08.05.1981
Efri deild: 94. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4129 í B-deild Alþingistíðinda. (4252)

Umræður utan dagskrár

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Um síðustu áramót gekk ríkisstj. frá víðtækum almennum aðgerðum í efnahagsmálum sem höfðu þann tilgang að ná verðbólgunni niður á árinu 1981. Það lá fyrir frá Þjóðhagsstofnun og var viðurkennt af öllum aðilum að að öllu óbreyttu gæti verðbólguhraðinn á þessu ári farið upp í 70-80%, ef ekki yrði spornað við fæti. Það var grundvallaratriði í þessum efnahagsaðgerðum ríkisstj. að þannig yrði frá hnútunum gengið að kaupmáttur launa á árinu 1981 yrði hinn sami að jafnaði yfir árið og orðið hefði að óbreyttu. Þetta gerðist með þeim hætti, að annars vegar var frestað 7 vísitölustigum 1. mars 1981, en hins vegar var tekið upp betra vísitölukerfi en var í Ólafslögum og betra vísitölukerfi en Alþfl. barðist fyrir að fá fram innan vinstri stjórnarinnar 1978–1979.

Þessi grundvallaratriði liggja fyrir og þau eru viðurkennd af öllum aðilum í þjóðfélaginu sem horfa á þessi mál heilskyggnum augum, nema ofstækisfyllstu stuðningsmönnum Geirs Hallgrímssonar og Morgunblaðsklíkunnar í Sjálfstfl. Einn af þeirra talsmönnum hér, hv. 3. þm. Norðurl. e., talaði áðan og flutti þennan venjulega fyrirlestur sem er framhald af fyrirlestrinum sem hófst um áramót, að efnahagsaðgerðir ríkisstj. þá hefðu í för með sér meiri háttar áfall fyrir efnahagslífið á Íslandi. Því var t. d. spáð að það væri algjör fjarstæða að láta sér detta í hug að hægt væri að halda genginu stöðugu, og því var haldið fram að þessar aðgerðir þýddu það að við værum að hverfa með okkar efnahagslíf 2030 ár aftur í tímann. Reynslan hefur sýnt að þessar áætlanir ríkisstj. um gengið og stöðu útflutningsatvinnuveganna stóðust fyllilega. Hrakspárnar hrundu og urðu sér til skammar. Enn þá einu sinni eru menn samt að halda áfram með texta af þessu tagi. Nýjasti textinn er sá, að ríkisstj. sé með afstöðu sinni í verðlagsmálum að falsa vísitölukerfið.

Í fyrsta lagi kemur það úr hörðustu átt ef það er Sjálfstfl. eða talsmenn hans sem þykjast bera sérstaka umhyggju fyrir vísitölukerfinu í landinu. Það hefur sem kunnugt er verið meginstefna meiri hl. Sjálfstfl., a. m. k. á undanförnum árum, þeirra aðila sem stóðu t. d. að leiftursókninni, að það væri höfuðnauðsyn í efnahagslífinu að rífa allt vísitölukerfið niður. Í kosningabaráttunni 1979 var tekist á um þessa stefnu. Viðreisnarstjórnin, eins og hæstv. viðskrh. minnti á áðan, bannaði vísitölutryggingu launa með lögum um margra ára bil með tilheyrandi átökum sem því fylgdu hér á vinnumarkaðnum.

Núverandi ríkisstj. fékk á fimmtudaginn var tillögur frá verðlagsnefnd um tilteknar breytingar á vöruverði og þjónustu. Það var ekki fyrr en í gær sem hún fékk þetta í hendur. Þess vegna þarf engan að furða þó að það taki dálítinn tíma að fara niður í þær forsendur sem þessar verðlagshækkanabeiðnir byggjast á. Það liggur ekkert fyrir um það, að hve miklu leyti þessar verðhækkanir verða samþykktar af ríkisstj. í fyrsta lagi. Í öðru lagi liggur ekki neitt fyrir um það, á hvaða tíma það verði gert. Það er vafalaust misjafnt á hvaða tíma þetta þarf að fara í gegn samkvæmt þeim rökum sem verðhækkanabeiðendur leggja fram. (LJ: Það skiptir ekki máli hvenær það er gert, hæstv. ráðh.) Það skiptir máli hvenær það er gert, og það verður metið í hverju einstöku tilfelli út frá ýmsum atriðum.

Ég vil segja það út frá því sem hv. þm. var að segja um kaupmáttinn áðan, að auðvitað stendur dæmið þannig, að ef hans stefnu hefði verið fylgt, að hleypa öllum verðhækkunum út eins og kröfuhafar vilja fá og að rífa vísitölukerfið úr sambandi, þá væri kaupmáttur lífeyrisbóta almannatrygginganna og launa hér í landinu margfalt lakari en hann er nú. Mér finnst það koma úr hörðustu átt þegar þessir talsmenn Sjálfstfl. eru að gera sig breiða hér í ræðustólnum með sérstakri umhyggju, að því er virðist, fyrir afkomu láglaunafólks og lífeyrisþega í þessu landi. Það vill þannig til, hv. þm., að árið 1970, sem var síðasta heila ár viðreisnarstjórnarinnar, sem er sú ríkisstjórn sem Sjálfstfl. hrósar sér mest af, var kaupmáttur lífeyrisbóta almannatrygginga þriðjungur af því sem hann er nú. Það er þetta kerfi sem þessir flokkar og hv. þm. og aðrir slíkir talsmenn Sjálfstfl. eru að hrósa sér af.

Áratugurinn milli 1970 og 1980 fór að verulegu leyti í baráttuna um hvernig skiptahlutfallið skuli vera í þjóðarbúinu. Sú barátta stendur enn. Þar vegnar ýmsum miður og ýmsum betur eftir atvikum. Sem betur fer hefur tekist að tryggja að verðbætur á laun eru hér enn í gildi. 1. júní n. k. tekur við betra verðbótakerfi á laun en hér hefur verið í gildi um tveggja ára skeið. Það er mikilsvert atriði að mati Alþb. og á þeim forsendum stóð Alþb. heils hugar og hafði frumkvæði um þær aðgerðir sem gripið var til um síðustu áramót. Kaupmáttur launa, þ. á m. kaupmáttur lífeyrisbóta, verður á þessu ári ekki lakari, í sumum tilfellum betri en orðið hefði að óbreyttu.

Ég mótmæli öllum fullyrðingum hv. þm. um vísitölusvindl eða falsanir í þessum efnum. Slíkt er ekki á dagskrá núv. ríkisstj.