08.05.1981
Neðri deild: 90. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4158 í B-deild Alþingistíðinda. (4295)

174. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Jósef H. Þorgeirsson:

Herra forseti. Ég vil eindregið fara fram á að forseti endurskoði afstöðu sína til þessa máls. Mér virðist að það sé í alla staði mjög óþinglegt að ætlast til þess, að deildin taki afstöðu til þessa máls að flm. málsins fjarstöddum og án þess að heyra rökstuðning þess talsmanns minni hl. sjútvn. þessarar deildar sem lagt hefur til að málið verði fellt. Forseti gat þess í sinni tölu, að nál. væri ákaflega stutt og þar segði nánast ekki annað en að lagt væri til að málið verði fellt. Þetta bendir til þess, að full ástæða sé til þess að sá þm., sem að þessu nál. stendur, fái tækifæri til að skýra mál sitt betur, enda er ekkert vafamál að hann hefur einmitt haft nál. stutt og laggott af því að hann hefur vitað að hann fengi tækifæri til að gera nánari grein fyrir afstöðu sinni á þingfundi. Ég geri fastlega ráð fyrir að þessi þm. hafi ekki eingöngu ætlað að gera nánari grein í framsögu fyrir áliti sínu á þessu máli, heldur hafi hann jafnvel hugsað sér að leggja einar og aðrar spurningar fram fyrir flm. þessa máls og óska eftir að fá við þeim svör og þess vegna hafi hann beðið um frestinn í gær. Mér virðist að þessi þd. eigi fullan rétt á að þessir tveir alþm., sem þetta mál snertir svo mjög, fái tækifæri til að vera viðstaddir afgreiðslu þess í deildinni og fer því eindregið þess á leit við forseta, að hann fresti þessari umr. enn um skamma hríð.