en ég held ég verði að taka orð hans hér áðan svo að hann hafi hafnað þessum tilmælum.

Synjun hæstv. forseta byggist á því, að væntanleg sé skýrsla sú sem þm. Alþfl. óskuðu eftir að þinginu yrði gefin. Ég vil segja það sem mína skoðun, að þessi væntanlega skýrsla er ekki aðatatriðið í þessu máli í dag. Hún verður eflaust gagnleg. Þar koma fram, að ég ætla, gagnlegar upplýsingar um gang þessa máls alls. En án þess að ég ætli að fara að gera þessa beiðni að sérstöku umræðuefni bendi ég á að þar er óskað eftir að greint verði frá öllum afskiptum ríkisstj. af Flugleiðamálinu og einnig hverjar þær skuldbindingar séu sem ríkisstj. hafi undirgengist og hyggist undirgangast í þessu máli.

Tilgangur með beiðni okkar sjálfstæðismanna um umr. utan dagskrár var í fyrsta lagi sá, að við vildum fá að vita hvenær ríkisstj. ætlaði sér að taka ákvörðun í þessu máli, hvenær væri að vænta frv. um stuðning við Flugleiðir, ef það frv. ætti að koma fram. Hæstv. fjmrh. greindi frá því í blaðaviðtali fyrir síðustu helgi, að frv. væri væntanlegt í þessari viku. Við erum nú á síðasta vinnudegi þingsins í þessari viku og þetta frv. hefur ekki séð dagsins ljós og ekki vitað til að það komi fram í dag. Við höfum haldið að ráðh. ætti að vera orðið ljóst að þetta mál þolir enga bið.

Þessi voru meginatriðin sem við vildum ræða í umræðum hér utan dagskrár í dag. En í banni hæstv. forseta fer ég auðvitað ekki út í efnisatriði þessa máls. En ég hlýt að gera alvarlega athugasemd við þá ákvörðun hæstv. forseta að leyfa ekki nú í dag umr. um þetta mikilvæga mál. Forseti hefur sýnt lipurð í þessum efnum yfirleitt, en ég þykist nú greina fingraför einhverra annarra á þessari ákvörðun hæstv. forseta.

Það má vera skiljanlegt að hæstv. ríkisstj. vilji ekki umr. um þetta mál hér á þinginu núna, — mál sem hún hefur ekki enn þá komið sér saman um. Ráðh. tala út og suður í þessu máli. Má kannske vænta þess, að þeir samræmi málflutning sinn á næstunni, þó ekki væri nema hæstv. fjmrh. og hæstv. samgrh. sem mest hafa með þetta mál að gera, svo að hinn síðarnefndi fái að hressast eitthvað. Hann hefur verið heldur óhress að undanförnu með málflutning kollega síns, hæstv. fjmrh. En nóg um þetta. — Ég mótmæli því, að svo mikilvægt mál fáist ekki rætt utan dagskrár hér í dag. Og ég hvet hæstv. forseta til að endurskoða þessa afstöðu sína nú.