07.05.1981
Sameinað þing: 81. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4088 í B-deild Alþingistíðinda. (4231)

372. mál, málefni Ríkisútvarpsins

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. menntmrh. fyrir þá skýrslu sem hér hefur verið dreift til þm. og hann hefur nú gert grein fyrir í alllöngu máli. Ég vil þó segja það strax, að þessi skýrsla hæstv. menntmrh. veldur mér nokkrum vonbrigðum. Í henni eru vissulega margvíslegar upplýsingar, einkum tölulegar og sögulegar, um starfsemi Ríkisútvarpsins á ýmsum sviðum. Hins vegar vantar inn í þessa skýrslu, og hefði fallið vel undir annan lið sem hér er upp talinn, framtíðaráform útvarps og sjónvarps, — hér er ekkert um menningarlega stefnu þessa fjölmiðils allrar þjóðarinnar, það er ekkert um dagskrárstefnu og það er raunar ákaflega lítið sagt um það, hvaða framtíðarhugmyndir hæstv. menntmrh. hefur um þróun þessarar mikilsverðu stofnunar. Það er ekkert sagt hér um menningar- eða dagskrárstefnu, ákaflega lítið um hver eigi að verða þróun þessarar stofnunar í framtíðinni, og þessa sakna ég vegna þess að þetta ætti auðvitað að verða verulegur þáttur í skýrslu sem þessari. Hitt er svo það, að það ætti að vera fastur siður hér á hinu háa Alþingi, að árlega legði menntmrh. fram skýrslu um starfsemi Ríkisútvarpsins sem síðan yrði tekin hér til umr. þannig að tími væri sæmilega rúmur til að ræða mál þessarar stofnunar. Sá háttur mun allvíða hafður á í þjóðþingum grannlanda okkar þar sem útvarp er rekið með svipuðum hætti og hér, þ. e. ríkisfjölmiðill. Og ég held að við ættum tvímælalaust að taka þennan hátt upp líka í stað þess að ræða málefni þessarar mikilvægu stofnunar sundurlaust og af ýmsu tilefni, eins og hér gerist allajafna á hverjum vetri.

Hæstv. ráðh. vék hér að því áðan, að Ríkisútvarpið hefði verið rekið með halla. Hann ásakaði raunar yfirvöld og stjórnendur Ríkisútvarpsins fyrir að hafa ekki tekið fyrr í taumana og hafa ekki gert fyrr ráðstafanir til þess að laga reksturinn að breyttum fjárhagsástæðum. Ég hygg að forráðamenn Ríkisútvarpsins hafi lengi haldið í þá von, að ríkisstj., ríkisvaldið mundi leiðrétta það óréttlæti sem þessi stofnun hefur verið beitt þegar hún var svipt tolltekjum af innflutningi sjónvarpstækja þegar þær tekjur námu verulegum upphæðum, þegar innflutningur litsjónvarpstækja var sem mestur. Sömuleiðis held ég að þessar ásakanir í garð ráðamanna Ríkisútvarpsins séu ekki heldur sanngjarnar varðandi annað, því að þeir hafa sömuleiðis haldið í þá von, að ríkisstj. mundi leyfa þessari stofnun að halda eðlilegum afnotagjöldum sem héldu í við verðlagsþróun í landinu. Hvorugt var gert, hvorki fékk stofnunin tolltekjurnar að nýju né voru afnotagjöld látin fylgja verðlagsþróun í landinu svo sem sjálfsagt og eðlilegt hefði verið.

Í skýrslunni hér er vikið að því, að þennan halla megi jafna á fimm árum. Hér á Alþingi í vetur hafa verið fluttar a. m. k. þrjár tillögur um hvernig mætti jafna þennan halla. Allar þær tillögur hafa verið felldar og hæstv. menntmrh. hefur tekið þátt í að fella þær ásamt öðrum stjórnarliðum. Hér er sagt að hallann megi jafna á fimm árum. Hins vegar kom það ekki fram í skýrslu menntmrh. að hann hefði nokkra skoðun á því eða hefði mótað nokkra stefnu um að svona ætti að gera þetta eða með einhverjum öðrum hætti. Það kom ekki fram í ræðu hæstv. ráðh.

Nú er það svo, að útvarpsráð hefur á fundum að undanförnu verið að fjalla um samdrátt í dagskrárgerð. Og það er hlálegt, að á 50 ára afmæli þessarar stofnunar og fyrsta heila ráðherraári hæstv. núv. menntmrh. skuli þurfa að rifa seglin jafnstórkostlega hjá þessari mestu menningar- og öryggisstofnun þjóðarinnar sem raun ber vitni. Á 50. ára afmæli Ríkisútvarpsins er það hlálegt. Fyrirmæli komu til útvarpsráðs frá útvarpsstjóra um að skerða ætti dagskrá sjónvarpsins um 9%. Í útvarpsráði var gerð samþykkt um að stytta dagskrá sjónvarpsins nokkuð til þess að ná fram sparnaði. Um það voru ekki allir útvarpsráðsmenn á eitt sáttir. Hins vegar þegar að því kom að draga saman hjá útvarpinu komu fyrirmæli þess efnis frá útvarpsstjóra, að þar ætti að spara 14% án þess að stytta dagskrá. Nú er það svo, að síðast í gær var útvarpsráð að fjalla um þessi mál og þá var gerð bókun sem er mjög almenns eðlis um aðhald og sparnað í rekstri. Hins vegar held ég að það sé ekkert ofsagt, að útvarpsráð hafi gefist upp við að gera ráðstafanir til þess að spara 14% í rekstri Ríkisútvarpsins án þess að stytta dagskrá. Ég hygg að útvarpsráð hafi hreinlega komist að þeirri niðurstöðu, að slíkt væri ekki hægt. Slíkt er ekki hægt og þess vegna verður það ekki gert. Það er alveg ljóst, að einhver sparnaður og samdráttur verður í rekstri Ríkisútvarpsins, en ég hygg að það muni fjarri lagi að hann verði 14% eins og að var stefnt.

Hæstv. ráðh. hafði þau orð hér áðan, að Ríkisútvarpið sækti fram á mörgum sviðum. Ég á sæti í útvarpsráði og sit þar fundi tvisvar í viku. Mér er ekki alveg ljóst á hvaða sviðum þessi stofnun sækir fram þó svo hún ætti auðvitað að gera það. Það verður að takmarka alla dagskrárgerð vegna þess hvernig ríkisstj. hefur búið fjárhagslega að Ríkisútvarpinu. Það verður að hafna ýmsum hugmyndum, sem útvarpsráð vildi svo gjarnan framkvæma í dagskrá og bættri þjónustu við almenning og viðskiptavini þessarar stofnunar, vegna þess að það eru ekki til peningar. Mér er ekki alveg ljóst á hvaða sviði þessi framsókn er sem hæstv. menntmrh. talar hér um, þegar það er að gerast að verið er að rifa seglin og draga stórkostlega saman í dagskrá bæði í útvarpi og sjónvarpi. En hæstv. ráðh. svarar því væntanlega hér á eftir, á hvaða sviðum það er sem verið er að sækja fram. Hann talaði um að mikilvægt væri að rekstur stofnunarinnar væri hallalaus. Víst get ég tekið undir það, en til þess að svo megi verða verður að tryggja þessari stofnun eðlilegan fjárhagsgrundvöll, eðlilegan rekstrargrundvöll. Og þar hefur forusta hæstv. menntmrh. því miður brugðist.

Í öðru lagi talaði ráðh. hér um það, að stofnunin væri að eignast eigið hús, sérhannað útvarpshús. Það er alveg rétt. Húsnæðismál þessarar stofnunar hafa lengi verið og eru í öngþveiti, og mun ég koma nánar að því síðar. Hann talaði líka um nauðsyn þess að efla dreifikerfið. Það væri vissulega hægt ef þessi stofnun hefði áfram þær tolltekjur sem hún hafði. Hins vegar verður það erfitt við núverandi kringumstæður. Ég er hæstv. ráðh. hins vegar sammála um að þarna verður að horfa á málin með nokkru raunsæi.

Hæstv. ráðh. minntist á það, að 98% landsmanna nytu sjónvarps, og ég hygg að mjög fljótlega hafi þessari tölu verið náð. Ég hygg hins vegar að það sé miklum erfiðleikum bundið að auka við þetta vegna þess að því fylgir svo gífurlegur kostnaður í mörgum tilvikum að við verðum að una því, eins og allar aðrar þjóðir, að til eru þau byggð ból hér á landi eins og annars staðar sem kostnaðarins vegna er ekki hægt að koma sjónvarpi til. Þetta verðum við að viðurkenna hvort sem okkur líkar það betur eða verr.

Ráðh. rakti hér allítarlega húsnæðismál Ríkisútvarpsins. Hann talaði um byggingarsjóð, og í skýrslunni er á ýmsum stöðum talað um byggingarsjóð. Nú er rétt að vekja athygli á því, að það er ekkert til sem heitir byggingarsjóður Ríkisútvarpsins. Það er til sjóður sem heitir Framkvæmdasjóður Ríkisútvarpsins og um hann eru ákvæði í 14. gr. útvarpslaga svo og í reglugerð um Ríkisútvarp sem gefin var út er Magnús Torfi Ólafsson gegndi embætti menntmrh. Í 14. gr. laga um Ríkisútvarp, útvarpslaganna, segir svo, með leyfi forseta:

„Í sjóð, er nefnist Framkvæmdasjóður Ríkisútvarpsins, skal leggja 5%“ — 10% er það raunar núna — „af brúttótekjum stofnunarinnar. Fé Framkvæmdasjóðs skal verja til að tryggja viðunandi húsnæði og tækjakost fyrir starfsemi Ríkisútvarpsins.“

Húsnæðið er talið hér upp á undan, rétt er það. En það er fleira talið upp og þess vegna er það rangt þegar hæstv. ráðh. talar um þennan sjóð sem byggingarsjóð Ríkisútvarpsins. Það er alrangt og nægir þar að vitna til útvarpslaganna, 14. gr., og til reglugerðarinnar um Ríkisútvarp.

Hæstv. ráðh. vék áðan að öðru máli sem Skiptir miklu í þessu sambandi. Það er bygging nýrrar langbylgjustöðvar. Hann taldi það mál réttilega mjög brýnt, en óvíst um allan framgang þess. Mér sýnist að það eigi að sjálfsögðu einnig að vera hlutverk Framkvæmdasjóðs Ríkisútvarpsins að fjármagna byggingu nýrrar langbylgjustöðvar. Það er til lítils að byggja glæsilegt hús, sem kostar 10 gamla milljarða eða hátt í 100 millj. nýkr., ef engin er langbylgjustöðin eða hún svo léleg að dagskráin kemst ekki til landsmanna. Það er auðvitað forsenda útvarpsrekstrar hér í landinu að hér sé öflug, örugg og traust langbylgjustöð sem kemur því efni til viðskiptavina stofnunarinnar sem dagskráin er. Ríkisútvarpið er að sjálfsögðu til þess að senda út dagskrá. Það er auðvitað frumforsenda og tilgangur þessarar stofnunar. Ég held því að menn geti ekki ýtt þessu langbylgjustöðvarmáli til hliðar. Hvar standa menn ef einn góðan veðurdag í einhverju logninu hrynja þessi möstur hér uppi á Vatnsenda sem raunar hefur verið fyrir löngu spáð að ættu að vara hrunin? Hvar standa menn ef þau hrynja? Þá er ekki hægt að koma neinni dagskrá um landið, ekki nema mjög takmarkað eftir FM-kerfinu. Það er því verulegur ábyrgðarhluti að gera ekki neinar ráðstafanir í þessa átt. En ég er ekki þar með að segja að það eigi ekki að sinna húsnæðismálum útvarpsins. Víst á að gera það. Þau mál voru komin í öngþveiti. Þau mál eru að vissu leyti raunasaga eins og hæstv. ráðh. minntist á áðan. Hins vegar er ástæða til að fara ýmsum orðum um það sem þar er að gerast.

Ég er þeirrar skoðunar, að leysa hefði mátt húsnæðisvanda útvarpsins með töluvert ódýrari hætti og töluvert fljótar en nú er verið að gera. Það koma fram í máli hæstv. ráðh., að þetta hús verður fyrst nothæft 1986–1987. Raunar kom ekki fram í máli hans hvort í þessum 93–94 millj. kr. eru innifalin öll tæki til hússins. Ég hygg þó að hér muni eingöngu átt við byggingarkostnaðinn sjálfan og er þá ærið fé eftir sem útvega þarf til tækjakaupa og búnaðar í þessa nýju byggingu, og væri fróðlegt að heyra hversu háum upphæðum áætlað er að það nemi og hversu mikið viðbótarfjármagn þurfi að útvega. Nema þetta sé innifalið í þessari tölu. Ráðh. skýrir væntanlega frá því hér á eftir.

Hæstv. menntmrh. sagði áðan að það húsnæði, sem Ríkisútvarpið réði yfir nú, yrði látið nægja næstu 5–6 árin. Þetta held ég að sé gersamlega útilokað. Að vísu er sjónvarpið þokkalega sett með húsnæði, en að því er varðar starfsemi Ríkisútvarpsins að Skúlagötu 4, þá er gersamlega útilokað að það húsnæði, sem þar er til umráða, dugi Ríkisútvarpinu næstu 5–6 árin. Þetta hygg ég að allir starfsmenn útvarpsins viti, að í því millibilsástandi, sem hér skapast, verður að gera ráðstafanir til þess að auka húsnæði stofnunarinnar ef hreinlega á ekki að skapast enn þá meira vandræðaástand en þegar er. Þess eru þegar dæmi, að það hefur orðið að hætta dagskrárliðum — vinsælum þáttum — vegna húsnæðis- og aðstöðuleysis að Skúlagötu 4. Hvernig halda menn að ástandið verði þá eftir 5–6 ár? Að vísu gæti svo farið, ef svo heldur fram sem horfir að ekki rætist úr fjármálum þessarar stofnunar undir forustu hæstv. núv. menntmrh., að dagskráin dragist saman frá ári til árs næstu 5–6 árin. Og auðvitað er hægt að leysa húsnæðisvandann með því að fækka fólki og stytta dagskrá og minnka öll umsvif.

Það er vissulega hægt. En ég hef ekki heyrt ráðagerðir í þá átt. Ég held, því miður, að með þeirri byggingu, sem verið er .að ráðast í núna, hafi verið hugsað einum of stórt, óþarflega stórt. Það hefði mátt leysa húsnæðisvanda stofnunarinnar með töluvert ódýrari hætti þannig að allir væru fullsæmdir af.

Í fskj. 5 í þessari skýrslu er talað um byggingarnefnd og þessar framkvæmdir. Ég hefði nú gjarnan viljað að hæstv. menntmrh. hlustaði á það sem ég hef að segja ef hann treystir sér til þess að vera hér inni í salnum meðan þessar umr. fara fram. Hér stendur í þessari skýrslu: „Eitt fyrsta og mikilvægasta ráðið sem Írar gáfu“ — það voru ráðgjafarnir um þessa byggingu — „var að byrja á því að gera sér ljósa grein fyrir því, hvernig það hús yrði skipulagt, sem að lokum væri hugsanlegt sem aðalstöðvar Ríkisútvarpsins í Reykjavík, þegar ekki yrði byggt meira þar.“

Nú langar mig til þess að vita hvernig hæstv. menntmrh. skilur þessa setningu. Ég vildi gjarnan fá á þessu skýringu. Ég hygg líka, að þeim ráðgjöfum ólöstuðum annars sem leitað var til, að þessi mál hefðu öll tekið farsælli stefnu ef leitað hefði verið samráðs og samvinnu við Norðurlöndin eins og og gert var þegar verið var að stofna sjónvarpið hér. Þá hygg ég að þessi mál hefðu þróast meira í þeim mælikvarða sem okkur væri hentugri, eðlilegri og skynsamlegri heldur en að leita til Íra.

Í skýrslunni segir einnig á bls. 57, með leyfi forseta: „Sjónvarpið býr í eigin húsnæði svo að ætla mætti að þörf þess væri ekki jafnbrýn. Þó er þar þegar farið að gæta þrengsla og fyrirsjáanleg erfið vandamál í þeim efnum innan skamms og þau verða ekki leyst betur en með bústaðaskiptum. Þörf fyrir nýbyggingu er því ótvíræð.“

Nú hefði ég viljað spyrja hæstv. menntmrh.: Hvaða erfiðu vandamál eru fyrirsjáanleg í þessum efnum á næsta leiti hjá sjónvarpinu? Í öðru lagi vil ég spyrja: Er þessi setning, sem ég hef nú vitnað til, sett hér fram með samþykki framkvæmdastjóra og dagskrárstjóra sjónvarpsins? Eru þetta þeirra skoðanir sem hér er lýst? Ég hef grun um að svo sé ekki. En fróðlegt væri ef hæstv. ráðh. vildi einnig upplýsa það hér á eftir.

Hæstv. menntmrh. vék hér stuttlega að landshlutaútvarpi og hugsanlega annarri útvarpsrás, eins og spurt var um í þeirri beiðni um skýrslu, sem við lögðum fram nokkrir þm., og rætt er um í skýrslunni. Það kemur fram að ekkert hefur verið um þetta hugsað, hvorki landshlutaútvarp né aðra útvarpsrás, og engin stefna verið mótuð í þeim efnum. Þó man ég ekki betur en hæstv. núv. menntmrh., meðan hann var óbreyttur þm., talaði úr þessum ræðustóll einmitt fyrir landshlutaútvarpi í tengslum við það þegar verið var að ræða kaup á húsnæði handa Ríkisútvarpinu fyrir stúdíó á Akureyri. En nú bregður svo við, að engin stefna er til að því er varðar landshlutaútvarp og að því er varðar aðra útvarpsrás. Auðvitað verður að móta stefnu í þessum efnum og það til nokkuð margra ára. Það hefur hins vegar ekki verið gert. Við verðum að móta okkur hugmyndir um það, hvernig við viljum að Ríkisútvarpið þróist á komandi árum. Nú eru gífurlegar framfarir á sviði allrar fjarskiptatækni og mjög er hætt við að það komi að því, að sú einokunaraðstaða, sem Ríkisútvarpið, útvarp og sjónvarp hefur hvort á sínu sviði og sameiginlega, að þessi einokunaraðstaða verði kannske ekki haldbær tæknilega að fáeinum árum liðnum. Og við verðum auðvitað að hugleiða hvernig við viljum að þessi mikla menningarstofnun, þetta mesta öryggistæki okkar sem búum hér að ýmsu leyti við ótryggar aðstæður af hálfu náttúrunnar, —hvernig viljum við að þessi stofnun þróist. Um það er ekki orð. Viljum við halda því áfram sem verið hefur, að þessari stofnun sé algerlega miðstýrt hér frá Reykjavíkursvæðinu og hér sé sem sagt hennar yfirstjórn og nánast öll starfsemi, eða viljum við dreifa þessu meira um landið og auka þátttöku landsmanna allra, hvar svo sem þeir búa, í starfsemi þessarar stofnunar? Það er tæknilega kleift og verður auðveldara eftir því sem tækni og fjarskiptamöguleikum fleygir fram. En um þetta er ekki orð, ekki á þetta minnst, engin stefna.

Þá vék hæstv. ráðh. að því sem rætt er um hér í skýrslunni; sem er myndsamband sjónvarpsins við önnur lönd. Um það eru ítarlegar upplýsingar í þessari skýrslu og kemur sömuleiðis fram að varðandi þetta atriði hefur engin stefna verið mótuð. Það kemur hér fram að það kostar 50–60 kr. á hvert sjónvarpstæki að koma þessu myndsambandi á og nota það þannig að við getum, hvar sem við erum búsett á landinu, ef við höfum möguleika til þess að horfa á sjónvarp, fylgst með atburðum á erlendri grund, hvort sem það eru íþróttakappleikir, kóngabrullaup eða aðrir fréttaatburðir eða skemmtidagskrár sem sérstaklega eru sendar út, — við getum fylgst með þessu um leið og það gerist. Það er auðvitað hið eiginlega sjónvarp og þannig nýtast fyrst til fullnustu möguleikar þessa miðils. Við getum hugsað okkur það að horfa á íslenskt íþróttalið í kappleik erlendis samtímis því sem hann á sér stað. Þetta hygg ég að muni breyta ýmsu, og ég er sannfærður um að fólk mundi ekki telja eftir sér yfirleitt að greiða lítils háttar viðbótargjald til þess að geta notið slíkrar þjónustu. Raunar er það svo, að það heyrist kvartað yfir býsna mörgu í dagskrá útvarps og sjónvarps og rekstri þessarar stofnunar, en mig rekur ekki minni til þess að hafa séð kvartanir í þá veru að afnotagjöldin væru of há. Hins vegar man ég eftir því að hafa séð bréf hér í dagblöðum þar sem menn hafa lýst því, að þeir væru reiðubúnir til að greiða hærra afnotagjald ef með því væri tryggt að fengist betra efni.

Það er ýmislegt, herra forseti, í þessari skýrslu, ýmis atriði, kannske smáatriði, sem ástæða væri til að fjalla nokkru ítarlegar um og spyrja hæstv. menntmrh. T. d. ítreka ég þá spurningu: Hvenær var ákveðið að sjónvarpið flytti strax í þetta nýja hús, og hvaða þrengsli og vandkvæði eru það sem þar eru sérstaklega á döfinni núna? Ég veit ekki um nokkra ríkisstofnun sem telur sig ekki búa við þrengsli. Það gera allar þær ríkisstofnanir sem ég þekki til. Vitað mál er að útvarpið býr við óbærileg þrengsli, en ég held að sjónvarpið búi alls ekki við mjög slæma aðstöðu í þeim efnum, þar sé langur vegur frá.

Þá mætti spyrja: Hvenær var sú ákvörðun tekin að taka upp myndbönd í staðinn fyrir kvikmyndafilmu, sem þýðir væntanlega það, a. m. k. einhvern ákveðinn tíma, að ef þetta yrði gert núna yrðu hreinlega engar fréttakvikmyndir utan af landsbyggðinni í fréttatímum sjónvarpsins, — ef ákveðið væri að gera þetta — vegna þess að úti á landi eru ekki til upptökutæki fyrir myndband og kosta ærinn skilding og vandséð hvernig þeir menn, sem gegna fréttaritarastörfum fyrir sjónvarpið og hafa ekki af því neinar tekjur sem eru umtalsverðar, mundu koma sér upp slíkum tækjum. Með þessari till., sem minnst er á í skýrslunni, er nánast verið að leggja til að fréttaþjónusta í kvikmyndum utan af landi verði lögð niður. Og ég get ekki ímyndað mér að það sé skoðun eða stefna hæstv. menntmrh. þó að þetta kunni að vera einkastefna einhverra ákveðinna tæknimanna við sjónvarpið.

En það, sem auðvitað skiptir meginmáli varðandi öll málefni Ríkisútvarpsins, er að fjárhag þess verði komið á traustan grundvöll, að Ríkisútvarpið fái eðlileg afnotagjöld, fái að taka eðlilegt gjald fyrir sína þjónustu. Sömuleiðis mætti undanþiggja Ríkisútvarpið söluskatti af auglýsingum. Það mun vera eini fjölmiðillinn hér á landi sem greiðir söluskatt af auglýsingum og hann nam í fyrra nokkrum hundruðum millj. kr. Það er satt best að segja vandséð hvers vegna útvarpinu einum fjölmiðla er gert að greiða söluskatt af auglýsingum, og vildi ég gjarnan heyra skoðun hæstv. menntmrh. á því, hvort ekki væri eðlilegt að fella þá kvöð niður þannig að allir fjölmiðlar stæðu hér jafnfætis.

Þar til viðbótar ber auðvitað að leggja höfuðáherslu á það, að Ríkisútvarpið endurheimti þær tolltekjur sem af því voru teknar á sínum tíma, og ég hygg raunar að þegar þessi breyting var samþykkt hafi a. m. k. ekki öllum alþm. verið alveg ljóst hvað var verið að samþykkja, að verið var að kippa nánast grundvellinum undan heilbrigðum rekstri Ríkisútvarpsins. En almennt má auðvitað segja það um rekstur þessarar stofnunar og þann grundvöll sem hún hvílir á, sem eru útvarpslögin, að það er orðið tímabært að endurskoða þau lög, m. a. í ljósi ýmissa breyttra kringumstæðna, í ljósi breyttrar tækni. Það hefur borið hér á góma á Alþingi m. a. mál sem varðar myndsegulbönd, sem nú breiðast ört út og væntanlega þeim mun örar því meir sem dagskrá sjónvarps er skert og stytt, og er auðvitað ekkert við því að segja. Þetta er eðlileg þróun, en þetta er auðvitað þróun sem verður að hafa í huga og verður að taka tillit til í lagasetningu fyrir Ríkisútvarpið.

Ég mun nú, herra forseti, fara að ljúka máli mínu. Það er sem sagt margt athyglisvert í þessari skýrslu, en mér finnst líka í hana vanta býsna margt og þá einkum það sem mestu varðar um framtíðar- og frambúðarstefnu, dagskrárstefnu og hvernig þessi stofnun eigi að þróast á næstu árum. Ég hef þegar borið fram nokkrar spurningar til hæstv. menntmrh. og ég vildi bæta hér fáeinum við.

Í fyrsta lagi: Vill hæstv. menntmrh. beita sér fyrir því, að þetta verði árlegur viðburður, a. m. k. meðan hann gegnir þessu virðulega embætti, að skýrsla af þessu tagi verði lögð fram og rædd á Alþingi?

Í öðru lagi er það svo, að Ríkisútvarpinu er gert að greiða samkv. sérstökum samningi verulegan hluta af kostnaði við rekstur Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Nú hefur verið lagt hér fram á Alþingi frv. til l. um Sinfóníuhljómsveitina sem ekki hefur enn verið tekið til umr. Nú er ég síður en svo að hafa á móti rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar. Ég er honum að sjálfsögðu hlynntur og enginn má skilja orð mín svo, að ég sé á einn eða annan veg að draga úr því að við höldum hér uppi sinfóníuhljómsveit. En það, sem orkar tvímælis í mínum huga, er hvort rétt sé á þeim fjárhagslegu þrengingatímum, sem Ríkisútvarpið sem stofnun býr nú við, að gera því að greiða 25% — raunar mun það hafa verið hærri tala áður, en frv. gerir ráð fyrir 25% ef mig ekki misminnir — hvort rétt sé að gera Ríkisútvarpinu að greiða þennan kostnað, hvort ekki sé miklu hreinlegra og æskilegra að þetta sé greitt beint úr ríkissjóði og Ríkisútvarpið greiði síðan Sinfóníuhljómsveitinni fyrir þá þjónustu, sem hljómsveitin veitir útvarpinu sem stofnun, og fyrir þá tónlist, sem hún þar flytur. Ég held að það sé óeðlilegt að Ríkisútvarpið sé skikkað til að greiða þetta, og mætti alveg eins hugsa sér að Þjóðleikhúsið greiddi þarna álíka skerf t. d. Það má hugsa sér einhverjar fleiri ríkisstofnanir sem væru skikkaðar til þess að standa undir rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar. Ég held að það sé ekki rétt að útvarpið sé látið gera það í svona ríkum mæli, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess, hversu sorfið hefur verið að fjárhagsgrundvelli þess.

Ég hef áður spurt hæstv. ráðh. hver stefna hans sé varðandi myndsamband um gervihnött við önnur lönd. Á að koma því til framkvæmda nú á þessu ári með því að leggja smávegis viðbótargjald á afnotagjöldin þannig að unnt sé að koma þessu á? Og ég ítreka spurninguna um það hvernig eigi að greiða hallann sem myndast hefur á rekstri Ríkisútvarpsins. Á að fara þá leið, sem minnst er á í skýrslunni, að greiða hann á næstu fimm árum? Það er út af fyrir sig ekkert við því að segja ef það er ákveðið. En auðvitað þarf að vera um þetta mótuð stefna. Og að síðustu: Megum við eiga von á því, að hæstv. menntmrh. móti stefnu varðandi landshlutaútvarp og aðra útvarpsrás og varðandi það hvort Ríkisútvarpinu eigi að vera miðstýrt að einu og öllu leyti héðan frá Reykjavík eða hvort eigi að dreifa því meira um landið?

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa þessi orð fleiri að sinni.