10.11.1980
Neðri deild: 14. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (422)

33. mál, málefni Flugleiða hf.

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég þakka lipurðina og mun standa við það að teygja ekki þessar umr. svo á langinn að til kvöldfundar þurfi að koma. Ég vil aðeins nefna eitt atriði í þessu máli.

Þannig háttar, að ég mun taka sæti hv. þm. Sighvats Björgvinssonar í fjh.- og viðskn., sem fjallar um þetta mál, þannig að ég hef möguleika þar á að koma sjónarmiðum mínum á framfæri, en eitt vil ég segja: Hneykslið í þessu málið, það stærsta- og eru þau þó orðin mörg — er nýlegt bréf sem hæstv. samgrh. sendi Flugleiðum. Þar spurði hann og spurningin var — þetta var um eða rétt eftir mánaðamót: Var það ekki örugglega félagið sem fór fram á þessa aðstoð? — Hæstv. ráðh. veit ekki að félagið vildi skera niður, en þá var það ríkisstj. og ráðh. sem greip inn í. Þetta er ljóst af bréfum sem ég hef undir höndum og mun sýna í n. Ráðh. sendi fyrirtækinu bréf og ráðh. spyr: Voruð það ekki örugglega þið sem báðuð um aðstoðina? Auðvitað svöruðu þeir og sögðu: Nei. Við vildum skera niður. Þá kom ríkið til. — Það er þetta sem er allur kjarni málsins.

Ég hafði látið mér detta í hug að fara á kostum í pontunni og vera grimmur, en ég get það ekki. Þannig er, að það er til bók eftir Franz Kafka sem heitir Metamorphosis og útleggst hamskipti eða umskipti, en það minnir á hvernig ráðh. hefur tekið hamskiptum úr Skugga-Sveini yfir í Ketil skræk í þessum efnum. Það er ömurlegt að horfa upp á það. Hann hefur í raun og veru aðeins verið málsvari eins hóps. Það er hópurinn sem kenndur er við Arnarnes. Það er ríka fólkið. Ég vil ekki nota stór orð á þessari stundu, en ég veit að þingheimur veit hvað ég á við.