08.05.1981
Neðri deild: 90. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4162 í B-deild Alþingistíðinda. (4300)

174. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Suðurl. hefur talað. Ég held að hann hafi sannfært okkur um að hann sé sennilega eini þm. hér sem hægt er að kalla að sé í einhverjum sértrúarflokki, ef á að taka ræðu hans alvarlega eða a. m. k. hluta af máli hans hér úr ræðustól. Hann talar um ofbeldi og aftur ofbeldi ef menn vilja hafa sérstaka skoðun á einhverju máli hér í hv. deildinni. Ég fer að halda að það sé ákaflega erfitt að mynda sér sérskoðanir um mál ef menn eiga von á því að verða fyrir aðkasti slíkra manna hér í ræðustól í hv. deild. Ég vil a. m. k. frábiðja mér slíkt. Ég tel að nauðsynlegt sé að ræða það mál, sem hér er á dagskrá, málefnalega eins og önnur mál og það sé ekki nema eðlilegt að menn hafi þar skiptar skoðanir. Við búum við málfrelsi hér á landi, hv. þm.

Ég skal ekki gera lítið úr þekkingu hv. þm. á sjávarútvegsmálum eða veiðimálum almennt. En ég vil minna hann á að fleiri hafa alist upp við sjóinn og kunna skil á þessum málum en hann. Það ætla ég að láta hann vita. Það hafa fleiri verið á sjó en hv. 4. þm. Suðurl.

Ég skal ekki tefja þd. á löngu máli um þetta frv. sem hér er til umr. Mér þóttu ákaflega furðulegir úrskurðir hæstv. forseta um ósk um frestun málsins, sem hér komu fram í sambandi við umr. um málið. Ég ætla þó ekki að ræða það meira.

Ég vil aðeins rifja upp örfáar staðreyndir í þessu máli. Í fyrsta lagi væri ekkert að því, að hv. þm. kynntu sér sögu dragnótaveiða í Faxaflóa og kynntu sér afleiðingar þess, sem urðu á árunum frá 1960—1970, þegar sú ákvörðun var tekin hér á hv. Alþingi að banna dragnótaveiðar. Þá var orðin alger ördeyða í Faxaflóa. Við skulum fyllilega viðurkenna að dragnótarveiðarfærin í dag eru allt önnur en þau voru á þessu tímabili. Við skulum líka viðurkenna að á þessu árabili var ekkert eftirlit eða a. m. k. ekki miklar takmarkanir á því, hvers konar fiskur kom í þetta veiðarfæri. Ég dreg í efa að hægt sé að takmarka veiðar, ef leyfðar verða, að það sé hægt að skylda sjómenn hér í Faxaflóa á einhverjum bátum til að toga nákvæmlega á einhverjum bletti allan þann tíma sem þeir eru á sjó. Það er rökleysa.

Þegar þetta mál var til umr. í Ed. Alþingis fyrir nokkrum árum, 1978–1979, voru menn sammála um að eðlilegt væri að breyta til og leyfa tilraunaveiði í Faxaflóa undir sérstöku eftirliti. Ég vil minna á að þetta leyfi var skilyrt frá Alþingi. Það var skilyrt þannig að þessar veiðar yrðu takmarkaðar, þetta yrðu tilraunaveiðar takmarkaðar með þessu veiðarfæri og það væri miðað við 170 mm möskvastærð. Það var neglt niður að möskvastærðin mætti ekki vera undir 170 mm. Það, sem síðar skeður, er óskiljanlegt. Það er alger lögleysa, ef við eigum að miða við að farið sé eftir því sem Alþingi ákveður, að minnka möskvann niður í 155 mm eins og gert var. Þannig hafa þessar veiðar farið fram síðan þessi heimild var gefin út með leyfi Alþingis. Ég vil einnig minna á það hér, að á fundi, sem ég var á og þar sem fiskifræðingar voru, viðurkenndi Aðalsteinn Sigurðsson, sem hefur aðallega staðið fyrir þessum tilraunum, að það hefði e. t. v. ekki verið rétt að framkvæma þessa tilraunaveiði með 155 mm möskva því að það hefði ekki verið til þess lögleg heimild.

Ég segi það alveg eins og er, að ég get vel fellt mig við að þessi tilraunaveiði haldi áfram þar sem það er staðreynd að hægt er í gegnum þessa tilraunaveiði, sem er undir mjög ströngu eftirliti, að ná því magni sem fiskifræðingar telja hámark að taka úr Faxaflóa, þ. e. 1000–1500 tonn af skarkola. Á s. l. ári urðu þessar veiðar rúmlega 1100 tonn. Ég get vel fellt mig við það. En ég tel að það sé vafasamt að gefa þessar veiðar frjálsar þegar það er tekið fram að ekki má veiða meira magn en 1000–1500 tonn af skarkola á þessu svæði.

Menn hafa talað um að nauðsynlegt væri að leyfa þessar veiðar vegna þess að þessi fiskstofn væri vannýttur. Ég get fallist á það. Það hefur verið talað um að eðlilegt væri að leyfa veiðar á 10000 tonnum af skarkola hér við land. Hví er það ekki gert? Það eru víðs vegar kringum landið opin veiðisvæði til skarkolaveiða. Eru það talin mjög góð mið og hafa þá sérstöðu að ekki er talið að veiðar á þessum svæðum skemmi uppeldi annarra nytjafiska við landið. Af hverju er þá ekki veitt þar? Ég skal segja hv. 4. þm. Suðurl. hvers vegna það er ekki gert. Það er vegna þess að það er enginn áhugi á auknum markaði fyrir þessa vöru. Fiskvinnslustöðvarnar á þessu svæði og fisksölusamböndin í landinu, bæði Sambandið og Sölumiðstöðin, kæra sig ekkert um aukningu á þessum veiðum. Ég get sagt og sannað sögur af því, að bátar á miðum við Breiðafjörð, sem hafa dragnótarleyfi, mega ekki koma með skarkola að landi nema í mjög takmörkuðu magni vegna þess að það eru ekki viðunandi markaðsmöguleikar fyrir vöruna. Þetta er stórt atriði. Á þessum svæðum er hægt að veiða mörgum sinnum meira magn en á Faxaflóasvæðinu, sem hefur algera sérstöðu í þessu máli. Það væri hægt að tala um svæði út af Vestfjörðum og út af Patreksfirði og það væri hægt að tala um svæði á Skjálfandaflóa og víðar sem eru viðurkennd skarkolasvæði. Þetta er staðreynd sem ég held að við þurfum að átta okkur á. Það kom fram í umr. um þetta mál í Ed. á sínum tíma, þegar þessi tilraunaveiði var leyfð, að það yrði að fara saman markaðshagnýting á þessari fisktegund um leið og veiði væri aukin. Á því hefur orðið misbrestur. Ég get endurtekið hér það sem ég hef sagt áður, að heilfrystur koli er það lágt verðlagður að það borgar sig ekki að veiða hann og það borgar sig ekki að verka hann. Mörg frystihús hér á landi hafa orðið að grípa til þess óyndisúrræðis að kasta þessu hráefni, þ. e. heilfrystum skarkola, úr frystiklefa beint í gúanó. Um þetta eru staðreyndir í mörgum verstöðvum hér á landi.

Ég vil endurtaka það sem ég sagði áðan, að ég get vel fellt mig við tilraunaveiði áfram á vegum Hafrannsóknastofnunar, en sú veiði hér í Faxaflóa verður að vera með þeim skilyrðum sem Alþingi setti á sínum tíma: 170 mm möskva.

Ég hjó eftir því áðan, að hv. 4. þm. Suðurl. var að tala um veiði togaraflotans á smáfiski, smáfiskveiði. Ég geri ráð fyrir að hv. alþm. viti að, möskvastærð í vörpu togaranna er 155 mm. Því hefur verið haldið fram í umræðum um dragnótina að það væri engin hætta. Möskvinn væri svo stór að smáfiskurinn synti í gegn. Hann yrði ekki drepinn í þessum vörpum. Hvers vegna er þá verið að loka hverju veiðisvæðinu á fætur öðru hjá togurunum allt í kringum landið vegna þess að þeir eru að drepa smáfisk í 155 mm möskvastærð? Ég get viðurkennt að hraði í togi togaranna er meiri en hjá dragnótabát. En alla vega afsannar þetta þá kenningu, að möskvi í nót, hverju nafni sem hún nefnist, sé alltaf í réttri stöðu þegar togað er á botni. Þetta er rangtúlkun. Auðvitað tekur þetta veiðarfæri eins og önnur smáfisk í vörpuna ef það fer yfir svæði þar sem smáfiskur er.

Ég skal ekki, eins og ég lofaði að gera, halda langa ræðu þó það væri ástæða til þess. Ég er með ótal skjöl frá hagsmunaaðilum við flóann, frá bæjarstjórninni á Akranesi, frá ótal aðilum sem gera út smábáta kringum Faxaflóa, sem sýna hvað þetta er raunverulega mikið alvörumál. Ég ætla ekki að eyða tíma í það hér, en ég vil aðeins minna á að mér þótti það furðulegt í umræðunum á Alþingi í gær þegar hv. 1. landsk. þm. var að setja ofan í við hæstv. dómsmrh. vegna þess að hann væri að hugsa um sitt kjördæmi. Það var eins og það væri orðinn allt annar landshluti. Ég hefði þó haldið að Faxaflói væri að stórum hluta út af Vesturlandskjördæmi. Það hefur eitthvað skolast til í höfðinu á hv. 1. landsk. þm.

Ég vil að lokum segja það, að ég tel ástæðu til að viðurkenna vissar staðreyndir í sambandi við Faxaflóa. Ég tel ástæðu til að virða þær staðreyndir, að friðun Faxaflóa fyrir þessi veiðarfæri á sínum tíma, 1970, hefur sannað gildi sitt og hefur sannað það áþreifanlega að eftir að þessar veiðar voru bannaðar hefur aukin fiskgengd og uppeldi fisks í Faxaflóa orðið staðreynd. Þess vegna tel ég að það sé ástæðulaust að samþ. þetta frv. Hægt er að veiða þessa ágætu fisktegund, skarkolann, víðs vegar kringum landið með bættu skipulagi, og ef viðkomandi sölusamtök hafa áhuga eða fiskvinnslustöðvar er hægt að veiða það magn, sem fiskifræðingar telja hámarksveiðimagn, þ. e. allt að 10000 tonnum, á öðrum svæðum þar sem ekki er hætta á röskun á uppeldi annarra nytjafiska. Þess vegna er ég mótfallinn þessu frv. um leið og ég segi það sem staðreynd að frv. er mjög gallað. Ég er t. d. ekki sannfærður um að það sé eðlilegt að Hafrannsóknastofnunin skuli segja til um hverjir fái leyfi til veiða á vissum hafsvæðum.