11.11.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (428)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. mun víst vera farinn utan, enda hæstv. menntmrh. kominn utan. Þeir hafa ekki getað verið allir samtímis í landinu, eins og kunnugt er, hæstv. ráðh. í ríkisstj.

Það kom fram í umr. um þetta mál um daginn, að hæstv. viðskrh. fann það út, að fyrirspyrjandi gerði beinlínis ráð fyrir að myntbreytingin væri ekki liður í samræmdum efnahagsaðgerðum. Auðvitað er það svo. Það var ekki hægt að spyrja með nokkrum hætti öðruvísi en spurt var. Það er augljóst mál, að myntbreytingin er það ekki. Hún er ekki liður í neinum samræmdum efnahagsaðgerðum. Það hefur ekkert verið gert og það eru engin svör veitt hér um það, hverjar eru hinar fyrirhuguðu aðgerðir.

Hæstv. viðskrh. var hins vegar sammála fyrirspyrjanda og öðrum um það, að myntbreytingin ætti að vera liður í slíkum samræmdum aðgerðum, ef hún væri það ekki næði hún ekki tilgangi sínum.

Hæstv. forsrh. hefur sagt að myntbreytingin væri til þess gerð að auka traust manna á krónunni og ríkisstj. stefndi að því að nýta, eftir því sem unnt væri, gjaldmiðilsbreytinguna um áramót til margháttaðra efnahagsaðgerða. En hverjar eru þessar margháttuðu aðgerðir? Af hverju er ekki hægt að upplýsa þetta? Eða eiga menn bara að bíða og sjá þegar þar að kemur hverjar þær verða, eins og hæstv. viðskrh. ráðlagði mönnum hér í síðustu viku?

Á beinni línu í útvarpinu fyrir skömmu var forsrh. spurður frekar um þessar aðgerðir. Svarið var efnislega á þá leið, að í þjóðfélagi okkar væri ákaflega mikil sjálfvirkni og víxlgangur og þetta kerfi væri verulegur verðbólguvaldur. Á þessari víðtæku víxlverkun eða sjálfvirkni færi nú fram ítarleg úttekt í ríkisstj. Þess væri svo að vænta, að einhverjum árangri yrði náð nú fyrir áramót. Það var enn spurt, hvar ætti þá að grípa inn í þessa sjálfvirkni, og svarið var eins og vænta mátti: að sjálfsögðu væri ekki um það að ræða að greina neitt frá því í þessum þætti, þetta væri svo margþætt mál. Og enn er engu svarað. Hvers vegna ekki? Það er auðvitað vegna þess að í ríkisstj. er ekki samkomulag um neinar aðgerðir. Það vantar ekki tillögur hins vegar. Viðskrh. segir þetta, sjútvrh. hitt og fjmrh. vill bíða. (Forseti hringir.) Verðbólgan æðir svo áfram, — ég er alveg að ljúka máli mínu, hæstv. forseti, — verðbólgan æðir áfram og atvinnuvegirnir komast í þrot. Myntbreytingin sem liður í víðtækum efnahagsaðgerðum nýtist ekki, og það er ömurlegt að horfa á svo veigamikla aðgerð renna gersamlega út í sandinn fyrir aðgerðaleysi hæstv. ríkisstj.