11.11.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (427)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi, þm. Þorv. Garðar Kristjánsson, mun hafa bent á það, að fyrirhuguð myntbreyting væri til einskis gagns og raunar til skaða ef ekki fylgdu henni samræmdar efnahagsaðgerðir. Ég hygg að flestir þm. hafi samþykkt myntbreytinguna á þeim forsendum, að um samræmdar aðgerðir yrði að ræða.

Það er upplýst í þessum umr., vegna þess hve ráðh. hefur orðið svarafátt, að ríkisstj. hefur ekki komið sér saman um nema stefnu í efnahagsmálum. Ríkisstj. var mynduð án slíkrar stefnumótunar og í dag heyrðum við að svokölluð efnahagsmálanefnd ríkisstj. væri aftur tekin til starfa. Hún mun hafa starfað í vor, hætt störfum í ágúst, ráðherranefnd skipuð, ráðherranefnd hætt störfum, og það fylgdi sögunni, að ráðherranefndin hefði aftur tekið til starfa. Algert aðgerðaleysi. Það eina, sem ríkisstj. hefur gert, er að hækka verð á dollarnum um 40–50%, það eru hennar einu efnahagsaðgerðir.

Ég verð að segja það, að slíkt stefnu- og úrræðaleysi er með eindæmum, jafnvel þótt borið sé saman við stefnuleysi og úrræðaleysi vinstri stjórnar Ólafs Jóhannessonar, sem sat að völdum frá hausti 1978 til hausts 1979. Þar var þó reynt með efnahagsaðgerðum í nóv. fyrir tveim árum að svíkja loforðið: „samningarnir í gildi“, og það tókst með því að klippa 8 vísitölustig úr vísitölunni, úr verðbótum launa, og það var reynt með svokölluðum Ólafslögum, efnahagslögunum frá 13. apríl 1979, þegar enn var klipið af verðbótum launa. Hvort tveggja þetta voru tilraunir, sem þó voru ekki burðugri en svo, að verðbólgan hefur aldrei verið meiri en á síðasta ári. Höfundarrétt að þessum svokölluðu Ólafslögum hafa allir þáv. stjórnarflokkar tileinkað sér. Með þeim hætti hafa þeir í raun tekið á sig ábyrgðina af verðbólguvextinum á síðasta ári og núv. ríkisstj. með aðgerðaleysi sínu innsiglað áframhald þessarar stórhættulegu verðbólguþróunar.

Ég vil beina fsp. til þess ráðh. sem gegnir störfum viðskrh., úr því ríkisstj. og einstakir ráðh., sem þó eru í fjölmiðlum að segja að eitt eða annað sé nauðsynlegt að gera, geta ekki sagt hvað er stefna ríkisstj.: Megum við vænta þess að fá að heyra stefnu ríkisstj. fyrir 1. des., áður en holskeflan ríður yfir, svo að orðalag ráðh. sé notað, vegna þess að myntbreytingin um áramót nær ekki tilgangi sínum og trausti almennings nema fyrir liggi hvaða ráðstafanir eigi að gera fyrir þá dagsetningu?