08.05.1981
Efri deild: 94. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4148 í B-deild Alþingistíðinda. (4262)

2. mál, skráning á upplýsingum er varða einkamálefni

Haraldur Ólafsson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni mjög merkilegt mál sem ástæða væri til að ræða nokkuð ítarlega, en þar eð þetta er síðasta umr. og þegar hefur verið gengið frá öllum helstu brtt. mun ég láta nægja að koma með örfáar athugasemdir í stað brtt., enda er hér um mál að ræða þar sem ríður á miklu að sé vandað til orðalags og vil ég ekki tefja framgang þess með breytingum sem ég hefði þó gjarnan viljað koma að.

Þar er þá fyrst til að taka að ákvæði um tímabundinn gildistíma laganna er mjög til fyrirmyndar. Ég tel einmitt að þann tíma, sem frv., ef að lögum verður, væntanlega verður í gildi, muni koma í ljós ýmislegt sem betur megi fara, ýmis atriði, sem bæta þurfi við, og önnur, sem fella skuli niður. M. a. af þeirri ástæðu sé ég ekki ástæðu til að fara mjög rækilega í ýmis atriði, sem ég annars hefði gert. Ég vil þó ekki láta þetta frv. eða þetta mál fara svo í gegnum þingið að ég komi ekki hér með tvær nokkuð stórar athugasemdir við atriði, sem ég tel að hefði mátt ræða betur og taka verður til athugunar í framtíðinni, og nefna tvö atriði sem mikilvæg eru.

Í fyrsta lagi tel ég það frumskilyrði slíkrar lagasetningar í sambandi við skrár um bæði einkahagi manna og annað, að hver og einn eigi aðgang að öllum þeim upplýsingum, sem um hann eru, og öðrum sé meinaður aðgangur að slíkum upplýsingum nema eftir sérstökum lögum eða heimildum. Þetta tel ég að eigi við um öll atriðin er snerta einstaklinginn. Ég tel ekki rétt að læknisfræðileg atriði séu hér undanþegin, og ég get ekki fallist á þau rök, að fólk skuli ekki án milligöngu og án þess að vera matað eiga aðgang að slíkum upplýsingum. Það liggja engin rök að því og síst að öllu þau, að fólk hafi ekki til að bera þekkingu og skilning á læknisfræðilegum efnum. Þetta atriði tel ég að eigi að taka til athugunar þegar frv. verður endurskoðað haustið 1984, ef að lögum verður.

Hitt atriðið, sem ég vil nefna, snertir framkvæmd laganna og er ekki kveðið skýrt á um í lagafrv. eins og það liggur nú fyrir, en ég held að það sé atriði sem við ættum að taka til rækilegrar skoðunar. Það er að í hverju tilviki skal viðkomanda sent afrit af þeim upplýsingum um sig sem þriðji aðili fær í hendur. Ég veit að það tíðkast t. d. samkvæmt sænskum lögum um margar upplýsingar sem veittar eru úr slíkum skrám, að viðkomandi á ekki bara rétt á því, heldur er skylt að senda honum afrit af þeim upplýsingum sem þriðji aðili fær um hann. Þetta atriði held ég að geti verið mjög mikilvægt til að tryggja bæði rétta skráningu og að vandað sé til allrar meðferðar þeirra upplýsinga sem sendar eru út.

Þriðja atriðið, sem ég hafði hugsað mér að ræða nokkuð, er í sambandi við skipun tölvunefndar sem fær samkvæmt frv. mjög mikil völd og getur haft ákaflega mikil áhrif á það, hvernig þessi mál þróast hér á landi. En ég mun ekki koma inn á það hér og ekki heldur fjórða atriðið sem ég hef mikinn áhuga á og fyrst og mest snýr að mínu starfi. Það er hvernig háttað er upplýsingasöfnun í þágu fræðilegra rannsókna og vísinda. Þar er um mjög viðkvæmt og erfitt mál að ræða sem við, er að slíkum rannsóknum störfum, höfum eiginlega orðið að setja um okkar eigin reglur. Það skiptir máli að margvíslegar rannsóknir líði ekki fyrir of ströng og þröng lög um upplýsingar, en jafnframt verður að sjálfsögðu að vera tryggt að slíkar upplýsingar leiði ekki eða geti leitt til misnotkunar.

Það er oft talað um að einmitt þær upplýsingar, sem tengdar eru persónu, nafni, nafnnúmeri, séu varhugaverðari en aðrar og þurfi að gæta þeirra betur en annarra. En við skulum ekki gleyma því, að tölfræðilegar upplýsingar um landsmenn, um hópa og annað slíkt, eru ekki síður mikilvægar og geta ekki síður haft þýðingarmiklar afleiðingar og verið notaðar á margan hátt. Það er hægt að nota tölfræðiupplýsingar á margan hátt og söfnun slíkra upplýsinga, þó ekki sé tengd nafni eða einstaklingum, getur haft gífurlega mikla þýðingu fyrir þann sem hefur þær upplýsingar í höndum. Einmitt í sambandi við þetta þekkjum við frá erlendum stofnunum, bæði háskólastofnunum og öðrum, að m. a. háskólastúdentar hafa óafvitandi verið notaðir til að safna ópersónubundnum upplýsingum, þ. e. upplýsingum um ákveðin viðhorf eða fyrirætlanir dreifðra hópa. Ég held að einmitt á því sviði ætti m. a. Háskóli Íslands, félagsvísindadeild, að leggja nokkra stund á að koma með tillögur að reglum um þau atriði.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta. Ég tel mikinn feng í þessu frv. og ég vil sérstaklega lýsa virðingu minni á hinu mikla starfi allshn. hv. Ed., sem hefur gert gott og stutt og gagnort frv. úr drögum sem að ýmsu leyti voru of margorð, svo ekki sé meira sagt, og ég vil endurtaka að þetta frv. þarf að endurskoða, og er mjög til bóta að ákvæði þar að lútandi skuli beinlínis felld inn í frv.