07.05.1981
Sameinað þing: 81. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4079 í B-deild Alþingistíðinda. (4228)

125. mál, tilraunageymir til veiðarfærarannsókna

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. n, fyrir mjög góðar undirtektir við þetta mál, sem við fluttum þm. úr öllum flokkum, og vænti ég að það beri enginn brigður á að það sé rétt orðað. Ég verð þá að teljast fulltrúi flokksbrotsins líka, brotabrotsins. Ég veit að þessar góðu undirtektir munu mjög gleðja þá nemendur sem eru nú að ljúka námi úr Stýrimannaskóla Reykjavíkur því að þeir munu koma aftur til þess að stunda nám í því fagi sem þarf að stunda þegar þessi tankur verður kominn, sem ég veit að kemur. Enn frekar mun það gleðja þá, sem eru nemendur þar í dag, og líka eldri nemendur.

En ég held að það muni sérstaklega gleðja alla hagsmunaaðila sem þar eiga hlut að máli, vegna þess að þessi skóli á 90 ára afmæli á þessu ári, ef fjvn. að lokinni þessari athugun í sumar ber gæfu til að fylgja málinu eftir með þeim hnykk, sem til þarf, að veita fé á næsta hausti svo að málið komist endanlega í höfn. Þetta er ekki aðeins hagsmunamál þeirra sem stunda nám við þennan skóla nú eða hafa gert. Það er líka hagsmunamál útgerðaraðilanna, það er hagsmunamál okkar fjölmennu iðnaðarstétta sem vinna við netagerð hér víðs vegar um land, og það er að sjálfsögðu líka hagsmunamál veiðarfæraframleiðendanna og um leið útgerðarinnar í heild og íslensku þjóðarinnar.