11.11.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í B-deild Alþingistíðinda. (426)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Umr. þessari var frestað að minni beiðni á síðasta fundi Sþ. sökum þess að ég óskaði eftir því, að einn tiltekinn alþm., hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, yrði viðstaddur umræðurnar, en hæstv. viðskrh. er nú fjarverandi, — þeir virðast skiptast á um það, hæstv. viðskrh. og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, að vera fjarverandi — (StJ: Ráðh. tilkynnir veikindaforföll.) Það mætti halda, að hv. þm. Stefán Jónsson væri farinn að gegna embætti fyrir hæstv. viðskrh. En ástæðan var sú, að hæstv. viðskrh. lét svo um mælt m.a. í ræðu sinni, að hann teldi að nýgerðar grunnkaupshækkanir, sem samið hefur verið um, m.a. milli hæstv. ríkisstj. og starfsmanna ríkisins, mundu valda því, að verðbólga í árslok 1981 yrði a.m.k. komin upp í 70%, og það væri krafa allra hugsandi manna, að þegar í stað yrði gripið á vandanum og komið í veg fyrir að slíkt gerðist. Það var ekki hægt að skilja hæstv. viðskrh. öðruvísi en svo, að hann teldi útilokað annað en hæstv. ríkisstj. tæki á þessum vanda, sem hann kallaði svo, og af hans máli var ekki hægt að skilja annað en sá vandi væri nýgerðar launahækkanir.

Nú hefur hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson látið svo ummælt í viðtali við blöð nokkru áður en þessi yfirlýsing hæstv. viðskrh. var gefin út, að hann teldi óeðlilegt að hafa nokkrar áhyggjur af slíkum umr. þar sem enginn ábyrgur aðili hefði látið slík orð falla. Hæstv. viðskrh. hefur síðan ítrekað þessi ummæli sín í sjónvarpinu og flokksbróðir hv. þm., Ásmundur Stefánsson framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins, hefur svarað með að láta í veðri vaka að líklega hafi blaðamaður Tímans verið syfjaður. Ég vek athygli á þessum viðbrögðum hv. Alþb.manna. Einhvern tíma hefði hæstv. forseti heyrt örðuvísi hljóð úr þessu horni heldur en eilífar afsakanir í þessa veru, þegar menn eru farnir að leggjast svo lágt til þess að koma sér hjá að taka afstöðu í málum að nota það sem afsökun, að blaðamaður tiltekins blaðs hafi verið syfjaður og ekki getað haft rétt eftir ráðh. Nú finnst mér það hörmulegt, að hæstv. viðskrh. skuli ekki vera við, (Forseti hringir.) Herra forseti, ég er að ljúka máli mínu, — til þess að hann geti ítrekað sínar umsagnir í eyru hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar. En ég hef áhuga á því, þó að hæstv. viðskrh. sé fjarstaddur, að fá að heyra álit hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar á þessum boðunum eins ráðh. úr ríkisstj. um aðgerðir til þess að taka á vanda sem hann telur að skapast hafi vegna nýgerðra grunnkaupshækkana.