08.05.1981
Neðri deild: 90. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4159 í B-deild Alþingistíðinda. (4299)

174. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. meiri hl. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Þá hafa menn heyrt hverjar aðferðir postular þessa einkennilega trúarsamfélags, sem er á móti því að drepa kola, vilja beita í þingmálum: ofbeldi og aftur ofbeldi.

Það eru einkennilegar röksemdir sem þessir menn beita fyrir sig. Fyrst er það, að í gær var komið í veg fyrir, að málið mætti koma fyrir, með því að segja að 1. flm. væri ekki viðstaddur, hæstv. sjútvrh. Hæstv. sjútvrh. hefur þegar talað fyrir þessu máli og látið þar koma fram sínar skoðanir og hann þarf ekki að vera hér viðstaddur sem ráðh., vegna þess að fyrir hann gegnir auðvitað annar ráðh. störfum auk þess sem hann hefur tekið inn fyrir sig varamann þannig að þar eru í rauninni komnir tveir menn í staðinn fyrir einn.

Ég verð að segja það, vegna þess að þetta er sjávarútvegsmál og er komið út úr minni n., að þeirri n, hafa borist eitthvað á annan tug mála í vetur af ýmsu tagi, smá og stór, oft mjög stór, sem varða þjóðfélagið miklu, og þar eru miklir fjármunir undir. Öll þessi mál hafa nú verið afgreidd út úr n, og ekkert bíður. Þó er stjórnarliðið í minni hl. í þessari hv. n. og þar eru oft skiptar skoðanir. Þar hefur stjórnarandstaðan með meiri hl. áreiðanlega mikil tækifæri til að tefja framgang mála stjórnarinnar, sem hafa oft verið seint fram borin og allt of seint á ferðinni að öðru leyti. (Gripið fram í.) Ég vil kannske ekki taka undir það, en það hafa oft verið mikil hápólitísk deilumál á ferðinni. En aldrei hafa nm., hvar í flokki sem þeir eru, misnotað það tækifæri, sem þeir hafa í n., til að tefja fyrir þinglegri,meðferð málanna. Í n. eru nefnilega menn sem virða lýðræðið í raun, en haga sér ekki og mæla, eins og fulltrúar þessa einkennilega sértrúarsafnaðar á móti kolaveiðum, á svo óþinglegan hátt sem mest má verða eins og raun ber vitni.

Kannske eigum við ekkert að vera að veiða þennan kola.

Af hverju eru Íslendingar að fiska svona mikið? Ekki éta þeir allan þennan fisk. Og hver er ástæðan? Og hvaða fiska má drepa?

Ástæðan til þess, að við veiðum miklu meira en við étum og högum okkur að því leyti til eins og minkurinn, er auðvitað sú, að þjóðin lifir á þessum veiðum og vinnslu og þeim verðmætum sem fyrir þær koma. Og það er vegna þess sem við höfum gengið eins langt og við höfum mögulega getað og jafnvel lengra stundum en hollt hefur verið í að nýta fiskstofnana þannig að þau orð eru orðin föst í málinu að tala um ofnýtta fiskstofna og um vannýtta fiskstofna. Ýmsar leiðir hafa verið farnar til að draga úr sókn í þá stofna sem hafa verið á mörkunum að verða ofnýttir eða of í þá sótt, og í stað þess hefur verið beint athyglinni að því og meiri áhersla lögð á að sækja í aðra stofna. Sumir þessara stofna, sem áður voru taldir vannýttir, eru nú þegar ofnýttir af þessum sökum, en enn eigum við nokkuð eftir þarna í varasjóði og það er kolinn við landið, allt í kringum landið. Þetta er dýrasti fiskur sem syndir í kringum þetta land.

Okkur ber einnig skylda til að reyna að stunda útgerð og aðra atvinnustarfsemi með sem hagkvæmustum hætti. Þar hefur auðvitað oft orðið mikill misbrestur á, því miður. Ég ætla ekki að fara að rekja það hér. En það er alveg ljóst að í sambandi við skarkolann hér í flóanum er um mjög hagkvæmar veiðar að ræða á afar dýru hráefni. Ég vil fullyrða að þau tonn, sem fiskifræðingar telja að veiða megi úr þessum stofni hér í flóanum, séu a. m. k. 4–5 milljarða kr. virði. Þau er hægt að sækja á litlum bátum stutta vegalengd með ódýrri útgerð. Þetta er sem sagt afar hagkvæm veiði, auk þess sem þetta gefur fólki auðvitað atvinnu í landi. Það er þess vegna óskiljanlegt hvernig menn leyfa sér að hamast á móti þessum málum hreinlega af trúarástæðum. Engin rök þessara manna halda. Þau eru byggð á misskilningi, þau eru byggð á vanþekkingu og ýmsum öðrum ástæðum.

Herra forseti. Ég held að það sé ekki ástæða til að halda um þetta langa ræðu að þessu sinni. Hér hefur verið sagt úr ræðustól sjálfsagt flest það sem mælir með því, að þetta mál nái fram að ganga. Auk þess hafa fulltrúar kolaverndunarmanna flutt hér sitt mál með sínum útskýringum, - ég treysti mér varla til þess að kalla það röksemdir, — þannig að það er varla ástæða til að eyða mjög löngum tíma. Til þess að gera langt mál stutt tel ég að það væri ekki úr vegi, — ef þeir menn vildu hlusta sem haga sér kannske svona af einhverri ímyndaðri atkvæðahræðslu, ég held að það sé alveg misskilningur eins og málið stendur, en þannig eiga menn auðvitað aldrei að haga sér, — ég held að það sé full ástæða til þess að lesa frvgr. eins og hún er. Þess vegna hafði ég með mér í ræðustólinn frv., að ég gæti lesið þetta fyrir ykkur sem enn eruð vantrúaðir, að þið megið hlýða á hvernig þetta hljóðar. Frvgr. hljóðar svo:

„Leyfi til dragnótaveiða í Faxaflóa skulu bundin við veiðar á skarkola. Skal Hafrannsóknastofnunin gera tillögu til ráðh. um skipulag þeirra veiða, m. a. um aflamagn, veiðitíma, veiðisvæði og fjölda veittra leyfa.“

Sjútvn. hefur að vísu gert tillögu um breytingu sem er fólgin í því, að Hafrannsóknastofnunin, sem er vísindastofnun sem annast fiskifræðileg málefni, segi ekki til um fjölda veittra leyfa. Það er hins vegar pólitískt fyrirkomulagsatriði sem á auðvitað miklu fremur heima í höndum rn.

Hvað segir raunar þessi grein? Henni er lokið, herra forseti. Hún segir, að það megi leyfa tilteknum bátafjölda að stunda dragnótaveiðar í flóanum til að veiða skarkola, og ekki annað. Hví hræðast þá menn svo þessa breytingu? Mér er það raunar óskiljanlegt. Menn hafa verið með þær röksemdir, að þessi dragnótaveiði, sem þó er svo í hóf stillt eins og raun ber vitni og miðar eingöngu að veiðum á kola, verði til þess að drepa niður lífið í flóanum. Hvernig? Botninn í Faxaflóa er verndaður af náttúrunni vegna sköpulags hans, eins og mönnum er kunnugt, þar sem hér eru víða mikil hraun og ósléttur botn þar sem engin leið er að draga dragnót. Náttúran verndar flóann og lífið í honum a. m. k. að 4/5. Það er aðeins hægt að vera með dragnót á mjög takmörkuðu svæði. Alls staðar annars staðar geta fiskar sjávarins synt í friði, óttalausir og þurfa ekki að hræðast þetta hræðilega drápstæki.

Í annan stað hafa menn verið að tala um að dragnótin eyði ungfiski, drepi hann, misþyrmi honum, skemmi botninn o. s. frv., o. s. frv. Allt er þetta meira og minna misskilningur, því miður fyrir þá. Möskvastærðin í dragnótinni er 155 mm. Það var að vísu samþykkt hérna um árið að leyfa aðeins að nota 170 mm möskva í dragnót, en sannleikurinn er sá, að það er orðinn svo stór möskvi að hann heldur varla nokkrum fiski. Það vill svo til, að 170 mm eru 17 cm, og þá geta menn séð í hendi sér hvers konar möskvi það er og hvaða kvikindi verða þá eftir í þessu. Það borgar sig hreinlega ekki að stunda veiðar með svona risastórum möskva. Það syndir allt þar í gegn. 155 mm möskvi er auðvitað nokkru minni, en samt er það svo, að eins og gerð dragnótar er háttað er það orðinn býsna stór fiskur sem verður eftir í veiðarfærinu. Það er ólíku saman að jafna við trollið, hvernig netið er í dragnótinni, þannig að veiðarfæri með svona stórum möskva, sem veiðir með þeim hætti sem dragnót gerir, drepur ekki smáfisk. Hugsið ykkur að einmitt þessa dagana, nú á þessu vori, er allur togarafloti landsmanna eða svo gott sem á veiðum fyrir Austfjörðum, á Hvalbakssvæðinu og þar í grennd, að drepa smáþorsk og annan smáfisk, smáýsu raunar núna einnig. Hver fiskur er kannske ekki nema eins og 1.5 kg að meðaltali. Það er ekki stór þorskur með haus og hala og öllu saman. Það er afar smár fiskur — fiskur sem ætti að fá að lifa lengur og fá að stækka og verða feitur og myndarlegur og verða að meira gagni þegar hann hefur náð svolítið meiri þroska en nú er. Auðvitað er hreint hneyksli að stunda slíkar veiðar. Það er full ástæða til að vara við slíkum veiðiskap, einkum ef hann er stundaður af svo mörgum og afkastamiklum skipum. En þarna er um allt annað að ræða. Ef menn hafa kynnt sér lögin um veiðar í fiskveiðilandhelginni vita þeir að þar er sérstök grein sem fjallar um dragnótaveiðar. 2. gr. þessara laga er um að veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót séu bannaðar í fiskveiðilandhelginni. Þessi grein um dragnótina segir þó að þrátt fyrir ákvæði þessarar greinar sé heimilt að veita leyfi til dragnótaveiða. En hverjum? Aðeins bátum sem eru 20 metrar eða minni, þ. e. afkastaminnstu bátunum, enda er þarna ekki um afkastamikið fyrirtæki að ræða.

Til vísindamanna þjóðarinnar eru menn ævinlega að vitna, þegar á að fara að vernda aðrar fisktegundir, og segja: Við megum ekki ganga lengra en þessir menn. Við verðum að treysta því sem fiskifræðingarnir segja. — En svo koma auðvitað margir og segja: Við skulum bara veiða meira. Þeir segja alltaf að það eigi að veiða minna en í raun og veru er óhætt. — En hvað segja fiskifræðingar? Allir fiskifræðingarnir mæla eindregið með því, að þessar dragnótaveiðar séu leyfðar í því skyni að drepa kolann til þess að ná í þessa fjármuni sem þjóðin lifir af. Hv. þm. úr sértrúarflokknum finnst kannske að við öflum of mikið. Ekki ber fallandi gengi krónunnar vitni um að það standi of mikil verðmæti á bak við seðlaútgáfuna í landinu. Menn skulu athuga að margt smátt gerir eitt stórt. Auðvitað er ákaflega mikilvægt að nýta þær afurðir sem tiltækar eru.

En hvað segja fiskifræðingarnir, svo að við hættum við þennan útúrdúr? Þeir segja: Við skulum endilega veiða 1500 tonn af þessum kola. — Samkv. fyrri reynslu og tali okkar varðandi annan fisk ætti auðvitað að segja: Þeir fara nú varlega í þetta. Okkur hlýtur að vera óhætt að veiða a. m. k. 2000 tonn. — Og ég er alveg viss um að það er óhætt. Þessi koli hefur fengið að vera í friði allt of lengi til þess að það sé. of lítið af honum.

Nú koma röksemdir sértrúarhópsins einu sinni enn. Auðvitað er hægt að segja: Við veiðum hann bara þegar hann er genginn djúpt og farinn hér út úr flóanum þannig að við þurfum ekki að merja skottið á hinum — þessum fiskkvikindum öðrum sem kunna að vera að þvælast fyrir veiðarfærunum. Við skulum bara taka hann seinna. (Gripið fram í.) Já, er það ekki? Ættum við ekki líka að hafa vertíðina á sumrin og stunda þá veiðar í miklu betra veðri, ekki í þessum ofsa sem yfir gengur hér í skammdeginu þar sem menn eru að berjast og hætta lífi sínu til að sækja þessi gulu kvikindi sem halda okkur lifandi? Af hverju ekki að hafa þetta á vorin og sumrin? Það er ósköp einfaldlega vegna þess að við getum ekkert breytt því með neinum reglugerðum eða ákvæðum, sem við erum að tala um á þessum stað, hvernig fiskurinn hagar sér. Hann ansar því ekki. Svona er lífið. Ef við ætlum að veiða þennan fisk þegar hann er feitastur, verðmætastur og næst landi og hægt er að veiða hann með sem ódýrustum aðferðum verðum við að taka hann um sumar og fyrri hluta haustsins hér í Faxaflóa og ekki annars staðar. Þegar hann er farinn burtu er hann búinn að hrygna. Þá leggur hann af, þá verður hann óætur og kostar óhemju olíu að ná þessum kvikindum.

Herra forseti. Ég hefði gaman af því að segja fáein orð í viðbót, en ég tel að bæði í fyrra skiptið þegar þetta var rætt og eins í gær hafi ég tínt til, a. m. k. þegar allt það mál er lagt saman, flest það sem máli kann að skipta í þessum efnum og það sé óþarfi að halda þessu miklu lengur áfram. En ég vil segja að lokum, að ég skora á þessa menn, sem af einhverjum ástæðum hafa fengið það inn í höfuðið að dragnót sé stórhættulegt veiðarfæri og að fiskileysið á sínum tíma í Faxaflóanum hafi orðið vegna dragnótar, sem er algerlega ósannað mál, líklega algjörlega út í hött, og að fiskgengdin, eftir að hún var bönnuð, hafi orðið vegna þess að dragnótin var bönnuð, að þeir hugsi sig nú aðeins betur um og átti sig á stærðunum í þessu máli. 7–10 bátar innan við 20 metrar langir með þetta ræfilsveiðarfæri í afturendanum, dragnótina, eyða ekki lífi á svo stóru hafsvæði sem Faxaflóinn er. Hugsið ykkur betur um áður en þið farið að fara enn einu sinni með þessar svokölluðu röksemdir upp í ræðustól á hinu háa Alþingi.