08.05.1981
Neðri deild: 90. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4178 í B-deild Alþingistíðinda. (4306)

174. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vona að enginn þm. segi að ég sé að tefja þetta mál. En mér þótti rétt út frá ræðu síðasta hv. þm. að endurtaka það sem ég sagði fyrr í dag, að það liggur fyrir að fiskifræðingar telja að ekki megi taka nema 1000–1500 tonn af kola í Faxaflóanum. Það liggur hins vegar fyrir, að stofn þessa fisks er vannýttur á öðrum svæðum. Það liggur einnig fyrir, að þær veiðar, sem hafa farið fram á öðrum svæðum, hafa verið miklu meiri en þessi 1500 tonn sem hér er lagt til að verði veitt. Það liggur einnig fyrir, að aflinn hefur farið í heilfrystingu. Það liggur einnig fyrir, að sölusamtökin hafa ekki viljað selja kola. Það liggur einnig fyrir, að þau hafa ekki viljað leggja áherslu á skarkolaveiðar á öðrum svæðum vegna markaðarins. Það liggur einnig fyrir, að þau hafa ekki viljað hvetja hraðfrystihúsin á öðrum svæðum til að kaupa kolaflökunarvélar til að framleiða kolaflök. Hvers vegna? Vegna þess að þau hafa ekki haft meiri markað en þessi vinnsla hefur nægt til. Þetta er aðalatriðið. Það er enginn á móti því að taka upp meiri nýtingu á fiskstofnum sem eru vannýttir. Ég vona að enginn misskilji það. En aðalatriðið er að það, sem við veiðum, verðum við að hafa hagnýtan markað fyrir. Ég vona að það verði ekki misskilið.

Ég segi einnig að ég er samþykkur því, að veiðar á þessum 1000–1500 tn. hér í Faxaflóa haldi áfram svo að Sjöstjarnan í Keflavík og Ísbjörninn í Reykjavík græði á þessari vinnslu og fólk hafi atvinnu áfram og að það sé undir vísindalegu eftirliti en ekki gefið frjálst, enda er ekkert sem mælir með því. Ef tíu bátar eða fimmtán færu í þetta, hver er þá hagnaðurinn? Það eru nefnilega fleiri en ein hlið á þessu máli.