07.05.1981
Sameinað þing: 81. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4109 í B-deild Alþingistíðinda. (4238)

372. mál, málefni Ríkisútvarpsins

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég get tekið undir það með síðasta ræðumanni, að umræður hér hafa verið ágætar og gagnlegar, held ég. Þessar umræður hafa staðið lengi og það sýnir að hægt er að halda hér uppi myndarlegum umræðum um starfsemi Ríkisútvarpsins. Mætti reyndar gera það einnig um margar aðrar stofnanir.

Hv. þm. Eiður Guðnason minntist á að það kynni að vera góð regla að lagðar væru fram skýrslur um ýmsar stórar stofnanir og þessar skýrslur yrðu ræddar hér á þingi. Ég hygg að það sé á margan hátt eðlileg till. sem hann þarna flytur. Reyndar mun það vera til í dæminu að einstakir ráðherrar séu skyldir til þess samkv. lögum að leggja fram skýrslur um starfsemi vissra stofnana, t. d. Framkvæmdastofnunar ríkisins. Það mun vera í lögum að málefni þeirrar stofnunar skuli ræða á Alþingi, og ég held að það sé vel. Það er gert árlega og þar geta menn komið að athugasemdum mínum, því sem þeir hafa fram að færa um þessa stofnun sem er vissulega stór og umsvifamikil í þjóðfélaginu. En það eru fleiri stofnanir og þ. á m. Ríkisútvarpið. Ég tel, að þessi hugmynd eigi á ýmsan hátt rétt á sér, og hef ekki á móti því, ef ég sit þarna eitthvað lengur, að beita mér fyrir því, að slík skýrsla sé gerð um útvarpið árlega, það tiltölulega útlátalítið að gera það og að það séu teknar í það tvær eða þrjár klukkustundir á ári að ræða slíka skýrslu hér á Alþingi. Ég held að slíkt væri mjög til framdráttar Ríkisútvarpinu. Og ég get vel sagt það hér, að ef slík skýrsla hefði komið fram t. d. á síðasta ári, þá er ég ekki frá því að það hefði getað haft sín áhrif á gang mála til betri vegar hjá Ríkisútvarpinu á því ári. Þá var ég reyndar nýr í mínu starfi, en ég verð að segja að, það var talsverð reynsla að koma að Ríkisútvarpinu við erfiðar fjárhagsástæður þess og verða jafnframt var við að það var mjög erfitt að koma fram skyndilegum úrbótum úr þeim erfiðleikum sem Ríkisútvarpið átti við að etja. Og það var raunar ekki fyrr en við fjárlagaafgreiðslu sem farið var að ræða málefni Ríkisútvarpsins af verulegri alvöru og það var fullseint, satt að segja. En þá held ég þó að alþm. hafi gert sér grein fyrir því, og þá ekki síst fjvn.- menn, að þarna voru mikil alvörumál á ferðinni, en að ýmsu leyti erfitt á síðustu dögum fyrir jól að bæta þar verulega úr, að svo miklu leyti sem þeir voru menn til. Ég verð líka að nefna það, að auðvitað ræður stjórnarstefnan á hverri tíð þar mjög miklu og alls ekki minnstu í þessu tilfelli. Og við þeim beiðnum, sem ég hafði farið mjög ákveðið fram á í sambandi við afnotagjöldin, var ekki hægt að verða að öllu leyti vegna annarra stefnumála ríkisstj.: um það að halda niðri hækkunum á verðlagi, einkum hækkunum á þeim gjöldum sem bein áhrif höfðu á kaupgjaldsvísitöluna. En eigi að síður held ég að það hefði haft veruleg áhrif hér á Alþingi ef málefni Ríkisútvarpsins hefðu verið kynnt með ítarlegri skýrslu og það hefði legið betur fyrir hvernig ástandið raunverulega var.

Hvað varðar þessa skýrslu mína, sem hér hefur komið fram, get ég fallist á það, og ég hygg að það hafi nú komið fram hjá flestum sem hér hafa talað, eða allflestum, að sitthvað megi að henni finna og mönnum hafi fundist margt í hana vanta. Ég get fallist á að svo muni vera. Það vantar margt í þessa skýrslu. Hins vegar mundi ég geta gert athugasemdir við sumt af því sem hv. þm. hafa haft fram að færa sem gagnrýni á þessa skýrslu. Einkum tel ég ástæðu til að nefna þá gagnrýni sem kom fram hjá hv. þm. Árna Gunnarssyni og ekki síst hjá Eiði Guðnasyni, hv. 5. þm. Vesturl., að lítið hafi verið fjallað um menningarmálastefnu Ríkisútvarpsins og litlar hugleiðingar hafðar uppi í þeim efnum. Vissulega er það rétt, að Ríkisútvarpið er menningarstofnun umfram allt. Og það hefði vissulega sýnst eðlilegt að ræða rækilega í slíkri skýrslu um menningarhlutverk stofnunarinnar. En þetta er ákaflega vandmeðfarið mál. Ég hafði um það almenn orð í skýrslu minni og í ræðu minni hér í dag, mjög almenn orð um þessi framtíðaráform. Satt að segja lagði ég ekki í það að hafa uppi mjög miklar hugleiðingar um hvernig ég kysi að dagskrá Ríkisútvarpsins væri eða hvernig Ríkisútvarpið væri rekið sem menningarstofnun. Ég tel að ráðh. verði að fara með gát hvað slíkt varðar, og ég held að ráðh. verði fyrst og fremst að halda sér við útvarpslögin sem samþykkt hafa verið á Alþingi. Við þau á hann að styðjast eins og allir aðrir sem fara með málefni Ríkisútvarpsins.

Ríkisútvarpinu er mörkuð ákveðin stefna í 3. gr. laga um Ríkisútvarpið. Þegar maður les þá stefnumörkun, þá er auðvitað augljóst að þar er stofnunin menningarstofnun, það er lítið á hana sem menningarstofnun, og þar eru talin upp ótalmörg atriði sem Ríkisútvarpinu ber að stuðla að í sambandi við almenna menningarþróun þjóðarinnar og til eflingar íslenskri tungu.

Hitt er annað mál, að það kann vel að vera að það hefði mátt krefjast þess af mér að ég hefði haft uppi hugleiðingar um það, hvort ekki sé tímabært að endurskoða útvarpslög, bæði þá grein, sem fjallar um stefnumörkun, og ýmsar aðrar greinar. Útvarpslögin eru nú u. þ. b. tíu ára gömul, þau voru sett 5. apríl 1971. Ég minnist vel þessara laga. Ég átti þá sæti á þingi og vann nokkuð að því í nefnd þegar þessi lög voru afgreidd. Ég man eftir þeim umræðum sem þá urðu, og ég held að það hafi verið mjög gagnlegt fyrir útvarpið og útvarpsreksturinn næstu árin að þessi lög voru þá sett, að frv. var flutt og umræður urðu um þetta. Ég held að það hafi orðið mjög gagnlegt fyrir útvarpið. Og það getur vel verið að ástæða sé til þess öðru hverju að hyggja að endurskoðun útvarpsláganna. Það er alls ekki óeðlilegt að það sé gert þegar slík lög eru komin nokkuð til ára sinna. En ég held að það megi segja um útvarpslögin frá 1971, sem flutt voru reyndar af flokksbróður hv. 5. þm. Vesturl., Gylfa Þ. Gíslasyni, að þau hafi verið vel undirbúin og margt vel um þau og þau hafa staðist vel tímans tönn, þ. á m. 3. gr. sem markar stefnu Ríkisútvarpsins. Gagnrýni um það, að ég hafi ekki eytt nægilegum tíma til þess að ræða um menningarhlutverk Stofnunarinnar, vil ég því svara á þann veg, að um það efni er skynsamlegra fyrir ráðh. að fara með gát og tala heldur þar með almennum orðum. En ég vona þó, að það hafi skilist, og ég vil meina, að það hafi komið fram er rætt var um framtíðaráform, að það voru mörg atriði sem ég taldi að við yrðum að hafa sérstaklega í huga. Ég lagði þar höfuðáherslu á fjárhagsmálin, að Ríkisútvarpið væri rekið skynsamlega og miðaði starfsemi sína við þær tekjur sem stofnunin hefði yfir að ráða, sem sagt að það væri rekið hallalaust. En ég lagði líka mjög mikla áherslu á að það yrði að búa vel að Ríkisútvarpinu hvað snerti húsnæði og tækjabúnað. Hvað varðar þau framtíðaráform sem ræða skal, þá eru þessi atriði langsamlega efst í huga mínum þó að fjöldamargt annað komi þar til greina.

Það er ekki við því að búast að ég fari að orðtaka hér allar ræður manna, enda held ég að það sé varla eðlilegt að svo sé gert. Hins vegar kemst ég ekki hjá því að gera vissar athugasemdir við það sem mér finnst gefa tilefni til þess og einnig að svara fsp. sem beint hefur verið til mín og er eðlilegt að ég svari.

Það kom mjög fram í þessum umr., að það er talsverður ágreiningur um ýmis atriði milli mín og hv. 5. þm. Vesturl. Þessi ágreiningur okkar verður auðvitað ekki leystur hér í ræðustól á Alþingi og e. t. v. verður hann aldrei leystur. Þar verður hvor um sig að hafa sína skoðun og fara sína leið. Ég fellst t. d. ekki á túlkun hans á 14. gr. útvarpslaga um Framkvæmdasjóðinn, sem mér varð á að nefna alltaf byggingarsjóð í fyrri ræðu minni og er nú skaðlítið. En Framkvæmdasjóður heitir hann. Ég er ekki í nokkrum vafa um það fyrir mitt leyti, að túlka beri 14. gr. þannig að þar sé átt við það, að sjóðnum sé ætlað að kosta byggingu útvarpshúss og öflun þeirra tækja sem útvarpshúsi heyra til. Ég veit ekki betur en það hafi verið venjan og sé enn að tækjabúnaður sé greiddur af svokölluðu afskriftafé á fjárlögum. Og þannig er unnið að áfram. Ég ætla ekki að vita hv. þm. neitt fyrir hans skilning — það er hans skilningur sem hann rökstyður — en rök hans ná ekki til mín. Ég held að allur aðdragandi málsins og reyndar orðanna hljóðan bendi miklu fremur í þá átt eins og ég vil skilja þessa lagagrein, 14. gr. útvarpslaga, að Framkvæmdasjóði sé ætlað það hlutverk að fjármagna útvarpshús og þau tæki sem því heyra til. Um þetta er að vísu ágreiningur á milli okkar og við leysum ekki þann ágreining. Í starfi mínu túlka ég þessa grein á þann veg og framkvæmi lagagreinina á þann hátt sem ég skil hana. Ég hef ekkert á móti því að hv. 5. þm. Vesturl. gagnrýni mig fyrir það. En hann snýr mér ekki með því sem hann færir fram sem rök. Ég held mér við minn skilning. Og meðan svo er mun ég líta svo á að framkvæma beri 14. gr. eins og ég hef verið að lýsa, þ. e. að byggingarsjóðurinn fjármagni útvarpshúsið og þann búnað sem í því er, ef til hrekkur fé fyrir því og eftir því sem fé sjóðsins leyfir.

Þá ætla ég í framhaldi af þessu að nefna langbylgjustöðina. Mér finnst eðlilegt að hún verði nefnd vegna þess að hv. 5. þm. Vesturl. nefndi í sömu andránni húsnæði útvarpsins og langbylgjustöðina. Samkv. hans skilningi má verja fjármagni Framkvæmdasjóðs til þess að koma upp langbylgjustöð og þá kannske öllu öðru dreifikerfi. Ég get ekki fallist á þennan skilning. Hitt er annað mál, að ég fellst á það með honum, að þetta er á margan hátt mjög mikið vandræðamál með langbylgjustöðina, að hún skuli ekki hafa einhvern fastan sjóð við að styðjast og ákveðið fjármagn, vegna þess að það er orðið mjög brýnt að þarna verði gerðar lagfæringar á og ný stöð komi upp, hvort sem hún verður byggð hér eða þar. Þetta held ég að allir fallist á. Hins vegar hef ég líka heyrt frásagnir af því, að sú skýrsla, sem kom frá Almennu verkfræðistofunni hér um árið, sé fullsvartsýn í þessu efni og það séu möguleikar á að viðhalda stöðinni í Vatnsenda enn um sinn. Ég hef heyrt þessa kenningu. Ég sel hana ekki dýrara en ég keypti og ég er ekki að halda henni fram. En ég nefni það þó, að svona er þetta. Eigi að síður er ég sammála hv. þm. um að það er mikið vandræðaástand að geta ekki farið út í það að koma þessari stöð upp og afla fjár til stöðvarbyggingarinnar. Það er vissulega mikið mál, það er stórkostlegt öryggisatriði — og ekki aðeins öryggisatriði, þessi stöð er undirstaða alls útvarps hér á landi.

Ég hef látið það koma fram áður, að þessi mál eru ekki leyst og það er ekki fyrir séð á næstunni hvenær ráðist verður í þessa byggingu. Ég vil að þetta komi skýrt fram, enda á þessi skýrsla að vera skýrsla um staðreyndir. Eigi að síður þarf að vinna að því að fjármagn fáist til þessara hluta. Ég hef frá fyrstu tíð, frá því að ég fór að fjalla um það, ég hef bæði rætt það í ríkisstj., ég hef ritað um það blaðagrein, að mér finnist að til fjármögnunar langbylgjustöðvarinnar beri að afla lánsfjár að langmestu leyti á sama hátt og ríkissjóður gerir til ýmissa annarra stofnana og framkvæmda. En vissulega væri möguleiki á því að afla fjár með öðrum hætti, eins og drepið er á hér í skýrslunni og ég minntist á í ræðu minni fyrr í dag, þ. e. að leggja einhvern sérskatt t. d. á hljómflutningstæki til þess að afla fjár til þessa sérstaka sjóðs, til sérstaks byggingarsjóðs eða framkvæmdasjóðs fyrir langbylgjustöð.

Þetta er allt saman til hugleiðingar, en þó ætla ég að eðlilegasta leiðin, eðlilegasti framgangsmátinn verði sá, að langbylgjustöðin verði reist fyrir fé sem ríkissjóður útvegar og ætlar til þessa verkefnis. Það hygg ég að sé. Þetta er brýnt mál.

Hv. þm. spurði líka mikið út í bygginguna sem verið er að vinna að og ætlunin er að komist í notkun 1986–1987. Hann spurði um á hvaða stigi, þ. e. á hvaða byggingarstigi, húsið yrði þá: Þá verður útvarpshúsið fullfrágengið bæði fyrir útvarp og sjónvarp. Gert er ráð fyrir því að tæki verði þá í húsinu og að um þessi áramót og upp úr því verði hægt að hefjast handa um fullan rekstur, ef svo má segja, útvarps og sjónvarps í þessu húsi.

En í sambandi við bygginguna vil ég líka geta þess, að það er möguleiki á því að haga byggingarframkvæmdum á nokkuð annan veg en fram hefur komið í skýrslunni og fram kom í ræðu minni. Þegar búið er að koma þessu húsi undir þak er möguleiki á því að haga innréttingum hússins á þann veg, að hljóðvarpið geti flutt inn miklu fyrr en þarna er gert ráð fyrir. Það er hugsanlegt að hljóðvarpið gæti flutt þarna inn eftir ein þrjú ár. Ef vel miðar áfram með bygginguna og hún kemst undir þak á næsta ári er möguleiki á því, að eftir þrjú ár héðan í frá geti hljóðvarpið farið inn í bygginguna með eitthvað af sinni starfsemi. Þessum möguleika er haldið opnum. Þetta má segja að sé framkvæmdaratriði og ég vil gjarnan að það komi hér fram.

Ég veit ekki hvort ég á að eyða öllu lengri tíma í þetta.

Beinar spurningar komu fram frá ýmsum þm., þó einkum, að ég held, frá hv. 5. þm. Vesturl. Sumar þær spurningar, sem hann bar fram, voru samhljóða því sem aðrir hv. þm. höfðu fram að færa. Ég hef nú, held ég, skrifað hjá mér eitthvað af þessum spurningum og vona að þær séu hér flestar.

Ég svaraði áðan hugmynd hans um árlega skýrslu um útvarpið. Ég tel vel koma til greina, að það verði gert, og mun ekki fyrir mitt leyti telja eftir að vinna að slíkri skýrslu. Það kynni að verða auðveldara fyrir mig að semja skýrslu næst, ef mér endist ráðherraævi til, einmitt vegna þeirra umræðna og ábendinga sem hér hafa komið fram um hvað skuli vera í slíkri skýrslu.

En það, sem hv. þm. spurði beint um og skiptir nokkuð miklu máli, var um kostnaðinn við Sinfóníuhljómsveitina. Hann taldi það orka tvímælis að útvarpið tæki þátt í því að reka hljómsveitina, ekki síst þegar svo stendur á um fjárhag Ríkisútvarpsins að þar verður að skera verulega niður starfsemi. Það er ekkert óeðlilegt að menn spyrji slíkrar spurningar. Eigi að síður hlýt ég að svara því, að það er mjög erfitt að breyta þarna til. Það verður mjög erfitt í framkvæmd að ætla að haga því svo, að Ríkisútvarpið gangi nú skyndilega út sem rekstraraðili Sinfóníuhljómsveitarinnar eftir að hafa verið rekstraraðili þar í 30 ár. Það er ákaflega erfitt að gera það jafnvel þó að ýmis rök mæli með því, að Sinfóníuhljómsveitin sé fjármögnuð með öðrum hætti sem aðrar menningarstofnanir og sé þá sjálfstæð og óháð nánast öðrum stofnunum. Ég tel að þessi hugmynd sé vel umræðuverð. En hitt er alveg ljóst mál, að það er ekki mögulegt að koma slíku fram nú. Þess vegna hef ég farið í slóð margra annarra ráðh. sem hafa fjallað um málefni Sinfóníuhljómsveitarinnar á undanförnum árum, ég hef farið í slóð þeirra og flutt það frv., sem þeir hafa verið að flytja hér á undan mér, með litlum grundvallarbreytingum. Því frv. var dreift í Ed. í dag. Ef setja á lög um Sinfóníuhljómsveitina, sem er mjög nauðsynlegt og gagnlegt, þá kann ég ekki önnur ráð en að halda því sem verið hefur, að Ríkisútvarpið verði einn af rekstraraðilunum, ekki vegna þess að það mætti ekki hugsa sér annað, heldur hreinlega af hinu, að þarna er komin á viss hefð sem er mjög örðugt að rjúfa og varla praktískt að tala um.

Þá spurði hv. þm. Eiður Guðnason um myndsamband við gervihnetti og hvort það yrði tengt á þessu ári. Ég verð því miður að segja sem er, að í því er allt í óvissu. Og ég held að það komi skýrt fram í skýrslunni, að það mál er miklu örðugra af kostnaðarsökum en svo, að hægt sé að ákveða án meiri undirbúnings að ráðast í slíkt. Tæknilegir möguleikar eru að sjálfsögðu þarna fyrir hendi, en ég held að það verði að segja sem er, að fjárhagsstaða og fjármagnsútvegun í þessu sambandi leyfir það ekki nú á næstunni og þær aðstæður sem Ríkisútvarpið býr við.

Og þá er ég kominn að þeirri spurningu sem varðar hallann á Ríkisútvarpinu. Það mál ræddi ég ítarlega og ég hélt að það hefði komið nokkuð skýrt fram hver er stefna mín í þeim málum. Hún er í fyrsta lagi sú, að því verði haldið, sem ákveðið er, að Ríkisútvarpið verði rekið hallalaust á þessu ári. Það skilar ekki hagnaði á þessu ári, það er ljóst. En ég held að segja megi að horfur séu á því að áætlunin standist um það að Ríkisútvarpið verði hallalaust á þessu ári. Samt sem áður eru enn fyrir hendi mjög miklar samansafnaðar hallaskuldir frá síðustu tveimur árum. Það hefur tekist að greiða þessar skuldir með bráðabirgðaláni nú í bili, en þetta eru lán sem verður að borga, það er ljóst. Við stöndum frammi fyrir því að afla fjár til þess að greiða þennan hallarekstur raunverulega og ekki aðeins með láni. Í skýrslunni og í ræðu minni áðan benti ég á þann möguleika, sem fyrir hendi er, að áætla í afnotagjöldum tiltekna upphæð — eða hluta — sem varið yrði til að greiða þennan halla. Það er ekki kveðið fast að orði í skýrslunni um þetta, en þó gefið í skyn hvert stefnir í því. Og það get ég upplýst, einmitt að gefnu tilefni frá hv. þm., að það er ætlun mín við þessar aðstæður að leggja til í haust eða fyrir haustið, áður en afnotagjöld verða ákveðin á síðari árshelmingi, og bera málið þannig upp við ríkisstj. að það verði lögð á sérstaklega 10% vegna hallarekstrarins, til þess að greiða upp hallareksturinn, og að það standi næstu fimm ár. Það má því skoða þetta sem þá stefnu sem ég hef í málinu, jafnvel þótt hún sé kannske ekki nægilega skýrt orðuð eða ekki svo skýrt orðuð að menn þurfi ekki að spyrja nánar hver stefnan sé um þetta efni.

Vafalaust eru ýmsar aðrar spurningar og mikilvægar sem hér hefur borið á góma. Eitt er það atriði sem fram kom hjá einhverjum hv. þm. og varðaði svokallaða Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir. Ég held að það hafi verið hv. þm. Friðrik Sophusson, sem minntist á það, að sú skoðun væri einhvers staðar uppi að það væri verið að brjóta lög með því að fela ekki Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir að bjóða út og fjalla algjörlega um útvarpshúsbygginguna. Þetta er stærra mál en svo að ég vilji láta það fara fram hjá í þessum umr. án þess að gera athugasemdir við þá skoðun, að Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir sé einhver allsherjar yfirbjóðandi ráðamanna, þ. á m. ráðh., að henni sé sérstaklega falið að vinna slík störf. Ég held að menn verði að fara nokkuð varlega í að túlka rétt Samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir eins rúmt og fram kemur í slíkri skoðun, vegna þess að þetta er allt saman meira og minna á misskilningi byggt. Sannleikurinn er sá, að það stendur alveg skýrt í lögunum þar sem heimildir eru um þessa samstarfsnefnd, þar stendur það alveg skýrt, að samstarfsnefndin eigi ekki að fjalla um málefni stofnana sem hafa sjálfstæðan fjárhag. Og það er alveg ljóst að Ríkisútvarpið er ein af þeim stofnunum sem hafa sjálfstæðan fjárhag. Það er a. m. k. alveg ljóst og greinilegt að byggingarsjóður Ríkisútvarpsins er sjálfstæð stofnun sem sækir ekki fé sitt til ríkissjóðs og ekki til annarra en þeirra sem gjalda beint í sjóðinn, útvarpsnotenda sjálfra. Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir hefur því af sjálfu sér engan rétt til að skipta sér af þessum málum. Það er hægt að fela henni slíkt starf og það hafa ríkisstjórnir gert auðvitað í mörgum tilfellum, en ég hef sem ráðh. ekki gert neinn reka að því að fela Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir afskipti af byggingarmálum Ríkisútvarpsins. Og það gerði ég vegna þess að ég held að það sé heppilegra fyrir framgang byggingarinnar, fyrir framkvæmdirnar, að sú nefnd, sem fer með þetta mál, framkvæmdanefnd eða byggingarnefnd, sé sem sjálfstæðust í störfum sínum og ekki háð öðrum nefndum og ráðum og reyndar ekki háð öðrum en yfirstjórn útvarpsins og ráðherra.

Það er alls ekki þannig að ég sé að ásaka Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir eða bera henni vammir og skammir á brýn í einu og öllu. Það er alls ekki svo. Ég hygg að þessi nefnd eigi á margan hátt rétt á sér. En hins vegar mun ég gagnrýna nefndina, eins og margir fleiri hv. þm. hafa gert lengi, og benda á að þessi samstarfsnefnd verður að gæta sín í verkum sínum. Hún má ekki ætla sér meira hlutverk en henni ber og hún á ekki að taka sér völd eða hlutverk sem enginn hefur ætlað henni að hafa með höndum. Og það á sannarlega við í þessu tilfelli um byggingu útvarpshússins. Ég held að það sé alveg óþarfi að vera að ræða um það, að þar séu brotin lög, og síst af öllu er ástæða til þess að vorkenna Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir að brotin séu lög á henni í þessu tilfelli. Ég held að það sé vorkunnsemi sem ekki á mikinn rétt á sér.

Þessar umr. eru orðnar langar og ég veit að það er fjöldamargt annað sem menn hafa verið að ræða hér og vafalaust beint til mín, þó að það hafi farið svo að ég muni það ekki allt nú. En ég vil í lokin segja sem er, að mér finnst að þessar umr. hafi verið gagnlegar, og ég held að það sé mjög vel við hæfi að málefni stofnunar eins og Ríkisútvarpsins séu rædd hér einu sinni á ári og skýrsla gefin um starfsemina. En það mætti þá líka segja sem svo, að það ætti að gera um margar aðrar stofnanir og engu síður. Ég held hins vegar að till. um að slíkt sé gert eigi rétt á sér. En ég vil þá beina því líka til hv. þm. að gera kröfu til þess, að aðrar ríkisstofnanir geri svipað, því að það er auðvitað ekki síður ástæða til þess að Alþingi fylgist með því sem er að gerast í öðrum ríkisstofnunum, eins og menn vilja fá tækifæri til þess að ræða málefni Ríkisútvarpsins.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Ég vísa til skýrslunnar eins og hún liggur fyrir, þó gölluð sé. Í henni er margs konar fróðleikur og ég held að þar komi fram flest af því sem skiptir máli í bili að mínum dómi fyrir hagi Ríkisútvarpsins. Ég vænti þess, að hv. alþm. finni tíma til að lesa skýrsluna og hafi af henni nokkurt gagn til þess að fá mynd af þessari stofnun sem óneitanlega er mikilvæg menningarstofnun og sú þjóðfélagsstofnun sem einna nátengdust er heimilunum í landinu.