08.05.1981
Neðri deild: 90. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4152 í B-deild Alþingistíðinda. (4280)

297. mál, tilraunastöð Búnaðarsambands Suðurlands

Frsm. (Þórarinn Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég tala hér fyrir nál. um frv. til l. um Tilraunastöð Búnaðarsambands Suðurlands og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins að Stóra-Ármóti. Í þessu frv. til l. segir svo í 1. gr., að landbrh. sé heimilt að semja við stjórn Búnaðarsambands Suðurlands um sameiginlegan rekstur tilraunastöðvarinnar að Stóra-Ármóti í Flóa, en eins og fram kemur í grg. með frv. fékk Búnaðarsambandið jörðina gefins á árinu 1979. Systkinin Sigríður, Ingileif og Jón Árnabörn á Stóra-Ármóti gáfu Búnaðarsambandinu jörðina til tilraunastarfsemi í landbúnaði.

Búnaðarsamband Suðurlands hefur nú í byrjun júní rekið tilraunabú í Laugardælum í 29 ár, og mörg hafa viðfangsefnin verið á þessum tíma sem öll hafa miðast að meiri og staðbetri þekkingu í fóðrun, hirðingu og ræktun íslenska nautgripastofnsins ásamt rannsóknum margra annarra þátta sem landbúnaðurinn byggist á. Stærsta verkefnið, sem unnið hefur verið að, eru afkvæmarannsóknir á vel kynjuðum ungum nautum, og þegar fundnir eru góðir einstaklingar eru þeir notaðir til að byggja upp ræktunarstarfið.

Eins og fram kemur í grg. með frv. hafa margar og margþættar tilraunir verið gerðar á þessum 29 árum, sem allar miða að því að ná betri tökum á landbúnaðarframleiðslunni og gera hana sem besta og ódýrasta. Með þessu frv. er stefnt að því að halda áfram á sömu braut og verið hefur síðustu árin, þó með þeirri breytingu, að ef þetta frv. verður að lögum er þessi tilraunastarfsemi í fastari skorðum. Tveir starfsmenn verða launaðir af ríkissjóði, en áður var einn starfsmaður, sérfræðingur, í Laugardælum og/eða rannsóknarmaður og sérfræðingar frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins af og til eftir verkefnum hverju sinni. Kosturinn er að mínu mati að bændur á Suðurlandi eru virkir þátttakendur í þessu samstarfi með þeirri miklu hlutdeild sem þeir eiga eins og áður í þessu tilrauna- og vísindastarfi, sem er landbúnaðinum mikilsvert eins og öllum atvinnuvegum er að hafa virka tilraunastarfsemi. Með þátttöku bændanna og staðsetningu tilraunastöðvarinnar úti í þessu stóra landbúnaðarhéraði, sem hún er staðsett í, tryggjum við tengslin milli rannsóknamanna og bænda svo sem hægt er.

Með þessu lagafrv, er það tvennt sem staðfest er: Búnaðarsambandið flytur tilraunastarfsemina á eignarjörð sína, Stóra-Ármót, og þátttaka ríkisins er ákveðin, sem áður var af hálfu Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Á þessar breytingar vona ég að allir geti fallist, enda hefur landbn. fjallað um þetta frv. og hefur hún á fundi sínum lagt til að það verði samþykkt eins og það liggur fyrir á þskj. 631. Einn nm. skrifar undir með fyrirvara, Pétur Sigurðsson.