11.11.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (429)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Á s.l. tveim árum hefur rutt sér til rúms nýtt orð í tungunni: gengisaðlögun í staðinn fyrir gengisfellingu. Eins og verðbólgan æðir núna áfram væri kannske skynsamlegt að skera niður þrjú núll í staðinn fyrir tvö og kalla núllaðlögun að vondri fjármálastjórn.

Ég held að það verði að telja það hæstv. viðskrh. til hróss sem hann sagði hér síðast þegar þetta mál var til umr. Þá kvaðst hann hafa gengið á fund seðlabankastjóra og spurt hann að því, hvort ekki væri hægt að fresta þessari gjaldmiðilsbreytingu, vegna þess að hann óttaðist að efnahagsráðstafanir, sem fylgja þyrftu, mundu ekki verða undirbúnar í tíma, en fékk það svar, að þá yrði skortur á peningum, þess vegna væri það ekki hægt. Og hæstv. viðskrh. harmaði þetta eðlilega. Sér líka hver skynsamur maður, að skynsamlegra hefði verið að fresta þessu þangað til um stjórnvölinn héldu einhverjir þeir menn sem í alvöru vildu stjórna og hefðu eitthvert strik að fylgja.

Ég kvaddi mér aðallega hljóðs til þess að ítreka spurningu sem hv. 1. þm. Reykn. varpaði hér fram síðast þegar málið var til umr., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Mig langar til þess að varpa fram þeirri spurningu til hæstv. viðskrh. eða þá til hæstv. forsrh.: Mega alþm. gera ráð fyrir því, að áður en þeir fara heim í jólaleyfi fái þeir að sjá hér á borðum sínum tillögur ríkisstj. í sambandi við þær ráðstafanir sem hún telur nauðsynlegt að gera vegna myntbreytingarinnar sem fram á að fara um áramót?“

Það þarf ekki nema já eða nei. Er einhver ráðh. hér inni sem treystir sér til að segja já eða nei við þessu? (GJG: Eða kannske.) Kannske, segir formaður Verkamannasambandsins. Treystir enginn ráðh. sér til þess að gera það? Hvorki já né nei? (Gripið fram í: Það er einn búinn að biðja um orðið.) Herra forseti. Það er þá óhjákvæmilegt fyrir mig að leggja þessa spurningu fram með formlegum hætti. Ég vænti þess, að með aðstoð hæstv. forseta sá hægt að þröngva svari út úr einhverjum ráðh. þótt síðar verði.