08.05.1981
Efri deild: 94. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4118 í B-deild Alþingistíðinda. (4248)

Umræður utan dagskrár

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að leyfa mér að leggja hér nokkrar spurningar fyrir hæstv. viðskrh. og þakka hæstv. viðskrh. fyrir að ljá máls á því að svara þeim og fjalla hér, vonandi í stuttu máli hjá okkur báðum hv. deildarmönnum, um verðlagsmál og ákvarðanir ríkisstj. í verðlagsmálum sem nú eru ofarlega á baugi eins og menn vita.

Ástæðan fyrir því, að ég réðst í það að kveðja mér hljóðs utan dagskrár um þetta efni, eru atburðir síðustu daga og að hér er um tímabundið efni að ræða þar sem útreikningstími kaupgjalds framfærsluvísitölu er að renna út þessa daga og þar með ákvörðun kaupgreiðsluvísitölu hinn 1. júní.

Eins og kunnugt er hafa ekki verið fundir í verðlagsráði allt frá því í byrjun mars, eftir því sem ég best veit, en fyrir verðlagsráði lágu fjölmargar beiðnir um verðhækkanir vegna innlendra kostnaðarhækkana, eins og menn muna og mönnum er í fersku minni vegna umræðna um þessi mál nú rétt fyrir mánaðamótin. Þessar 40 beiðnir, sem lágu fyrir verðlagsráði, höfðu ekki hlotið afgreiðslu, en þær voru margar hverjar um á milli 15 og 20% og allt upp í 85% hækkun. Nú hafa fréttir greint frá því, að verðlagsráð hafi samþykkt 20 hækkanir á vöru og þjónustu, en ríkisstj. hefur ekki tekið afstöðu til þess, eftir fréttum að dæma, hvort hún afgreiði þessar hækkunartillögur eða hvenær og ekki um þau tímasettu mörk sem hún miðar verðhækkanir sínar við. Nú er ljóst að það varðar allan almenning geysimiklu hvernig að þessum málum verður staðið því að mér er tjáð að kauplagsnefnd hafi oft tekið verðhækkanir, sem hafi orðið fram að 6. og 7. viðkomandi mánaðar, inn í framfærsluvísitölu og þar með komi þær inn í kaupgreiðsluvísitölu, en ef ekki verður um að ræða ákveðna afgreiðslu á þessum málum sýnist stefna í tvísýnu um það. Hv. þm. grunar þá hvað er á ferðinni, að þessar verðhækkanir verði ekki teknar inn í vísitöluna.

Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. ráðh. í fyrsta lagi ég hef látið hann fá punkta um þetta þannig að ég hygg að hann geti farið hratt yfir sögu: Hverjar eru þessar verðhækkunartillögur sem bæði gjaldskrárnefnd og verðlagsráð hafa samþykkt? Ætlar ráðh. og ríkisstj. að samþykkja þessar verðhækkanir og þá hvenær? Hvenær verða þessar verðhækkanir afgreiddar frá ráðh. og ríkisstj.? Koma þessar verðhækkanir fram í framfærsluvísitölu 1. maí og þá verðbótavísitölu 1. júní eða mælast þær ekki í verðbótum fyrr en 1. sept. í haust? Hvaða áhrif hafa þessar verðhækkanir á verðbótavísitölu og hvað telur Hagstofan að verðbótavísitalan verði há 1. júní samkvæmt nýjustu upplýsingum þar um? Í þessu sambandi og í ljósi allrar meðferðar hæstv. ríkisstj. á þessum málum undanfarna mánuði vil ég líka spyrja hæstv. ráðh.: Hefur ríkisstj. haft samráð við fulltrúa launþega vegna framkvæmdar á þessum útreikningum og á útreikningum verðbótavísitölu, hvernig hún hafi staðið að þessum verðhækkunum og hvernig þær muni mælast í verðbótavísitölu? Hefur hún haft samráð við launþegasamtökin um það? Og alveg sérstaklega: Hver er afstaða ráðh. Alþb. í ríkisstj. til þeirra vinnubragða sem við hafa verið höfð í þessum efnum? Ef hæstv. ráðh. treystir sér ekki til að svara því vænti ég þess að hæstv. ráðh. Alþb. hlaupi undir bagga.

Þá vil ég aðeins víkja að spurningu um þau tímasettu mörk sem lögfest voru í aðhaldslögunum sem tóku gildi 1. maí. Hæstv. viðskrh. gat ekki verið við þá umræðu hér í hv. Ed. af ástæðum sem voru teknar gildar og ég er ekki að finna að því, en ég vildi gjarnan spyrja hæstv. ráðh. um skoðun hans á framkvæmd þessara mála. Í fyrsta lagi vil ég spyrja hann hvenær þessi tímasettu mörk verði sett. Hæstv. forsrh. svaraði mér því til fyrir örfáum vikum að þau yrðu að öllum líkindum sett fyrir síðustu mánaðamót. Nú er kominn 8. maí og þessi mörk sett í stjórnarsáttmálann í fyrra og þá var þessum málum þannig háttað að gert var ráð fyrir að stefna að ákveðnu marki fyrir fram. Nú virðist, eftir vinnubrögðum að dæma 1. maí, að hæstv. ríkisstj. ætli að setja sér markmið eftir á. Ég hef aldrei heyrt talað um að setja sér markmið eftir að eitthvað er skeð. Maður setur sér markmið fram í tímann, en ekki aftur í tímann. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðh. hvort þetta séu byrjunarörðugleikar hjá hæstv. ríkisstj. núna með þessi tímasettu mörk 1. maí eða hvort vænta megi þess, að þessi tímasettu mörk verði sett eftir á út árið.

Þá er spurning mín til hæstv. ráðh. líka um framkvæmd aðhaldslaganna. Er það svo, að verðlagning einhverrar vöru og þjónustu sé frjáls? Gildir algjör verðstöðvun eftir setningu þessara laga? Og önnur spurningin er: Verða þá heildarhækkanir á vöru og þjónustu að vera innan ramma pólitísks markmiðs um verðlagsmörk án tillits til afkomu vel rekinna fyrirtækja? Þessa spurningu lagði hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson fyrir hæstv. forsrh., en við fengum því miður ekki svör. Ég vænti þess, að hæstv. viðskrh., sem á að hafa þessi mál með höndum og er þekktur að sanngirni í þessum málum, geti leyst úr þessari mikilvægu spurningu fyrir alla atvinnustarfsemi í landinu. Náttúrlega er alveg ljóst að ef það er ætlunin að herða svo að atvinnuvegunum að þeir verði innan einhvers ákveðins ramma, ákveðin tímasett mörk sett um heildarverðhækkanir án tillits til alls og alls, t. d. kostnaðarhækkana, verðhækkanir megi ekki vera meiri en pólitískt vald ákveður, þá er náttúrlega verið að framkvæma slík verðlagshöft að það hlýtur að koma fyrst niður á atvinnuvegunum og síðan niður á atvinnuöryggi allra landsmanna.

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðh. enn: Eru verðhækkanir innfluttra vara óháðar verðlagseftirliti samkvæmt nýju aðhaldslögunum að öðru leyti en því er varðar álagningu dreifingaraðila? Og í fjórða og síðasta lagi um framkvæmd þessara laga: Er svonefnd 5–15% regla í gildi? Stangast þessi 5–15% regla, sem verið hefur verklagsregla hjá verðlagsyfirvöldum undanfarið, á við aðhaldslögin?

Að lokum vildi ég gjarnan spyrja hæstv. ráðh., af því að hann hefur talað mikið um verðbólguna, en öll þessi ákvæði um verðlagsmálin eru sett í því nafni að þau eigi að hafa áhrif á verðbólguna: Hefur hæstv. ráðh. kynnt sér verðbólguspá Þjóðhagsstofnunar um verðhækkanir síðar á árinu og að verðbólgan verði 45–50% ef frekari aðgerðir komi ekki til? Þetta eru nýjustu upplýsingar sem hv. þm. hafa fengið, fyrir tveimur eða þremur dögum, frá Þjóðhagsstofnun í nýjustu skýrslu hennar, að verðbólgan verði 45–50% ef frekari aðgerðir komi ekki til. Hver er skoðun hæstv. ráðh. á þessari áætlun Þjóðhagsstofnunar og hvaða ráðstafanir telur hann koma til greina til að ná verðbólgunni niður í 40% eins og ríkisstj. stefnir að?

Ég vil vekja athygli á því, og enda þá mál mitt til hæstv. ráðh. að sinni, að í þessari skýrslu frá Þjóðhagsstofnun, sem ég vitnaði til, kemur það fram í kurteislega orðuðum texta að þau verðlagshöft, sem gilt hafa undanfarið og gilda enn, hafi sáralítil áhrif á verðbólguna þegar til lengdar lætur, en þeim mun verri afleiðingar fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu og þar með framtíðaratvinnuöryggi. Með leyfi hæstv. forseta stendur í þessari skýrslu:

„Erfitt er að segja að hve miklu leyti áhrif aðgerða í verðlagsmálum verða varanleg, m. a. með tilliti til þess að þær koma í kjölfar mikilla kostnaðarhækkana, bæði launahækkana og lækkunar á gengi krónunnar á síðustu mánuðum ársins 1980. Ýmsum verðhækkunum hefur með þessu móti verið frestað.“

Hér er sem sagt með kurteislegu orðalagi í rauninni sagt að ekkert hafi gerst með þeim verðlagshöftum sem ríkt hafi hér undanfarið, nema að ýmsum verðhækkunum hafi verið frestað og að þær komi þá fram með auknum þunga síðar, og að því er vikið í þessu plaggi, enda er það svo að Þjóðhagsstofnun spáir nákvæmlega sömu verðbólgu á þessu ári og hún spáði í fyrra á sama tíma. — En höfuðatriðið í mínum spurningum er náttúrlega það sem ég vék að hér fyrst, spurningin um meðferð ríkisstj. á þeim verðhækkunarbeiðnum, sem fyrir henni liggja, og hvort ríkisstj. ætlar að standa að því að leyfa þessar verðhækkanir á þann veg að þær mælist í framfærsluvísitölu og þar með kaupgreiðsluvísitölu nú eða hvort hún ætlar að fresta þessu um nokkra daga til að hafa áhrif með þeim feluleik á vísitöluna og draga þannig úr hækkun á verðbótavísitölunni 1. júní.