07.05.1981
Sameinað þing: 81. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4107 í B-deild Alþingistíðinda. (4237)

372. mál, málefni Ríkisútvarpsins

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég sé mig knúinn til þess að koma hér aftur í ræðustólinn, einkum og sér í lagi vegna orða hv. þm. Stefáns Jónssonar, reyndar sumt um atriði sem ekki koma þessu máli við.

Í fyrsta lagi var það út af ummælum sem féllu um hljómplötusafnið. Ég minntist á það sem rök fyrir því, hvernig rekstrarkostnaður Ríkisútvarpsins hefur meira og meira farið í önnur atriði en beinlínis í dagskrárgerðina. Nú var ég ekki að gagnrýna það að Ríkisútvarpið héldi úti hljómplötusafni, heldur benti á að þarna rækti Ríkisútvarpið hlutverk sem hugsanlega aðrir ættu að rækja hér í þjóðfélaginu. Þetta lagði hv. þm. Stefán Jónsson þannig út að ég ætlaði að setja fyrirtækið á hausinn með því að afsala útvarpinu hljómplötusafninu. Hafi hann skilið þetta með þessum hætti, hef ég talað ærið óskýrt í minni ræðu og vil helst þess vegna fá tækifæri til þess að skýra það. Eða kannske hefur hv. þm. ekki skafið innan úr eyrunum nýlega því að það kom ýmislegt fleira fram í ræðu hans sem gaf fyllilega til kynna að eitthvað hefði farið fram hjá honum eða a. m. k. illa í hann af því sem ég sagði.

Kem ég þá að næsta atriði, því sem hv. þm. Árni Gunnarsson kallaði „frjálsan útvarpsrekstur“, en ég tók mér ekki þau orð í munn, ég tek það skýrt fram. Það, sem ég talaði um, var að þrengja eða breyta einkarétti útvarpsins og afnema hann í vissum tilvikum til þess að aðrir en þeir, sem nú vinna að dagskrárgerð, fengju tækifæri til að koma sínu efni á framfæri. Það má vissulega kalla þetta frjálsari útvarpsrekstur, en ég gerðist nú ekki svo bíræfinn að kalla það frjálsan útvarpsrekstur, enda er erfitt nú orðið að nota hugtakið frelsi án þess að menn hlaupi upp til handa og fóta.

Ég vil aðeins í þessu sambandi minna á að í Svíþjóð leigir sænska sjónvarpið eða útvarpið út dagskrártíma fyrir fyrst og fremst staðbundna aðila. Það sama gerist í Hollandi og það til einkaaðila og félagasamtaka. Í Bretlandi er starfandi óháð stöð, IBA, og fjöldi framleiðenda sem ekki eru háðir ríkinu. Í Finnlandi er ekki einkaréttur ríkisins á útvarpsrekstri. Í Sviss er það einkafyrirtæki sem rekur stærstu og nánast einu útvarpsstöðina sem að vísu útvarpar á fleiri en einu máli og fleiri en einni bylgju. Á Ítalíu hefur verið mjög sérkennilegt kerfi í gangi því að þar má segja að útvarpsrekstur hafi nánast verið frjáls, með þeim afleiðingum að nánast allir vinstri hópar hafa átt eigin útvarpsstöð- og átt langflestar og hið sama má segja um öfgamenn til hægri. Þeir hafa svo keppst og rifist á öldum ljósvakans. Þetta ástand á Ítalíu stafar m. a. af því, að þar hefur pólitískt ástand verið mjög óstöðugt að undanförnu og pólitískir stjórnendur flokkanna hafa reynt að ná tökum á stóru útvarpsstöðvunum sem eru háðar ríkinu. Þetta er hins vegar að breytast og mun vera ætlunin að gera á þessu bragarbót á Ítalíu. Ég hef ekki nefnt lönd eins og Bandaríkin og Kanada þar sem útvarpsrekstur er auðvitað með miklu frjálsara móti, svo að ég noti þetta hugtak, heldur en t. d. hér á landi. Mín skoðun er sú, að með því að auka möguleika fyrir einkaaðila á því að koma sínu efni til skila, m. a. vegna þess hve ódýrt það er orðið vegna nýrrar tækni, gæti það jafnvel orðið til þess að dagskrárgerð Ríkisútvarpsins yrði betri. Það væri aukið aðhald sem fengist, og ég er þeirrar skoðunar, að slík samkeppni væri af hinu góða. Hitt er svo annað mál, að mér finnst það vera skylda íslenska ríkisins að halda úti ríkisútvarpi og gera vel við það. Og þá bendi ég á afnotagjöld, á auglýsingatekjur og þess háttar, sem Ríkisútvarpinu er útvegað, en auglýsingatekjur eru t. d. ekki hjá útvarpi og sjónvarpi nágrannaþjóðanna. Sums staðar verða ríkisútvarpsstöðvar mismunandi landa að endurgreiða nokkurn hluta auglýsingatekna sinna til blaðanna í nafni tjáningarfrelsis — til að blöðin fari ekki á hausinn.

Ég fer ekki frekar út í þessa sálma, en bendi aðein á það, að menn eru að berja höfðinu við steininn, koma hér upp og segja: Ég er á móti þessu og á móti hinu áður er þeir hafa séð tillögurnar. Hins vegar er það rétt, að ég boðaði það, að ég ætlaði að flytja þessa tillögu í haust. Ég tel vera ástæðu til þess að gefa það hér í skyn og ég vænti þess fastlega að það fréttist, þannig að þeir sem eru áhugamenn um þetta efni, láti mig þá vita af sínum hugmyndum. Og það fer vonandi á þann veg, að næsta haust verður skilningur hér á hv. Alþingi fyrir þessu máli.

Þá vék hv. þm. Stefán Jónsson að öðru máli. Það snerti það að ég væri orðinn nokkuð rogginn að fara að ræða um ætlunarverk mín. Ég hefði, t. d. í dymbilvikunni leyft mér að fara með það í Ríkisútvarpið að ég hefði lagt fram á Alþingi till. Það er alveg rétt hjá honum að þetta gerðist. Það var ekki að minni beiðni. Það sem gerðist var að það kom frétt í Morgunblaðinu um að þetta stæði til. Það var búið að leggja hér inn þessa till. en ekki gafst ráðrúm fyrir prentarana að koma þessu til skila til þingsins fyrir páska. Morgunblaðið hafði birt frétt um að þessi till. væri væntanleg eins og margoft gerist. Og þá var það fréttamaður útvarpsins sem bað um viðtal og ég neitaði honum ekki um það, m. a. vegna þess að ég var á förum af landinu — og ég vona að mér fyrirgefist það. En takið eftir einu: Það var fyrrv. fréttamaður Ríkisútvarpsins sem bar mér það á brýn, að ég hefði komið þessu á framfæri við Ríkisútvarpið. Taka menn eftir því, hvað þetta þýðir? Þetta þýðir það, að fyrrv. starfsmaður stofnunarinnar og fréttamaður Ríkisútvarpsins gerir því skóna að venjulegur alþm. hafi þau ráð á fréttastofu Ríkisútvarpsins — (ÓÞÞ: Þm. er óvenjulegur.) eða óvenjulegur, hann hafi þau ráð á fréttastofu Ríkisútvarpsins að hann geti bókstaflega komið skoðunum sínum þar til skila eins og honum sýnist. Þetta er kannske afar skiljanlegt þegar þessi ákveðni þm. á í hlut, af því að hann er úr flokki sem hefur verið grunaður um að nota fréttastofu Ríkisútvarpsins. Kannske er þetta sönnun þess, að um slíkt sé að ræða. Ég vek athygli á þessu vegna þess að þarna talaði maður sem hafði þekkingu á því sem hann var að segja, fyrrv. starfsmaður stofnunarinnar.

Hitt er svo annað mál, að hann má bera mér á brýn að ég þekki ekki til þessarar stofnunar. En þó vill svo til að ég hef setið í útvarpsráði og fjallað nokkuð um málefni hennar og tel mig þekkja a. m. k. það mikið til hennar að mér leyfist hér á hinu háa Alþingi að taka til máls um þetta málefni. Og ég er þakklátur fyrir það, að hér hafa farið fram ágætar umræður um Ríkisútvarpið. Það hefði vissulega verið ástæða til að fjalla um fleiri atriði en þau sem við fjölluðum um, þ. á m. um það sem kom fram um kennsluútvarp. Ég veit að til er álit þeirra Andra Ísakssonar og Andrésar Björnssonar. Á það hefur ekki verið minnst. Það er vegna þess að fjármál Ríkisútvarpsins eru með þeim hætti að það verður að leysa þau mál fyrst, áður en við getum snúið okkur að öðrum efnum.