07.05.1981
Neðri deild: 89. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4073 í B-deild Alþingistíðinda. (4202)

305. mál, grunnskólar

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins taka undir orð hv. þm. Halldórs Blöndals. Það er ekki nokkur vafi á því, að sú ákvörðun að færa kennslu í erlendum tungumálum á sífellt neðri stig í grunnskólanámi hefur komið niður á móðurmálskennslunni, vegna þess að flestallir þeir tímar sem þannig hafa bæst við hafa komið niður á og fækkað tímum sem notaðir eru til móðurmálskennslu. Það hefur lengi verið talin regla, að sá, sem ekki kynni eigið mál, ætti erfitt með að læra mál annarra þjóða. Kennarar munu nú mjög margir, ég get ekki sagt flestir, en mjög margir, vera komnir á þá skoðun. Mér er kunnugt um að sú hefur verið niðurstaða kennarafunda í ýmsum grunnskólum, að þeir vilja hverfa frá þessu. Þeir telja að þetta hafi haft þau einu áhrif, að dregið hafi úr móðurmálskunnáttu nemenda án þess að kunnátta þeirra í erlendum tungumálum hafi í rauninni nokkuð batnað frá því sem verið hafði þegar komið er upp í efri bekki skólanna.

Að lokum vil ég aðeins taka það fram, að á 30 ára afmælisdegi dvalar bandarísks varnarliðs á Íslandi hafa umræður um varnarmál af hálfu Alþb. á hinu háa Alþingi nú farið fram. Hv. fyrrv. þm. Hannibal Valdimarsson sagði eitt sinn, þegar honum fannst lítið koma til málflutnings andstæðings síns eins — (ÓÞÞ: Í hvaða flokki var hann þá?) — hann var ekki í Framsfl., hann hefur aldrei verið það, — að það væri líkt því að hlusta á þann mann eins og þar væri að tala draugur upp úr öðrum draug. Mér kom til hugar, þegar ég hlustaði á málflutning hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur hér áðan, að sá draugur upp úr öðrum draug væri nú genginn aftur.