08.05.1981
Neðri deild: 90. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4157 í B-deild Alþingistíðinda. (4292)

174. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Forseti (Sverrir Hermannsson):

Ég ætla nú að kveða upp úrskurð minn í þessu máli ef það kynni að stytta umr. Við beiðni hv. 2. landsk. þm. get ég ekki orðið. Ég trúi ekki að ég hafi talað tæpitungu um þetta mál í gær þegar ég tilkynnti að það yrði tekið fyrir hér í dag.

Enn er þess að geta, að þetta mál er einfalt í sniðum þannig að það eru ýmsir sem gætu setið fyrir svörum og eru jafnvel kunnugir þessu og hæstv. sjútvrh. og betur. Hv. þm. Karvel Pálmason lét þess í engu getið í umr. hér í gær, þegar tilkynnt var að málið yrði tekið fyrir í dag, að hann yrði fjarverandi. Það gerði hann ekki fyrr en í hvíslingum við mig á eftir og gat ég þá auðvitað málskoti hans í engu sinnt.

Enn er þess að geta, að hv. 6. landsk. þm. hefur fengið til þess tækifæri að skila áliti og segja álit sitt á þessu máli. Hann hefur ekki notfært sér það tækifæri vegna þess að nál. hans er svona: „Undirritaður leggur til að frv. verði fellt.“ — Þetta álit sitt gat hann beðið með þangað til í atkvgr. ef hann hefur ekki fleira um málið að segja. Menn stilla sér ekki upp sem frsm. fyrir máli með svona nál. því að nál. eru búin til til þess að menn geti tekið afstöðu til málsins eftir innihaldi álitsins. Þetta hljóta allir menn að skilja.

Þá kom fram raunar hér nú einnegin, að þetta mál kom út úr nefnd með álitum 19. mars. Ég áttaði mig ekki á því í fyrstu og hélt að menn væru með rökstuddar beiðnir þegar ítrekað var beðið um að þetta mál yrði tekið af dagskrá. Ég sýndi því fullkomna tilhliðrunarsemi. En ég átta mig á því nú, að menn eru með þessu að gildra til þess, að málið nái ekki afgreiðslu, og það er nokkuð sem ég er alveg nýlega búinn að átta mig á. Þannig greiði ég ekki fyrir málum, ef sá er tilgangurinn. Menn hafa ýmis önnur ráð til að hindra framgang mála en að narra forseta til að láta ekki mál ganga fram með eðlilegum hætti.

Hv. 6 þm. Norðurl. e. tekur til máls um þingsköp og nú fara þær umr. mjög að styttast.