11.05.1981
Sameinað þing: 82. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4187 í B-deild Alþingistíðinda. (4325)

388. mál, utanríkismál 1981

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að þakka hæstv. utanrrh. þá skýrslu um utanríkismál sem nú er tekin til umr. í Sþ. Og þá er ekki síður ástæða til þess að þakka hæstv. utanrrh. fyrir ágætt samstarf við utanrmn. sem hann fjallaði um í lok ræðu sinnar. Ég hygg að utanrmn. eða einstakir nm. geti ekki gagnrýnt að utanrrh. hefur í hvívetna innt þá skyldu af hendi að láta utanrmn. fylgjast með utanríkismálum og gefið nefndinni tækifæri til þess að fjalla um þau og hafa áhrif á stefnumótum og niðurstöður.

Það er mála sannast að meðferð utanríkismála er mjög mikilvæg. Við meðferð utanríkismála leitumst við við að ná í fyrsta lagi því markmiðið að tryggja sjálfstæði þjóðarinnar, í öðru lagi að tryggja yfirráð þjóðarinnar yfir auðlindum til lands og sjávar og í þriðja lagi að tryggja alhliða hagsmuni þjóðarinnar í viðskiptum við aðrar þjóðir. Og í fjórða lagi viljum við leggja fram okkar skerf til að vinna að friði og frjálsum samskiptum þjóða og einstaklinga á milli á sviði menningar- og efnahagsmála.

Fyrsta markmiðið, sem ég gat um, að tryggja sjálfstæði þjóðarinnar, skiptir auðvitað höfuðmáli, skiptir sköpum um framtíð þjóðarinnar í þessu landi. Frá því að við tókum í raun utanríkismálin í okkar hendur — en það gerðum við ekki fyrr en Bretar komu hér í byrjun seinna stríðs, því að við fullveldisviðurkenninguna var Dönum áfram falin meðferð utanríkismála þótt við lýstum yfir ævarandi hlutleysi okkar — en strax og við tökum utanríkismálin í eigin hendur stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd, að sú hlutleysisyfirlýsing var okkur engin vörn. Það leið því ekki á löngu að við tókum afleiðingunum af því og gerðum varnarsamninginn við Bandaríkin 1941. Það má einnig segja að það hafi ekki verið í samræmi við hlutleysisyfirlýsinguna frá 1918 þegar við gerðumst aðilar að Sameinuðu þjóðunum — sem eins og kunnugt er voru í upphafi hernaðarbandalag — eða réttara sagt samtök þeirra þjóða sem gengu undir heitinu „bandamenn“ í seinni heimsstyrjöldinni. Þeir, sem núna halda fram hlutleysi Íslands sem æskilegustu stefnu í alþjóðamálum, voru reyndar þá á þeirri skoðun, að við ættum að taka því boði að gerast stofnaðilar að Sameinuðu þjóðunum, þótt það skilyrði fylgdi að við yrðum að segja öxulveldunum stríð á hendur, sem þá voru að þrotum komin. Málsvarar Sósíalistaflokksins töldu það ekkert mál þá að segja öðrum þjóðum stríð á hendur, og menn muna orðalag málsvara þeirra á þeim tíma, forvera Alþb., að hlutleysi væri hliðhylli við árásaraðila.

Áfram má rekja aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu sem vitnisburð þess, að við hlutum að taka afstöðu og skapa okkur samstöðu með öðrum vestrænum lýðræðisríkjum til varnar okkar eigin frelsi og sjálfstæði. Árangurinn af aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og aðild annarra þjóða að því varnarbandalagi er fyrst og. fremst að aðildarríkjum hefur verið forðað frá ófriði í þessum heimshluta. En á þeim rúmum 30 árum, sem liðin eru frá því að Atlantshafsbandalagið var stofnað, hafa átt sér stað ekki færri en 35 styrjaldir á rúmum 30 árum, með þeim afleiðingum að 6 millj. manna hafa týnt lífi, auk þeirrar þjáningar og annarra hörmulegra afleiðinga sem þessi stríðsátök hafa haft. Það liggur því fyrir meira en þriggja áratuga reynsla um það gagn sem Atlantshafsbandalagið hefur gert þátttökuríkjum — og raunar heiminum öllum — með tilvist sinni.

Í kjölfar aðildar okkar að Atlantshafsbandalaginu gerðum við síðan varnarsamninginn við Bandaríkin 1951 með samstöðu allra lýðræðisflokkanna: Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl. Sú samstaða í utanríkismálum hefur í meginatriðum haldist allar götur síðan þótt nokkrar undantekningar séu þar á hvað snertir afstöðu til varnarsamningsins við Bandaríkin. Þær undantekningar eru fyrst og fremst fólgnar í aðgerðum vinstri stjórnanna sem stofnað var til 1956 og 1971. Áform um að slita varnarsamstarfinu við Bandaríkin 1956 voru fljótt lögð á hilluna þegar átökin um Súez og ekki síður byltingin í Ungverjalandi og innrás sovétherja í Ungverjaland áttu sér stað. Það leið lengri tíma þangað til áformin um slit varnarsamstarfsins við Bandaríkin 1971 voru lögð á hilluna, en fyrir tilstuðlan frjálsra samtaka, er gengu undir heitinu Varið land, og fyrir forgöngu Sjálfstfl. og Alþfl. að nokkru leyti leiddu úrslit alþingiskosninganna 1974 til þess, að ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. tók af skarið haustið 1974 og hætti við allar fyrirætlanir um slit á því varnarsamstarfi, en setti því ákveðinn og traustan grundvöll.

Það er ljóst að dvöl erlends varnarliðs hér á landi er okkur nokkur kvöð, með sama hætti og það er kvöð fyrir aðrar þjóðir að halda uppi her og vörnum í sínu landi. Við vonumst auðvitað til þess, að sá tími geti komið að slíkt erlent varnarlið þurfi ekki að vera hér á landi, en því miður eru engar horfur á því eins og alþjóðamálum og horfum í þeim efnum er nú háttað. Við minnumst þess, að það var alger samstaða við gerð varnarsamningsins við Bandaríkin fyrir 30 árum meðal lýðræðisflokkanna þriggja, vegna þess m. a. að heimsfriðnum var stefnt í voða með átökunum í Kóreu. Nú eru átök í Afganistan í kjölfar innrásar Sovétríkjanna í það land og hætta vofir yfir Póllandi, eins og kunnugt er, umfram það ástand sem þar hefur ríkt undir ægivaldi Sovétríkjanna. Það fer því ekki á milli mála, að ríkari og brýnni ástæður eru fyrir varnarsamstarfi við Bandaríkin nú en nokkru sinni áður og sömu rök liggja og til grundvallaráframhaldandi og ríkari þátttöku okkar Íslendinga í Atlantshafsbandalaginu en verið hefur.

Auðvitað er það ákvörðunaratriði á hverjum tíma hvernig háttað skuli fyrirkomulagi varna og eftirlitsstarfa á Keflavíkurflugvelli eða frá Íslandi. Því hefur verið fleygt á loft af hálfu kommúnista, að breyting hafi orðið á hlutverki varnarstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli og þar sé um aukin umsvif að ræða. Ég hygg þó að þarna séu ekki aukin umsvif í þeim skilningi að þar sé fjölmennara erlent lið en áður hefur verið þar. Þvert á móti eru e. t. v. heldur færri erlendir menn þar að störfum nú en oft hefur verið áður. Hins vegar má vel vera að starfsemin og eftirlitið sé ríkara og betra, sem þaðan er rekið, en áður var, enda full nauðsyn á því vegna aukinna umsvifa Sovétríkjanna hér á norðurhvell jarðar. Við Íslendingar verðum að fylgjast mjög vel með þeim umsvifum, sem um er að ræða umhverfis land okkar, til þess að gera okkur grein fyrir því, hvaða ráðstafanir við þurfum að gera á hverjum tíma í samstarfi við bandalagsríki okkar til þess að verjast þeim auknu umsvifum sem geta verið fyrirboði ásælni og þrýstings af hálfu erlends stórveldis sem við viljum ekki að yfir okkur gangi og því síður sætta okkur við.

Við Íslendingar höfum verið of feimnir að taka þátt í umræðum um þessi málefni. Stafar það sjálfsagt af því, að við höfum aldrei haft her á eigin vegum og teljum að slík mál komi okkur ekki við. En hvort sem okkur líkar betur eða verr, þá koma þessi mál okkur við. Og því verðum við að gera okkur sjálfstæða grein fyrir fyrirkomulagi þessara mála. Það er raunar ákveðið í varnarsamningi á milli Bandaríkjanna og Íslands, að Íslendingar eigi að samþykkja í öllum greinum hvernig starfsemi varnar og eftirliti sé háttað hér á landi, og þegar af þessari ástæðu er það skylda okkar að taka afstöðu til slíkra mála. Ýmist kann það að vera með þeim hætti, að við teljum að um of mikil umsvif varnarliðsins sé að ræða, eða þá að við getum þurft að gera auknar kröfur til samstarfsaðilans um varnarmál, Bandaríkjanna í þessu tilviki, um þær ráðstafanir sem þau gera hér á Íslandi.

Það hefur verið okkur nokkur fjötur um fót í þessum málum að hafa ekki nægilegri innlendri sérfræðiþekkingu á að skipa. Því er það ánægjuefni, að þrír hv. þm. hafa flutt á þessu þingi till. til þál. um ráðunaut í öryggis- og varnarmálum. Tel ég það til bóta ef sú till. hlýtur samþykki hér á þingi.

Ég hef e. t. v. þegar gert mér nokkuð tíðrætt um það, að aðeins einn flokkur hefur skorist úr leik, sem nú heitir Alþb., þegar um er að ræða samstarf íslenskra stjórnmálaflokka um ráðstafanir til að tryggja sjálfstæði þjóðarinnar og öryggi landsins. Alþb. og forverar þess, Sósíalistaflokkurinn og Kommúnistaflokkurinn, hafa ekki — þegar á dagskrá hefur verið stjórnarþátttaka þeirra — tekið slíkt í mál nema með því skilyrði, að í stjórnarsáttmála væri gert ráð fyrir slitum á varnarsamstarfi við Bandaríkin og lausari tengslum við Atlantshafsbandalagið. Því meiri athygli vakti það raunar að Alþb. gekk til stjórnarsamstarfs í vinstri stjórninni haustið 1978 án þess að slíkt skilyrði væri a. m. k. gert opinbert í stjórnarsáttmála. En þar var þó komið fyrir því ákvæði að engar meiri háttar framkvæmdir á vegum varna og öryggis landsins yrðu hafnar nema með samþykki allra stjórnaraðilanna. Af sömu ástæðu vakti það og undrun við myndun núv. vinstri stjórnar í ársbyrjun 1980, að jafnvel skemmra var gengið, því að þar var aðeins opinbert gert það ákvæði, að samþykki allra stjórnaraðila þyrfti til að hefja byggingu nýrrar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. En skýring fékkst raunar á þessum vetri á því, hvers vegna meira var ekki opinbert gert um samkomulag milli stjórnaraðilanna, þegar í ljós kom leynisamningur sem Alþb. bar fyrir sig og kvað á um að það væri drengskaparsamkomulag, forsenda stjórnarsamstarfsins, að undirritaður var samningur um að ekkert ágreiningsmál næði fram að ganga nema með samþykki allra stjórnaraðila. Með tilvísun til þessa leynisamnings hafa Alþb.-menn talið sig hafa neitunarvald varðandi framkvæmdir í þágu öryggis og varna á Keflavíkurflugvelli. Það er að vísu ljóst samkv, hinum opinbera stjórnarsáttmála, að slíkt neitunarvald er fyrir hendi innan ríkisstj. sjálfrar varðandi byggingu nýrrar flugstöðvar. En á það hefur verið bent hér á Alþingi, að það væri mjög óeðlilegt og ólýðræðislegt að slíkt ákvæði kæmi í veg fyrir að vilji Alþingis fengi að njóta sín og ákvörðunarvaldið væri dregið úr höndum Alþingis með þessum hætti. Þar sem miðstjórnarfundur Framsfl. gerði sérstaka samþykkt um nauðsyn á því að byggja nýja flugstöð mátti ætla að hér á Alþingi væri samstaða um þá ákvörðun. Úrslit atkvgr., þegar till. féll á jöfnum atkvæðum, leiddi hins vegar í ljós að framsóknarmenn meintu ekkert - á þessu stigi málsins a. m. k. — með samþykkt miðstjórnar sinnar. En á hinn bóginn hlýtur að reyna á vilja þeirra — og raunar vilja Alþingis — áður en þetta ár er liðið, vegna þess að það eru síðustu forvöð að samþykkja innan ársloka fjárveitingu til þessarar flugstöðvarbyggingar, eða a. m. k. lánsheimild, ef við viljum ekki glata því mótframlagi sem veitt hefur verið af hálfu Bandaríkjanna til þessarar framkvæmdar. En fréttir herma að þegar sé farið að spyrjast fyrir um mótframlag okkar Íslendinga þar sem Bandaríkjamenn hafi nóg við sína fjármuni að gera annars staðar ef ekki sé vilji hér á Íslandi fyrir þessari framkvæmd sem er brýn nauðsyn að komist í gagnið hið fyrsta.

Varðandi aðrar framkvæmdir í þágu öryggis og varna landsins, svo sem byggingu flugskýla og eldsneytisgeyma, hafa Alþb.-menn borið fyrir sig ákvæði þessa leynisamnings. Hæstv. utanrrh. hefur aftur á móti tekið fram að hvað sem líði þessum leynisamningi, sem honum hafi raunar ekki verið gert kunnugt um, komi ákvæði hans ekki í veg fyrir að hann einn hafi ákvörðunarvaldið hvað þessar framkvæmdir snertir þar sem þessi mál heyri undir hans rn. Ég vil leggja áherslu á að ég er sammála hæstv. utanrrh. að þessu leyti. Það hljóta hins vegar að vera mönnum vonbrigði, að hæstv. forsrh. hefur — a. m. k. hvað snertir byggingu eldsneytisgeyma — lagst á sveif með Alþb.-mönnum og talið byggingu eldsneytisgeymanna mál er snerti alla ríkisstj. og þurfi meðferð hennar í heild. Rétt er þó að geta þess, að hæstv. utanrrh. — eins og ég hef skilið hann — hefur gert allan fyrirvara varðandi þennan úrskurð hæstv. forsrh., ef kalla má svo hátíðlegu nafni og áskilið sér þá rétt til að hverfa úr sinni stöðu, eins og fram hefur komið hér á Alþingi.

Bygging eldsneytisgeymanna er brýn nauðsyn frá sjónarmiði íbúanna á Suðurnesjum, og ég vænti þess, að áður en þingi verði lokið komi þáltill. um byggingu eldsneytisgeyma — eða endurnýjun og flutning þeirra geyma sem nú eru fyrir hendi í Keflavík og Njarðvíkum — til atkv. hér á Alþingi þannig að hæstv. utanrrh. hafi stuðning Alþingis við meðferð þessa máls og til þess að hagsmunum íbúa Suðurnesja verði borgið. Ég tel ekki ástæðu til að fjalla sérstaklega um byggingu flugskýlanna þar sem ég tel byggingu þeirra afráðna og að þær framkvæmdir séu skýlaust innan úrskurðarvalds hæstv. utanrrh.

Öll þessi mál hafa verið til umræðu í utanrmn. og þar hefur sömuleiðis á s. t. ári og þessum vetri verið ítarlega rætt um þá staðhæfingu Alþb.-manna, að kjarnorkuvopn væru geymd á Keflavíkurflugvelli. Því máli hefur skotið upp með nokkurra ára millibili, að vísu fyrir tilstuðlan fréttastofa úti um heim, byggt á lausafregnum og hugleiðingum manna sem sumir hafa að vísu atvinnu af því að kanna vopnabúnað, en í hvert skipti hefur verið upplýst það hér eru engin kjarnorkuvopn geymd, enda er svo áskilið samkv. varnarsamningnum, að Íslendingar eiga að samþykkja fyrirkomulag varna og m. a. hvaða vopn hér eru geymd eða tiltækileg. Við höfum lýst því yfir, að við vildum ekki hafa kjarnorkuvopn á íslensku landsvæði, og við það hefur verið staðið. Þessi áróður var ákaflega mikill og hömlulaus af hálfu Alþb. á s. l. ári þrátt fyrir það að fyrir lá t. d. yfirlýsing þáv. forsrh. Sovétríkjanna, Alexey Kosygins, frá því 1977, að hér væru engin kjarnorkuvopn, en því vildi sovéski forsrh. sérstaklega fagna. En þrátt fyrir það hófu kommúnistar hér á landi enn á ný þann áróður, að kjarnorkuvopn væru hér geymd. Sýnir það best hve lágt Alþb. getur lagst í röksemdafærslu fyrir úreltum málstað sínum. Það var ekki annað að sjá eða skilja en að með þessu væri verið að rökstyðja nauðsyn þess, að undir vissum kringumstæðum gerðu Sovétríkin kjarnorkuárás á Ísland. Og það er athyglisvert, að svonefndir herstöðvaandstæðingar, sem tala mest um það af öllum að ráðist verði á Ísland, skuli telja það málstað sínum til gildis að halda því fram að kjarnorkuvopn séu hér geymd.

Það kom og fram á landsfundi Alþb. s. l. haust, að hræðsluáróðurinn er eina vopn þess í umræðum um utanríkismál, en það er hættulegt vopn fyrir þann sem því beitir, eins og glögglega hefur komið í ljós. Og eftir að Alþb.-menn hófu þær ásakanir á síðasta ári, að kjarnorkuvopn væru hér geymd, brá svo við að sovéska fréttastofan Novosti hefur haldið því fram, gagnstætt fyrri yfirlýsingum Kosygins, að líklega séu kjarnorkuvopn hér á landi, og vísar máli sínu til stuðnings í Þjóðviljann. En kommúnistar hafa raunar þagað um þessa fullyrðingu hinnar opinberu sovésku fréttastofu. Hæstv. utanrrh. gekk mjög hart eftir því á s. l. ári, vegna þessara ásakana Alþb., að bandarísk stjórnvöld staðfestu að hér væru ekki kjarnorkuvopn. Skrifleg yfirlýsing um það efni fékkst frá bandarískum stjórnvöldum sem bæði utanrrh. og aðrir mátu á þann veg að allt væri óbreytt um þá stefnu, að hér væru ekki kjarnorkuvopn og þau kæmu ekki hingað nema með samþykki íslenskra stjórnvalda.

Undanfarið hafa umræður um kjarnorkulaust svæði á Norðurlöndum verið endurvaktar. Er því e. t. v. rétt að segja af því tilefni að í fyrsta lagi eru Norðurlöndin kjarnorkuvopnalaust svæði og í öðru lagi mundi slík einhliða yfirlýsing af hálfu Norðurlanda ekki hafa neina þýðingu eða gera neitt gagn í sambandi við afvopnun og slökun, nema síður væri, meðan vitað er að kjarnorkuvopn eru geymd í næsta nágrenni Norðurlanda, eins og á Kólaskaga og við Eystrasalt. Slíkar viðræður um kjarnorkulaust svæði hljóta að taka til víðara landsvæðis en Norðurlandanna einna og algert skilyrði slíkra samningaviðræðna ætti að vera gagnkvæmni.

Ég tel að það sé mjög ánægjulegt, að hér á Alþingi sé eins og sakir standa svo víðtæk samstaða eins og var raunar fyrir 30 árum þegar varnarsamningurinn við Bandaríkin var í upphafi gerður. Alþb. er einangrað í utanríkisstefnu sinni, eins og Kommúnistaflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn voru áður, og er það vel, enda ber málflutningur Alþ. og formælenda þess einangrun þess vitni. Það er tilgangslaust, því miður, fyrir þjóð eins og Íslendinga að lýsa yfir hlutleysi. Þar vil ég undirstrika orð þau er utanrrh. viðhefur í skýrslunni og hann rakti áðan.

Það er bæði innan og utan Alþingis samstaða lýðræðisflokkanna sem tryggir sjálfstæði lands og þjóðar. Ég sé ástæðu til að geta sérstaklega um samþykkt Samtaka um vestræna samvinnu, sem gerð var 7. maí 1981 í tilefni af því, að 30 ár voru liðin frá komu bandaríska varnarliðsins til Íslands. Þá minnti stjórn Samtaka um vestræna samvinnu á, en í þeim samtökum eiga hlutdeild Alþfl. menn, framsóknarmenn og sjálfstæðismenn, að lýðræðisflokkarnir þrír, Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl., stóðu einhuga að gerð varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna 1951. Og síðan segir, með leyfi forseta:

„Með aðildinni að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningnum við Bandaríkin leggjum við Íslendingar fram skerf til að tryggja frið og öryggi í okkar heimshluta. Sívaxandi hernaðarumsvif Sovétmanna í lofti og á legi í nágrenni Íslands hafa aukið mikilvægi þessa framlags okkar á undanförnum árum. Nú eins og fyrir 30 árum er samstaða lýðræðisflokkanna í öryggis- og varnarmálum forsenda skynsamlegrar meirihlutastefnu sem tryggir með farsælum hætti sjálfstæði lands og þjóðar.“

Ég vil þá víkja að öðrum þættinum, yfirráðum þjóðarinnar yfir auðlindum til lands og sjávar, og minnist þar á hafréttarráðstefnuna, en þar hefur þegar komið fram mjög mikilvægur árangur sem liggur til grundvallar útfærslu okkar í 200 mílur. Við megum gjarnan minnast þess, Íslendingar, að sigur í því máli náðist vegna þess að við fluttum mál okkar á vettvangi hafréttarráðstefnunnar, á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. Sá árangur og sigur í 200 mílna útfærslunni náðist áður en formlegur hafréttarsáttmáli hefur verið samþykktur, vegna þess að við nýttum hvert tækifæri á alþjóðavettvangi til að gera grein fyrir málstað okkar og fórnuðum m. a. ekki öryggishagsmunum okkar — eins og sumir vildu meina að rétt væri — til að halda fram 200 mílna stefnunni. Við höfðum hvort tveggja, sigur í 200 mílunum og tryggðum öryggi okkar og áframhaldandi aðild og samstarf um varnar- og öryggismál. Þótt nokkur afturkippur hafi komið í störf hafréttarráðstefnunnar nú um tíma og Bandaríkjamenn hafi því miður talið sér nauðsynlegt að kynna sér málin betur eftir stjórnarskiptin þar í landi, þá standa vonir til að ekkert haggist í þeim efnum, sem okkur skiptir mestu máli, og með þeim hætti getum við nýtt þessar auðlindir okkar eins og efni standa til.

Í utanrmn. hefur á síðasta ári verið mjög rætt um samninga við Norðmenn um Jan Mayen og var ánægjuleg sú samstaða sem náðist hér á Alþingi á s. l. ári um þá samningsgerð. Í þeim efnum var einnig samstaða með lýðræðisflokkunum þremur. Á þessu sviði var einnig um einangrun Alþb. og kommúnista að ræða. Í því samkomulagi var gert ráð fyrir áframhaldandi starfi varðandi nýtingu landgrunnsins, og nú nýverið hefur utanrmn. rætt drög að samningi um nýtingu landgrunnsins er Norðmenn og Íslendingar gera vonandi sín á milli. Það er ekki tímabært að fjalla um efni þeirra draga, enda munu þau væntanlega á sínum tíma koma hér til frekari meðferðar.

Þá hefur og verið rætt mjög í utanrmn. og nm. verið áhugasamir um að hagsmunagæslu væri haldið uppi af ákveðni varðandi Rockall-svæðið, og vonumst við til að viðræður við Englendinga og Íra og Færeyinga eigi sér stað hið fyrsta varðandi hagnýtingu þess svæðis. Það liggur og í augum uppi, að ýmis úrlausnarefni eru fyrir höndum varðandi afmörkun efnahagslögsögu okkar og landgrunnsréttinda, einnig varðandi samvinnu við aðrar þjóðir á sviði fiskveiða um nýtingu flökkustofna o. s. frv. Vonumst við til þess að fast verði á málum haldið í viðræðunum við Efnahagsbandalagið um þau efni.

Eftir að fullnaðarsigur hefur unnist í landhelgismálinu er nauðsynlegt að marka stórhuga stefnu sem miðar að því að kanna ítarlega allt yfirráðasvæði Íslands og meta þær auðlindir sem þar eru, bæði lifandi í hafinu, í hafsbotni og á hafsbotni. Á grundvelli slíkrar úttektar þarf síðan að gera auðlindaspá fyrir landið og hafið þar sem þessar auðlindir eru metnar í heild, og á grundvelli slíks mats og slíkrar úttektar þarf að sækja fram í viðræðum við aðrar þjóðir um hagnýtingu þessara auðlinda svo að þær megi skapa grundvöll fyrir bættum lífskjörum hér á landi.

Það er og nátengt slíkri stórhuga heildarstefnu, að við þurfum að efla landhelgisgæsluna. Nýverið hefur Alþingi samþykkt þáltill. hv. þm. Benedikts Gröndals um það efni og mun Alþingi, áður en því lýkur nú í vor, væntanlega kjósa mþn. er fjallar um eflingu landhelgisgæslunnar. Við þurfum að sýna fána okkar á öllu því svæði, sem við höfum yfirráð yfir, og gæta þess, að nýting auðlindanna sé í samræmi við íslenska hagsmuni. Efling landhelgisgæslunnar er og eðlilegt skref okkar í því efni að vera þess í vaxandi mæli umkomnir að sjá um vörslu eigin sjálfstæðis og öryggis.

Ég vík þá sérstaklega að viðskiptahagsmunum okkar og skal reyna að stikla aðeins á hinu stærsta, en nefna þó örfá mikilvæg dæmi. 1 þeim efnum vildi ég sérstaklega nefna tvö mál. Annars vegar er það aðild okkar að Alþjóðaorkumálastofnuninni. Í þeim efnum hlýt ég að gagnrýna seinlæti hæstv. viðskrh. sem hefur í fórum sínum frv. til l. sem nefnd, er fjallað hefur um aðild okkar að Alþjóðaorkumálastofnuninni, hefur samið, og leggur hún til að við gerumst aðilar að þeirri stofnun. Ég tel að það væri okkur afar mikið aukið öryggi að vera aðilar að slíkri orkumálastofnun. Og þótt við tökum nokkrar kvaðir á okkur af þeim ástæðum varðandi auknar olíubirgðir í landinu, þá eru þær kvaðir ekki meiri en svo sem sjálfsagðar væru, jafnvel þótt við værum ekki aðilar að slíkri stofnun. Aðild okkar veitir okkur hins vegar aðgang að upplýsingum og tilstyrk annarra þjóða til þess að sjá okkur farborða varðandi aðkeypta orku og yrði væntanlega til þess að orkukaup okkar, þau er við þurfum erlendis frá, yrðu mun hagstæðari þegar til lengdar lætur.

Hitt málið, sem ég vildi nefna, er álmálið eða súrálsmálið svokallaða, sem ég tel vera dæmi um það, hvernig illa er farið með orðstír Íslendinga erlendis, eins og hæstv. iðnrh. hefur á því máli haldið. Ég vil á þessu stigi málsins segja að þessi gagnrýni mín eigi við vök að styðjast hvort sem ásakanir hæstv. iðnrh. á hendur Alusuisse eru réttar eða ekki. Það eru nú liðnir allmargir mánuðir síðan iðnrh. gerði heyri kunnar ásakanir sínar. Og þá var upplýst að innan tveggja mánaða eða svo kæmi fram skýrsla um málið frá óháðu endurskoðunarfyrirtæki í London. Ekkert hefur heyrst um niðurstöður frekari rannsókna, en það er ljóst, að ef nota átti þessar ásakanir til þess að taka upp samninga við þá Alusuisse-menn og fá einhverju framgengt við það fyrirtæki, þá var a. m. k. leiðin ekki sú að gera ásakanirnar opinberar áður en úr skugga væri gengið um réttmæti þeirra. Og meiri líkur hefðu verið á því að fá fram breytingar á samningum ef farið var með þeim hætti sem gera verður kröfu til um siðmenntaðar þjóðir. Ég legg áherslu á að við verðum auðvitað, Íslendingar, í einu og öllu að gera þá kröfu til viðmælanda okkar og samningsaðila, eins og Alusuisse í þessu tilviki, að slíkt fyrirtæki standi við skuldbindingar sínar. Úr því vil ég í engu draga. En hitt er ljóst, að samningsaðilar okkar eiga rétt á því að bera hönd fyrir höfuð sér og það er engum tíma glatað að gera þeim það kleift, enda í mestu samræmi við íslenska hagsmuni að tryggilega sé gengið frá efnisniðurstöðum málsins áður en ásakanir eru uppi hafðar, ef við viljum ná fram hagsbótum í samningum við aðra.

Ég vil svo, áður en ég lýk máli mínu, herra forseti, segja það almennt varðandi framlag okkar til að vinna að friði og frjálsum samskiptum þjóða og einstaklinga á milli á sviði menningar- og efnahagsmála, að í utanríkismálanefnd hefur verið rætt sérstaklega um þátttöku Alþingis og alþm. í alþjóðasamskiptum. Þótt meðferð utanríkismála sé eðli málsins samkvæmt í höfuðatriðum á vegum framkvæmdavaldsins, hæstv. utanrrh. og starfsmanna utanríkisþjónustunnar, hafa Alþingi og löggjafarsamkomur þjóðanna haft aukið samstarf sín á milli. Alþm. eru þátttakendur í því samstarfi. Nægir í því efni að benda á þing Sameinuðu þjóðanna, en þar hefur alþm. verið gefinn kostur á að sitja nokkurn tíma ár hvert. Í Norðurlandaráð kjósum við árlega fulltrúa. Og varðandi Atlantshafsbandalagið er um sérstök þingmannasamtök að ræða. Í Evrópuráðinu eru og fulltrúar þingsins, og vænti ég að þátttöku okkar þar verði gerð nokkur skil í þessum umr. Þm. EFTA-landanna hafa samstarf sín á milli. Og síðast en ekki síst má nefna Alþjóðaþingmannasambandið. Utanrmn. leggur áherslu á að afskipti Alþingis og alþm. af þessum málum séu með þeim hætti að gagn verði að fyrir Íslendinga og sómi fyrir Alþingi. Í því efni er auðvitað við það vandamál að stríða, eins og raunar almennt um meðferð okkar utanríkismála, að kostnaði verður að stilla í hóf og mannfæð ræður að aðstoð er ekki sem skyldi til þess að fylgjast nægilega vel með málum. En með sameiginlegu átaki allra, sem hlut eiga að máli, ætti að vera unnt að bæta þátttöku okkar í þessu alþjóðasamstarfi sem á margan hátt hefur mjög mikið gildi fyrir okkur og hagsmunamál okkar almennt.

Í sambandi við þennan málaþátt er ástæða til að nefna norður-suður-viðræðurnar, aðstoð við þróunarlöndin. Ég er sammála því, að framlag okkar er ekki í samræmi við það sem ætti að vera og aðrar þjóðir margar hverjar láta í té. En við hljótum að leggja umfram allt áherslu á að framlag okkar komi að gagni. Óneitanlega hafa heyrst gagnrýnisraddir víða, að framlag iðnríkjanna komi þróunarlöndum ekki að gagni. Við hljótum þess vegna að mínu mati að leggja meiri áherslu á tækniaðstoð heldur en bein fjárframlög, þótt auðvitað sé um fjárframlög í því efni einnig að ræða. Ég tel að beina ætti þessari aðstoð um farveg Norðurlandasamvinnu, eins og gert hefur verið, og sömuleiðis um farveg Hjálparstofnunar kirkjunnar. Með þeim hætti tel ég meiri von til þess, að unnt sé að fylgjast með framlagi okkar þar til á endastöð er komið, og með þeim hætti sé unnt að ganga úr skugga um að það komi þróunarríkjunum raunverulega að gagni. En í þessum efnum er auðvitað höfuðatriði að iðnríkin séu ekki að rétta þróunarríkjunum með annarri hendi og taka það aftur og meira til með hinni hendinni. Þá á ég við að til þess að von sé til, að þróunarríkin komist upp að hliðinni við hin iðnvæddu ríki, eru frjáls viðskipti algert skilyrði. Ef iðnvæddu ríkin hlaða um sig tollmúra þegar þróunarríkin fara að keppa við þau í viðskiptum, þá er allt unnið fyrir gýg. Hér getur verið um erfitt tímabil aðlögunar að ræða fyrir hin iðnvæddu ríki þegar þróunarríkin með lægri launakostnaði — í fyrstu a. m. k. — senda framleiðsluvörur sínar á markað iðnvæddu ríkjanna. En ég tel að frjáls viðskipti muni þegar til lengdar lætur vera hér eftir sem hingað til best fallin til að koma á heilbrigðri verkaskiptingu milli þjóða og landa heims og í því sé e. t. v. fólgin árangursríkasta leiðin til þess að jafna lífskjörin milli þróunarríkja og iðnvæddra ríkja, ekki með því að skerða afkomu manna í iðnvæddu ríkjunum, heldur með því að bæta lífskjör í þróunarríkjunum með hliðstæðum hætti og reynslan hefur sýnt að verið hefur í raun í iðnvæddum ríkjum þar sem frjáls viðskipti fá notið sín.

Í þessu sambandi og þegar við tölum almennt um framlag okkar til að tryggja frjáls samskipti þjóða og einstaklinga á milli, þá eru mannréttindamál ofarlega á baugi. Ég hef þegar gerst svo langorður að þótt freistandi væri að gera þeim efnum nokkur skil nefni ég aðeins í þeim efnum sem dæmi mál skákmeistarans Korsnojs. Ég var einn af nokkrum Íslendingum sem skrifuðu undir áskorun til stjórnar Sovétríkjanna um að leysa fjölskyldu Korsnojs úr haldi og veita konu hans og syni leyfi til að flytjast til hans. Ég nefni þetta dæmi vegna þess að það er nýlega búið að rekja það í fjölmiðlum, en slík dæmi eru fleiri en tölu verði á komið, því miður. Við þessari áskorun og þessari orðsendingu nokkurra Íslendinga var ekki tekið af hálfu umboðsmanna Sovétríkjanna hér á landi, þ. e. af hálfu sendiráðs Sovétríkjanna hér. Ég tel það freklega móðgun við Íslendinga að vísa slíkri áskorun með þessum hætti á bug og sýna að Sovétríkin vilja ekkert við okkur tala nema þau telji sig hafa gagn af því. Slík einhliða stefna kann ekki góðri lukku að stýra, en segir meira en margt annað um viðhorf stjórnvalda í því landi.

Það hefur komið hér fram, bæði í skýrslu hæstv. utanrrh. og í ræðu hans, að veður eru nú öll válynd. Væri ástæða til þess að fjalla um alþjóðamál, um stríðið milli Írans og Íraks, innrásina í Afganistan, vandamálin fyrir botni Miðjarðarhafs og þróunina í Póllandi. En til þess gefst ekki tími að sinni. Þó vil ég nefna það, að hér á landi var nýverið fulltrúi frá pólskum verkalýðssamtökum. Hann lét þess getið, að í besta falli væri unnt að vonast til að Pólland yrði „finnlandiserað“. Hann bætti því við, að frá okkar sjónarmiði á Vesturlöndum væri það ekki æskilegt, en það yrði stórkostleg framför frá sjónarmiði Pólverja. Því miður er það ljóst, að Sovétríkin hafa haft örlög nágranna sinna í sinni hendi og séð svo um að þeir hafi ekki mátt um frjálst höfuð strjúka. Finnland hefur komist af með undraverðum hætti í þessari erfiðu stöðu. Þó vitum við það, að Finnar hafa þurft að hlíta boði og banni sovéskra yfirvalda um svo einfalda daglega þætti eins og sýningu kvikmynda, að ég tali nú ekki um það sem haldið er fram, að Sovétríkin geti beitt neitunarvaldi um val forseta þeirra. Við Íslendingar erum fullir aðdáunar á framgöngu Finna og sjálfstæði þeirra í þessari stöðu, og ég dreg ekkert undan í þeim efnum þegar ég lýsi þeirri aðdáun. En vitað er hvílíkum þrýstingi þeir kunna að vera beittir ef hinn örmjói vegur er ekki þræddur. Og við vitum líka að Sovétríkin hafa beitt Svía, Norðmenn og Dani þrýstingi. Við viljum koma í veg fyrir að Ísland sé sett í þá aðstöðu, að unnt sé að beita okkur einum eða neinum þrýstingi. Við viljum með þeim hætti vernda sjálfstæði okkar og sjálfsákvörðunarrétt. Við viljum leggja okkar litla skerf til þess að slökun megi takast í viðskiptum stórveldanna og allra ríkja heims, þannig að ótöldum milljónum eða milljörðum sé ekki varið í vígbúnað meðan fólk sveltur. Hins vegar gerum við okkur grein fyrir því, að slökun verður ekki nema menn séu sammála um að slaka á. Það er ekki nóg að annar aðilinn slaki á ef hinn stríkkar jafnóðum á af sinni hálfu. Við hljótum því að fylgjast með framvindu mála, og við gerum okkur grein fyrir því, að allt er breytingum undirorpið.

Talað hefur verið um hvaða breytingar kæmu í kjölfar forsetaskiptanna í Bandaríkjunum, og nú ræða menn væntanlega um hvort breyting verður á vegna forsetaskiptanna í Frakklandi.

Varðandi Reagan, forseta Bandaríkjanna, er það e. t. v. að segja, að slökun tókst á fyrra valdatíma repúblikana í Hvíta húsinu. Og varðandi forsetadæmi Mitterands má e. t. v. nefna að hann er sagður ekki síður fylgjandi þátttöku Frakka í Atlantshafsbandalaginu en forveri hans Giscard d'Estaing. Eftirtektarvert var að heyra yfirlýsingu hins nýja eða væntanlega forseta Frakklands þar sem hann taldi kommúnista ófæra um að sitja í ríkisstjórn vegna þess að þeir væru svo háðir Sovétríkjunum — eða a. m. k. meðan þeir væru svo háðir Sovétríkjunum sem raun bæri vitni um.

En í stjórnarskiptum í vestrænum ríkjum kemur fram munur á lýðræðisríkjum og einræðisríkjum. Lýðræðisríki þurfa að sannfæra kjósendur sína um réttmæti stefnunnar í utanríkismálum sem í öðrum málum, um réttmæti þess að verja fjármunum eða leggja á sig aðrar kvaðir til verndar öryggi og sjálfstæði sínu. En einræðisherrarnir geta skipað þegnum sínum fyrir verkum. Sovéskir andófsmenn hafa að vísu haldið því fram, að við Vesturlandabúar séum orðnir hóglífir og viljum engu fórna eða ekkert leggja í sölurnar til að verja lýðræði og mannréttindi okkar. Vera má að þær raddir fái aukinn styrk á köflum sem halda því fram að ekkert þurfi að gera til þess að verja sjálfstæði sitt. Ég hygg þó að menn geri sér almennt grein fyrir því, að lýðræði og mannréttindi — og raunar hin góðu lífskjör sem menn almennt búa við hér á Vesturlöndum, sérstaklega þegar borið er saman við það sem tíðkast austantjalds, — að allir þessir kostir, sem við Íslendingar teljum sjálfsagða og viljum fyrir engan mun glata, eru glataðir ef við uggum ekki að okkur og gætum að öryggi okkar, vörnum landsins, svo að við njótum sjálfstæðis og sjálfsákvörðunarréttar hér eftir sem hingað til.