08.05.1981
Neðri deild: 90. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4165 í B-deild Alþingistíðinda. (4301)

174. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Hér virðist um mikið hitamál að ræða, og er samt ekki oft og tíðum fyrir þá, sem stunda þennan atvinnuveg, um mikinn hita að ræða. Aldrei hefur a. m. k. þeim, sem nú talar, verið kaldara til sjós en við dragnótaveiðar í Faxaflóa.

Það er auðvitað út af fyrir sig alveg rétt hjá hv. síðasta ræðumanni, sem reyndi meginhluta ræðu sinnar að tala efnislega um málið þótt öðru hvoru gluggaðist svolítið til í hans kolli líka, að menn eiga að kynna sér sögu dragnótaveiða í Faxaflóa. Við, sem höfum alist upp frá því við vorum drengir við fiskveiðar í Faxaflóanum, þekkjum náttúrlega nokkuð til þeirra. Sjálfur geri ég það og reyndar nokkuð inn á áhrifasvæði þess kjördæmis sem þessi hv. þm. kemur frá. En hafsvæðið, sem þeir virðast bera fyrir brjósti, er orðið allvíðtækt. Það er enginn vafi á að þessi skipulagða tilraun þm. í Vesturlandskjördæmi til þess að málið dagi hér uppi er sjálfsagt ekki til þess að málið tefjist um alla eilífð, heldur kannske fyrst og fremst til þess að kolinn nái meiri þroska og það líði að þeim tíma ársins að hann gangi fyrir Jökul og kannske að hafnarmynninu í Ólafsvík og Stykkishólmi. Má þá vera að hinir persónulegu hagsmunir þeirra hv. þm. úr þessu kjördæmi séu komnir í ljós.

En um leið og við kynnum okkur sögu dragnótaveiða í Faxaflóa er auðvitað ekki nóg að segja slíkt. Við skulum þá um leið rekja okkar eigin fiskveiðisögu alla. Hvað segir hún okkur? Hvað höfum við verið að gera á undanförnum árum? Hvernig hefur staðan verið hjá okkur í þorskveiðunum? Ofveiddur stofn. Hvernig var saga okkar í sambandi við síldveiðarnar? Við eyddum síldarstofninum við Ísland. Hvernig er komið loðnustofninum? Við erum búin að veiða allt of mikið úr honum. Hvernig hefur það verið á staðbundnu svæði með humar og rækju? Hvernig var það með skelina við heimadyr þeirra í Vesturlandskjördæmi, sem hafa fengið einkarétt til nýtingar hennar vegna þess að það var ofveiði þar? Er ekki sama sagan hvert sem við Íslendingar lítum og hvaða veiðarfæri sem við tölum um og hefur verið notað? Ef við ofveiðum með veiðarfærinu erum við að stefna í hættu. Þetta er meginstaðreyndin. Við skulum líka slá því föstu, það er alveg sama hvort það heitir dragnót eða hvort það heitir handfæri, að þessi veiðarfæri eru hættuleg fyrir fiskinn. Ég minnist þess hér um árið þegar 15 trillubátakarlar á Akranesi fengu því ráðið og ráða því enn hvernig Faxaflóinn er nýttur fyrir þær tugþúsundir manna sem búa við Faxaflóann. Þegar búið var að banna dragnótina komu trillur þaðan og seldu handfærafisk hér við bryggjurnar í vesturhöfninni. Það var fiskur sem núna væri algjörlega bannað að koma með að landi. En hann var drepinn á handfæri. Það var talið sjálfsagt bara af því það var ekki dragnót. Þetta gerðu þeir í Hafnarfirði líka.

Nei, við skulum ekki loka augunum fyrir því, að öll veiðarfæri eru hættuleg. Þau eru hættuleg ef þeim er misbeitt og ef þau eru misnotuð og ef það er gengið of nálægt stofninum. Það er það sem við höfum lært frá því við settum lögin um dragnótaveiðarnar 1960, og reyndar ekki aðeins um dragnótina, heldur um öll okkar veiðarfæri, að umgangast stofnana með þeim veiðarfærum sem við höfum til umráða á þann veg að þeir ekki aðeins haldi sér við, heldur aukist og eflist og stofninn stækki.

Ég hef vissulega oft gagnrýnt fiskifræðinga okkar og vil ekki taka að fullu leyti tillit til þeirra alltaf. Ég get hins vegar ómögulega staðið frammi fyrir því að segja: Það er allt tóm vitleysa sem þið segið, ég vil ekki hlusta á ykkur. — Mér kemur það ekki til hugar. Og guði sé lof að þeir hafa ekki alltaf haft rétt fyrir sér. En ég álít og ég veit að við þm. getum verið sammála um að okkur ber að fylgja ráðum þeirra að svo miklu leyti sem við mögulega getum og efnahagslíf þjóðarinnar leyfir. Ég held að við eigum nokkuð að fara eftir því sem þeir segja okkur um þennan stofn og aðra. Í þessu frv. hæstv. sjútvrh., Steingríms Hermannssonar, er lagt til að leyfa þessar veiðar mjög takmarkaðar. Þær eru bundnar við skarkola og það er Hafrannsóknastofnunin sem á að hafa algjörlega með að gera þær tillögur, sem fram eru lagðar, og skipulag þeirra. Ég held að enginn vísindamaður á meðal þjóðarinnar í dag hafi getað sýnt fram á vísindalegar niðurstöður úr sínu starfi á jafnjákvæðan hátt og Aðalsteinn Sigurðsson gerir, starfsmaður Hafrannsóknastofnunarinnar. Auðvitað hefðu þau tvö sérrit úr Ægi, sem við þm. fengum í hendur frá honum, átt að vera skyldulesning bæði fyrir þá, sem fylgja dragnótaveiðum við Faxaflóa, og þá, sem eru á móti þeim. Við skulum hafa það í huga líka, að vegna hins frábæra árangurs, sem náðist með 170 mm dragnót, mælti Hafrannsóknastofnun með að fara neðar og reyna með 155 mm. Við sjáum á þeim línuritum, sem þar koma fram, og súluritum að í öllum spám og því, sem þeir sögðu fyrir, er fylgni svo mikil að næsta ótrúlegt er.

Það kemur líka fram í þessum rannsóknum og niðurstöðum þessa vísindamanns og stofnunarinnar raunar í heild, þeirra manna sem að þessu störfuðu þar, að í fyrsta lagi er ekki nema mjög takmarkaður hluti Faxaflóans sem leyfir að það sé veitt þar með slíku veiðarfæri. Í öðru lagi er enn stærri hluti flóans algjörlega friðaður fyrir þessu veiðarfæri. Þannig er orðið afskaplega lítið það svæði sem hægt er að veiða á og má veiða á með dragnót í Faxaflóa. Auk þess eiga að vera þær takmarkanir á, bæði um aflamagn og stærð möskva, en það á að fylgja því sem Hafrannsóknastofnun segir, og það á líka að takmarka fjölda báta og veiðitíma. Hér er því auðvitað verið að nýta verðmæti sem þarna eru í hafinu.

Þá komum við að þeim hluta úr ræðu hv. síðasta ræðumanns sem ég vildi aðeins fara nokkrum orðum um.

Hann benti réttilega á það, og það mun vera staðreynd, að víða umhverfis land hefur veiðst koli sem ekki nýtist. En af hverju nýtist hann ekki? Jú, það er af því að hann er heilfrystur, vegna þess að þar eru ekki til þau nútímatæki sem hafa verið tekin í notkun hér við Faxaflóa, sem leyfa og skylda okkur til að nýta þennan stofn þjóðinni til blessunar, leyfi ég mér að segja. Það eru að sjálfsögðu kolaflökunarvélarnar, sem hafa verið teknar í notkun á síðustu árum, bæði í Keflavík og svo nú í Reykjavík á síðasta ári, sem nýta kolann þannig að þetta er hinn besti söluvarningur á öllum mörkuðum heims og fá færri en vilja. Mín vegna geta menn haldið áfram að henda á hauga þessum dýrmæta afla bæði í Ólafsvík og annars staðar ef þeir vilja. En lofið þið okkur hér í Reykjavík að nýta og selja þessa vöru. Lofið okkur að koma með þennan afla að landi. Við búum við atvinnuleysi og höfum ekki nægan afla. Lofið okkur að nýta hann á næsta sumri fyrir 70–120 konur og unglinga sem annars munu ganga atvinnulaus í Reykjavík meðan þið getið hent þessu á hauga. Við getum selt aflann. Við getum nýtt hann. Við þurfum ekki að bíða eftir því að fá vélarnar gefins frá Framkvæmdastofnun eða Byggðasjóði. Við skulum sjá um að kaupa þær sjálfir og vinna þennan afla og koma honum frá okkur.

Nei, koli er ekki verðlaus, þótt heilfrystur koll sé verðlaus eins og hv. ræðumaður sagði. Það er sama hvar komið er á veitingastaði í Vestur-Evrópu. Auðvitað er koli einn besti og dýrasti fiskréttur sem hægt er að fá. Það þekkja þeir sem fara til annarra landa og hafa ekki nestispakka með sér.

Það er auðvitað hárrétt hjá hv. ræðumanni og við skulum ekki loka augunum fyrir því, enda er ég margbúinn að undirstrika það, að öll veiðarfæri, sama hvað þau heita, geta valdið skaða og valda skaða. Þess vegna ber að fylgjast með að þau séu ekki misnotuð. Það er líka rétt hjá honum, að auðvitað getum við ekki fullyrt að möskvi sé alltaf réttur í sjónum þó að það sé hins vegar list þeirrar framleiðslu að geta búið svo um hnútana að hægt sé að draga veiðarfæri á þann veg. Fyrir vélvana skip með veiðarfæri af þeirri stærð, sem nú er algeng, væri nánast útilokað að hafa þau í togi ef þau væru ekki opin til þess að hleypa í gegnum sig ekki aðeins smáfiski, heldur sjónum sem þarf að komast þar í gegn. En það mun auðvitað alltaf verða og er í öllum veiðarfærum að eitthvað af smáfiski lætur líf sitt. Það er ekki hægt að komast hjá því. En það er um að gera að það sé sem minnst.

Þó að ég hafi sett ofan í við hæstv. dómsmrh. er það svo sem engin nýlunda. Ég hef gert það áður. Allt frá því að hann hljóp úr þingflokki Sjálfstfl. hef ég gert það á einn og annan hátt. En hins vegar höfum við alltaf getað rætt saman efnislega um mál, þ. á m. um þetta mál. Síðast þegar við ræddum um þetta mál, ég man ekki hvort það var hér í hv. deild. eða í þingflokki Sjálfstfl., það eru nokkur misseri síðan, sagði hann, eins og ég vissi að hann hafði lund til því maðurinn er drengskaparmaður: Ef þetta eru miklir hagsmunir og það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir ykkur á höfuðborgarsvæðinu, þá er auðvitað sjálfsagt að hlusta á rök ykkar og verða við óskum ykkar ef það skaðar ekki aðra. — Þá hlýtur auðvitað spurningin að vera sú: Erum við að skaða hagsmuni annarra? Erum við að hafa hagsmuni af öðrum með því að koma með þennan afla að landi hér í Reykjavík — eða eru einhverjar duldar óskir einhverra manna um að ganga endanlega frá Reykjavíkurborg sem útgerðarstað? Er það það sem er að baki? Skýtur þarna upp þessu gamla hatri sumra manná á höfuðborginni og höfuðborgarsvæðinu og allri atvinnustarfsemi s þar er, nema ef það er þeim til blessunar að þar sé heildverslun og þjónustustarfsemi? Við skulum ekki gleyma því, að Reykjavíkurborg hefur verið og er einn stærsti útgerðarstaður landsins og mun vonandi verða það um ókomna tíð. Útgerðarmenn í Reykjavík og líka fiskverkendur og sjómenn hafa verið oft og tíðum, svo ég segi ekki meira, í fararbroddi í fiskveiðum.

Það er líka rétt, sem hv. þm. sagði, að að sjálfsögðu er ekki hægt að skikka sjómenn til að veiða á ákveðnum svæðum, ákveðnum blettum. Alla vega verður enginn sjómaður, sem veiðir með dragnót eða botnvörpu, skikkaður til þess að veiða uppi á hraunum. Hins vegar geta þeir gert það sem nú virðast hafa mest áhrif hér í Reykjavík um það, hvernig eigi að nýta Faxaflóann. Ég þekki nokkuð til þess. Ég hef í huga menn sem hafa komið alveg froðufellandi til mín vegna þess að þeir vita að ég vil nýta þetta öllum almenningi til hagsbóta, þeim sem vinna við þetta, sama hvort um er að ræða sjómanninn, verkamanninn, verkakonuna eða manninn sem á frystihúsið sem þarf á hráefninu að halda. Ég vil nýta það þeim til góða. Ég vil láta það afskiptalaust þó að iðnrekendur, stórkaupmenn og gúmmíinnflytjendur eigi sínar lystisnekkjur og fari á handfæraveiðar um helgar, mér er alveg sama og er gott ef þeir geta veitt sér það og hafa gagn og gaman af, en að þeir eigi að ráða fiskveiðistefnu í Faxaflóa, því mótmæli ég alfarið.

Ég sé enga ástæðu til að fara að ræða frekar um þennan furðulega aðdraganda að því að forseti hv. deildar þurfi að úrskurða um að mál fái umræðu, 2. umr. í fyrri deild, eftir að það er búið að vera á dagskrá allan þann tíma sem það er búið að vera, og að nota það sem einhverja afsökun þó að flm. frv., sem búinn er að skila málinu frá sér með öllum þeim rökum sem honum eru haldbær þegar málið er flutt, bæði í skriflegri grg. og í framsöguræðu, sé ekki viðstaddur. Þegar hann hefur skilað því til þd. til umr. og þd. síðan sendir það til n., þar sem væntanlega eru saman komnir þeir menn sem deildin þangað hefur valið sem eitthvert vit hafa á málinu, og þegar þeir eru búnir að fjalla um það og skila því frá sér, er reynt að stöðva umr. af því að flm., sem í þessu tilfelli er einn af hæstv. ráðh., þarf að gegna embættisstörfum utanlands. Þetta er auðvitað hlægilegt og út í hött að menn skuli, þ. á m. einn af hæstv. ráðh. í ríkisstj., koma með slíkan fyrirslátt. Það var auðvitað það sem ég var að finna að við hæstv. ráðh., en ekki annað, nema hvað það er ansi mikið tittlingatog stundum hjá þm. þessa kjördæmis og stundum þannig að það virðist vera á kostnað annarra kjördæma. Það er kannske mannlegt, en ekki er mikil reisn yfir því.

Dæmi vil ég taka um þær þversagnir sem geta komið fram í sambandi við umr. um þetta mál. Ég er búinn að hlusta á margt og tala við marga og venjulega er það þannig, að fleiri eru á móti málinu en með því í umræðum manna á meðal, einfaldlega vegna þess að það eru ekki nema örfáir menn sem setja sig inn í málið. En við skulum taka sem dæmi, að samkv. frétt í Morgunblaðinu 25. apríl s. l. er þorskafli farinn að glæðast hjá Reykjavíkurbátum og reyndar ekki aðeins hjá þeim, heldur með allri suðurströndinni og austur úr, en það koma bátar hér að landi, litlir bátar, sem eru með mikinn þorskafla.

Blaðamaður hefur viðtal við skipstjóra tveggja þeirra. Annar þeirra, sem kom inn annan daginn í röð með sex tonn, sagði, með leyfi forseta, það væri mesta glapræði að leyfa snurvoðina aftur. Það er allt í lagi með að veiða kolann, sagði hann, en snurvoðin eyðileggur botninn. Það er klárt mál. — Og svo heldur hann áfram: Fiskifræðingarnir virðast ekki gera sér grein fyrir því. Það yrði kolfellt af sjómönnum hérna, ef þeir hefðu eitthvað um það að segja, hvort það ætti að leyfa snurvoðina aftur, sagði hann. — Það er talað við annan, sem ég þekki persónulega og er mikill aflamaður, og hann kom líka inn með 15–16 tonn af þorski á dag þessa dagana. Hann var spurður líka þessarar spurningar sem blaðamaður spurði um dragnótina. Og hvað segir hann? Hann segir, með leyfi forseta: Nei, blessaður vertu, dragnótin, hún skemmir ekkert. Það er bara þjóðsaga. Ég er sammála fiskifræðingunum þar, sagði þessi skipstjóri. — Þarna er talað við menn sem eru að koma að landi, skipstjóra á fiskibátum hér í Reykjavík sem eru að koma að landi sama daginn, og þá á blaðamaður tal við þá. Þetta segir auðvitað nokkra sögu um þetta mál.

Við skulum taka enn annað. Það er talað um að dragnótin skemmi botninn. Í hverju er það fólgið? Jú, hún á að róta upp sandi. En langstærsta námuvinnsla landsins er á mesta veiðisvæði við Faxaflóa, og þar á ég að sjálfsögðu við skeljasandsvinnsluna á Akranesi sem er nú að aukast. Ef vel ætti að vera og við ættum að vera sjálfum okkur samkvæmir ættum við að banna þessa skeljavinnslu við Faxaflóa. En hvað skeður svo til viðbótar? Hví í ósköpunum leggja ekki menn fram frv. um að banna vestan- og suðvestanáttina og hamfarabrim? Vita menn hvernig flóinn er þegar brimar yfir öll hraun og brýtur hér upp undir byggð hjá okkur í Reykjavík og Hafnarfirði? Hafið þið nokkurn tíma verið úti á sjó í slíku veðri hérna? Hafið þið veitt því athygli, — ég veit að þið, sem hafið verið til sjós, hafið veitt því athygli, — að það er stundum hægt að stinga í sandhrúgur á þilfari skipa eftir slík veður — þeirra sem leyfa sér og verða kannske að halda sjó hér úti í Faxaflóa? Halda menn virkilega að botninn fari ekki á hreyfingu þegar það brýtur svo að það eru margra metra há brot sem brotna niður á nokkurra metra botn? Það er algerlega út í hött að koma með svona rök. Ég leyfi mér að fullyrða það. Og ég leyfi mér að fullyrða það líka, sem fiskifræðingar margir hafa haldið fram, að hreyfing á botninum sé af hinu góða, enda hefur margsannast, þar sem hefur verið farið með togveiðarfæri yfir botn sem hefur ekki verið nýttur um langan tíma, að þangað hefur og einmitt á þær slóðir þyrpst fiskur þannig að færaskip hafa veitt einmitt mikið á þeim svæðum á eftir. Þetta þekkist líka.

Annars ætla ég ekki og er ekki til þess kominn hér að fullyrða eitt eða neitt. Ég leyfi mér þó að fullyrða að það, sem er gert með flutningi þessa frv., er af hinu góða og ég er sannfærður um að hæstv. ráðh. hefði ekki flutt þetta ef hann hefði ekki verið sannfærður um að það, sem hann væri að gera, væri rétt.

Það kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að það mætti kannske halda áfram á sama hátt og verið hefur og leyfa takmarkaðar veiðar undir vísindalegu eftirliti. Ég dreg það mjög í efa, en vera má að hæstv. dómsmrh, geti skorið úr sem lögfróður maður. Er hægt að leyfa slíkt ef við erum búnir að fella frv. hér á hv. Alþingi sem er nákvæmlega eins að orðalagi og efnishljóðan og sú undanþáguheimild sem þar er? Ég mundi a. m. k., ef ég væri ráðh., draga mjög í efa að slíkt væri leyfilegt. En það virðist enginn hafa hugsað til þess, að til að koma þarna á móti sjónarmiðum manna er auðvitað til lausn. Sú lausn er afskaplega einföld. Það er að við látum frv. ná fram að ganga, en höfum ákvæði til bráðabirgða í þessu frv. til að setja skorður við ofveiði, — setjum inn í það strax í fyrri deild ákvæði til bráðabirgða til þess að koma á móti, — aðvörunum og skynsamlegum ábendingum þeirra sem vilja vara við í fiskveiðimálum. Við erum búnir að sjá allt of mikið á undanförnum árum til þess að ég ætli mér að standa þar í vegi. Við getum vel hér á Alþingi, ef við afgreiðum þetta frv., sett ákvæði til bráðabirgða, t. d. til þriggja ára, sem takmarka fjölda þessara báta, þannig að það fari aldrei úr höndum Alþingis og það sé þá kannað við hver áramót eða þegar upp er staðið að loknu veiðitímabili hver sé niðurstaðan úr þessum veiðum. Við gætum þá aðeins fært okkur upp á við og fjölgað bátunum, t. d. upp í átta eða níu, sem fengju leyfi til að vera að veiðum í einu. Það þýðir auðvitað að það gætu kannske komist nokkru fleiri að yfir allt sumarið. En það er enginn vafi á því, og það hefur verið gagnrýnisatriði hjá sumum, veit ég, að það er ekki hægt að verða við óskum allra. Það er aldrei hægt fyrr en við erum búnir að taka upp skömmtun á því sem takmarkað er. Það geta ekki allir fengið jafnt þar út. En ég held að viðráðanlegt væri að hafa framkvæmdina svona, og ég væri reiðubúinn til, ef menn teldu komið á móti skoðunum sínum með því, að gerast meðflm. að slíku ákvæði til bráðabirgða sem mundi þá að nokkru friða þá sem bera ótta í brjósti við þetta veiðarfæri. Sjálfsagt er að varast það, eins og öll önnur veiðarfæri sem eru notuð á fiskveiðiskipum okkar. En við verðum hins vegar að nota þau helst sem flest og helst nýta alla þá stofna sem við getum nýtt. Skarkolastofninn er eini fiskstofninn sem við getum aukið sókn okkar í.