07.05.1981
Sameinað þing: 81. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4102 í B-deild Alþingistíðinda. (4234)

372. mál, málefni Ríkisútvarpsins

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Hv. þm. Árni Gunnarsson tók nú að verulegu leyti af mér það ómak sem ég hugðist gera mér hér upp í ræðustólinn, þar sem hann setti fram ýmis af þeim sjónarmiðum sem ég hafði ætlað mér að gera hér grein fyrir, þótt hann fríi mig ekki af því — þar sem ég er nú einn þeirra þm. sem báðu um þessa skýrslu frá hæstv. menntmrh. — að þakka honum kærlega fyrir hana, þótt ég vilji ekki taka mér formlega viðurnefnið skýrslubeiðandi eins og hv. þm. Friðrik Sophusson gerði.

Ég bjóst alls ekki við því, að hæstv. menntmrh. gæti gefið okkur hér öllu ítarlegri skýrslu en hann gerði, hvað þá að ég byggist við af honum eftir rúmlega árs setu hans á stól menntmrh. að hann gæti gefið okkur fyrirheit um róttæka stefnubreytingu í málefnum Ríkisútvarpsins.

Raunar var ég feginn því að hann skyldi ekki ganga mjög langt í því að gera hv. alþm. grein fyrir draum sínum, prívat og persónulegum, um framtíðarafrek í forsjá fyrir Ríkisútvarpinu sem e. t. v. kynni þá að hafa gengið nokkuð langt út fyrir það sem menntmrh. er ætlað í lögum um Ríkisútvarpið.

Fjárhagsörðugleikar Ríkisútvarpsins eru jafngamlir því sjálfu, og ég er alveg vonlaus um að á fjármálavandræðum þess verði ráðin bót í eitt skipti fyrir öll, nema þá kannske helst með þeirri aðferð sem hv. þm. Friðrik Sophusson gerði grein fyrir áðan. Hann sagði okkur frá því, að hann mundi næsta haust leggja fram frv. sem að því miðaði að skerða einkarétt Ríkisútvarpsins til útvarpsstarfsemi á Íslandi. Þetta er raunar ágæt tækni hjá hv. þm. Friðrik Sophussyni. Ég heyrði viðtal við hann í útvarpinu núna í dymbilvikunni þar sem hann sagði ítarlaga frá þingmáli sem hann kvaðst mundi leggja fram strax eftir páska. Það var að vísu dálítið nýstárlegt í fréttatíma útvarpsins að heyra fréttamann eiga viðtal við alþm. um hvað hann ætlaði að gera í framlagningu þingmála, þó að þetta væri nokkuð nákvæmlega tímasett. Nú segir hv. þm. okkur frá því, að hann ætli að leggja fram frv. í haust. Þetta er að verða dálítið spennandi uppsetning hjá honum. Hvað ætlar hv. þm. að gera á Þorláksmessu n. k.?

Ég efast ekkert um að hv. þm. Friðrik Sophusson hugleiði vandamál Ríkisútvarpsins af hinni klofnu alvöru og skringilegu festu, sem leiðir til ákvörðunar hans um að sjá því farborða með því að kippa undan því fótunum komi hann því fram. Þess eðlis er t. d. hugmynd hans um sparnað í rekstri Ríkisútvarpsins sem fælist í því, að Ríkisútvarpið afsalaði sér sinni stórkostlega arðbæru og merkilegu eign þar sem hljómplötusafnið er. Hvar ímyndar hv. þm. sér að þetta kæmi niður í dagskrárgerð og sparnaði við dagskrárgerð?

Ég hef áður hrósað þessum hv. þm. að verðleikum fyrir hugmyndaauðgi og röskleika í umfjöllun sinni um mál á ýmsum sviðum. Jafnframt hef ég reynt af hógværð, sem mér er að að vísu ekki alveg fyllilega eiginleg, að benda honum á þann hugsanlega möguleika að afla sér dálítillar þekkingar og vitneskju um uppbyggingu þessarar stofnunar og sögu hennar. Ég geri ráð fyrir því, að enn eigi það nokkuð langt í land að hrinda í framkvæmd byggingu útvarpshússins, jafnvel þótt hæstv. menntmrh. setti nú undir sig þann hluta líkama síns sem hv. þm. Árni Gunnarsson ráðlagði honum að gera. Við hv. þm. Árni Gunnarsson reyndum það báðir í starfi okkar hjá Ríkisútvarpinu að hlusta á annan menntmrh. segja okkur frá því í fagnaði starfsfólks í tilefni af fertugsafmæli stofnunarinnar, að nú væri loksins búið að fá lóð undir útvarpshús. Síðan eru gengnir þó nokkrir menntmrh. og nú loks er hafist handa um framkvæmdir. Ég vil síst draga úr nauðsyn þess að flýta framkvæmdum við byggingu útvarpshússins. En ég geri mér ekki vonir — vegna reynslu minnar — um að inn í það verði flutt starfsemi stofnunarinnar fyrr en gefinn hefur verið ádráttur um. Ef að líkum lætur kúra þar nokkur ljón á veginum og sum þeirra kynnu að vera, ef svo má segja, efnahagslegs eðlis. Við getum að vísu hugsað til aðgerða til sparnaðar hjá Ríkisútvarpinu eins og þeirra að létta af þessari öldnu stofnun byrðinni af Sinfóníuhljómsveitinni, af framfærslu Sinfóníuhljómsveitarinnar, og til annarra slíkra ráðstafana. En erfitt verður fyrir stjórn Ríkisútvarpsins að koma þeim bagga yfir á ríkissjóð, ætla ég, samtímis því sem skertar eru tekjur ríkissjóðs með því að fella niður söluskatt af auglýsingum.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að æskilegt sé að treysta fjárhagslegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Það gerum við ekki með því, að Ríkisútvarpið treysti á það, veðji á það að geta sótt sér framfæri til ríkissjóðs. Í aðra átt var forðum miðað, þegar breytt var lögum um Ríkisútvarpið, og vitaskuld verður þessi stofnun eins og aðrar að miða útgjöld sín við eðlilega tekjumöguleika sína. Ég varð þess ekki var — það kæmi mér á óvart ef það reyndist rangt — að fyrirmæli hafi borist til Ríkisútvarpsins frá hæstv. menntmrh. um að skera niður þjónustu sína beinlínis. Ég leit svo til — og sé það rangt bið ég endilega um að það verði leiðrétt — ég leit svo til að hæstv. menntmrh., sem lögum samkvæmt eru ekki ætluð ákaflega mikil völd um yfirstjórn eða rekstur Ríkisútvarpsins, hefði nánast svarað beiðni stofnunarinnar um fjárhagslega fyrirgreiðslu með þeim hætti að vekja athygli á því, að Ríkisútvarpið gæti ekki í rekstri sínum eytt um efni fram fremur en aðrar stofnanir, og síðan hefði verið í það gengið að reyna að greiða úr fjárhagsörðugleikum, sem af því stöfuðu að þetta hefði áður verið gert, að vísu í trausti á að gerðar yrðu eðlilegar ráðstafanir til þess að auka tekjumöguleika stofnunarinnar. Í lokin vil ég aðeins minna á það, að tollatekjur af innfluttum litsjónvarpstækjum, sem Ríkisútvarpið var svipt af litlum hyggindum á sínum tíma, það var ekki fyrsta aðgerðin í þessa átt. Löngu, löngu áður var tekin sú ákvörðun að forgöngu fyrirhyggjusamra fríhyggjumanna að svipta Ríkisútvarpið tekjum af einkasölu á viðtækjum sem gaf Ríkisútvarpinu miklar tekjur sem notaðar voru til þess að byggja upp dreifikerfi gamla Gufuradíósins sem aldrei var lokið við.

Ég þakka hæstv. menntmrh. kærlega fyrir þessa skýrslu. Það var svo með hana eins og ýmis önnur ritverk sem maður flettir, að gjarnan hefði maður viljað sjá þar fleira gott en í henni var. Ég bjóst ekki við miklu meira. Ég tek svo í lokin undir lögeggjan hv. þm. Árna Gunnarssonar til ráðh. um að láta nú hendur standa fram úr ermum og knýja á um byggingu hússins.