11.05.1981
Sameinað þing: 82. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4221 í B-deild Alþingistíðinda. (4328)

388. mál, utanríkismál 1981

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Við höfum nú hlýtt á hæstv. félmrh. halda langa ræðu. Undir lok ræðunnar sagði hæstv, ráðh. ýmislegt málefnalega. Ég get tekið undir ýmislegt af því sem hann sagði í þeim kafla ræðu sinnar. Að vísu sló út í fyrir honum þegar hann fór að tala um olíumálin og vildi halda því fram, að Morgunblaðið og Sjálfstfl. hefðu viljað rífa niður, eins og hann orðaði það, olíuviðskiptin við Sovétríkin. Auðvitað eru svona hugarórar ekki svaraverðir því að það, sem hefur verið stefna Sjálfstfl. í þessum málum, er einmitt að tryggja öryggi þjóðarinnar sem best í þessum efnum og leggja ekki öll egg í sömu körfu.

En það var í fyrri hluta ræðunnar og alllangt fram eftir sem hæstv, félmrh. var að ræða um varnarmálin. Þar ætla ég ekki að fara að rekja núna einstök atriði sem hæstv. ráðh. talaði um. En það verð ég að segja, að harla einkennileg sagnfræði var það sem hann vildi halda að þingheimi þegar hann var að skýra frá því sem hefði skeð í þessum málum fyrir 30–40 árum. Það er furðuleg ástríða á þessum hæstv. ráðh. að allt, sem hann tíndi til, voru amerískar nótur sem áttu að segja hver hefði verið saga málanna hér á Íslandi. Það var ekki vitnað í einn einasta íslenskan stjórnmálamann um þessi efni. Ekki einu sinni Einar Olgeirsson var nægilega góður í þessu efni.

Hæstv. ráðh. kom með ýmsar upplýsingar sem — ég verð að segja fyrir mitt leyti — ég hef ekki heyrt áður. Ég hef ekki heyrt það áður, sem hæstv. ráðh. sagði, að Bandaríkin hefðu gert að skilyrði fyrir því, að við fengjum stuðning þeirra við inngöngu í Sameinuðu þjóðirnar, að þeim væru veittar herstöðvar hér á landi. En við vitum það í sambandi við inngöngu í Sameinuðu þjóðirnar, að þá vildu kommúnistar gefa út stríðsyfirlýsingar og gera okkur að hernaðaraðilum í þeim yfirlýsta tilgangi, sem þeir sögðu, að við fengjum aðgang að Sameinuðu þjóðunum. Það virðist ekki hallast á þá Kana og kommúnista í þessum efnum. En ég hef þó allan fyrirvara á sagnfræði hæstv. félmrh. um hina bandarísku herstöð sem hann segir að hafi verið krafist hér á landi fyrir inngöngu í Sameinuðu þjóðirnar. Ég gæti haldið áfram að telja ýmis efni upp, en ég ætla að neita mér um það að þessu sinni. Mig langar til að ræða um annað sem mér finnst þarflegra.

Það er annars furðulegt með hæstv. félmrh. og þá kommúnista yfirleitt, að þegar þeir eru að ræða sérstaklega um varnarmál eru þeir alltaf að tala um að þeir hafi meiri hluta þjóðarinnar með sér í þessum efnum eða séu að fá meiri hlutann. Ég verð að vísu að viðurkenna að það er nokkur framför frá því þeir töluðu um þjóðina á Þórsgötu og áttu alla þjóðina. Þeir gera þó ekki tilkall til þess nú.

Meginþráðurinn í því, sem hæstv. félmrh. var að segja um varnarmálin, var að varnir landsins væru fjörráð við þjóðerni og sjálfstæði íslensku þjóðarinnar. En það var ekki nóg með þetta, heldur lagði hæstv. ráðh. áherslu á að svo slæmt sem ástandið hefði verið áður í þessum efnum væri það hálfu verra núna. Það hefði verið að breytast nú á síðustu misserum, það hlutverk sem varnarstöðinni væri ætlað. Ef það er að breytast spyr ég: Hvaða þátt á þessi hæstv. ráðh. í því og flokkur hans? Þessi ráðh. hefur setið í ríkisstj. mestallan tímann frá því 1978. Kemur þessum ráðh. til hugar að það sé boðlegt að leggja það fyrir þingheim, sem hann er að gera, að íslensku þjóðinni stafi bráður voði af þeim breytingum sem hafa orðið að hans mati á herstöðinni á undanförnum misserum og hann hlýtur að bera ábyrgð á, ef satt er? Ég vil að lokum segja við hæstv. ráðh.: Hann á ekki nema einn kost í þessu efni ef hann vill vera sjálfum sér samkvæmur. Það er að segja af sér, hætta að bera ábyrgð á ríkisstjórnum sem hann segir að hafi setið að völdum meðan slíkar skelfilegar breytingar hafi orðið að hans mati. Hæstv. ráðh. er ekki viðræðuhæfur um þessi efni nema mönnum sé ljóst að honum sé alvara. Hér dugar ekkert minna. Hér er um alvörumál að ræða.

Ég vík þá að ræðu hæstv. utanrrh. Ég vil taka undir þakkir til hans fyrir þá skýrslu sem hann hefur hér lagt fram um utanríkismál. Hæstv. ráðh. sagði í inngangsorðum sínum fyrr í dag að utanríkismálin væru þýðingarmikil fyrir allar þjóðir og líka fyrir okkur Íslendinga. Auðvitað er þetta rétt. Það verður aldrei lögð of mikil áhersla á þetta því að það er, eins og ráðh. sagði, að ýmsu leyti og á hverjum tíma komið undir gangi heimsmálanna hver örlög okkar sem þjóðar verða. En hvernig rækjum við hlutverk okkar í utanríkismálum? Jú, það er gott og nauðsynlegt að hafa umr. eins og hér eru og fá skýrslu eins og þá sem utanrrh. hefur hér gefið. En í þessu sambandi verðum við að leggja áherslu á starf okkar í þeim alþjóðasamtökum sem við erum aðilar að því að það er ekki síst á þeim vettvangi sem við getum haft áhrif í utanríkismálum. Það er á vettvangi eins og Sameinuðu þjóðunum, Evrópuráðinu, Norðurlandaráðinu o. fl., o.fl. Nú ætla ég að takmarka mál mitt við starf okkar í einum af þessum alþjóðasamtökum. Ég ætla að víkja nokkrum orðum að starfi okkar á síðasta ári í Evrópuráðinu. Ég þarf ekki að flytja inngangsorð um það, hvað aðild okkar að Evrópuráðinu er þýðingarmikil fyrir okkur og sá vettvangur sem við höfum í Evrópuráðinu. Ég flutti við síðustu umr. um utanríkismál ítarlega ræðu um það efni. En ég vil nú með fáum orðum víkja að því helsta sem ég tel frásagnarvert af störfum Evrópuráðsins á síðasta starfsári þess.

Ég vil taka það fram, að í stjórnmálaumræðum og afskiptum Evrópuráðsins eru alþjóðamálin alltaf ofarlega á baugi, svo sem öryggis- og samvinnumál, og nú hefur öryggis- og samvinnuráðstefnan í Madrid verið mjög mikið rædd á þessum vettvangi. Það hefur verið rætt um ástandið og gerðar ályktanir varðandi Miðausturlönd, Afganistan, ástandið í Tyrklandi og víðar.

Um einstaka málaflokka þykir mér rétt að skýra frá að Evrópuráðsþingið samþykkti á síðasta starfsári sínu ályktun sem er mjög umfangsmikil og fjallar um hina ýmsu starfsemi Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD.

Í félags- og heilbrigðismálum voru gerðar sérstakar tillögur til ráðherranefndar Evrópuráðsins, þar sem kveðið var á um frekari samræmingu milli aðgerða ríkis annars vegar og bæjar- og sveitarstjórna hins vegar með það fyrir augum að draga úr fátækt. Þingið lét frá sér fara álit um viss framkvæmdaratriði varðandi félagsmálasáttmála Evrópu en Ísland er aðili að félagsmálasáttmála Evrópu sem er einn af helstu sáttmálum Evrópuráðsins. Það gerðist fyrir nokkrum árum.

Í landbúnaðarmálum skeði það, að gerð var samþykkt um að vinna að því að komið yrði á fót sérstakri heimsráðstefnu sem hefði það verkefni að endurskipuleggja starfsemi á sviði landbúnaðar og þróun í sveitum.

Þá þykir mér rétt að víkja að máli sem okkur er sérstaklega skylt. Á janúarfundi Evrópuráðsins var fjallað sérstaklega um fiskveiðimál. Af því tilefni var Steingrími Hermannssyni sjútvrh. boðið að ávarpa þingið. Flutti hann ræðu um fiskveiðimál þegar skýrsla um framtíð fiskveiða í Evrópu var til umræðu. Hann svaraði og fsp. Var gerður góður rómur að máli ráðh. Í þessum umræðum tóku þátt allir fulltrúar Íslands á þinginu þannig að íslensk viðhorf og sjónarmið komu mjög fram í þessum umræðum. En þingið samþykkti tillögu þar sem skorað er á ráðherranefnd Evrópuráðsins að stuðla að mótun hagnýtrar fiskveiði- og fiskverndunarstefnu.

Jafnframt er kveðið á um aðgerðir til að hamla á móti mengum úthafa og vatna og aðgerðir til aukinna rannsókna. Þá lagði þingið áherslu á betri samræmingu á stefnu Efnahagsbandalagsríkjanna í fiskveiðimálum og þeirra ríkja í Evrópuráðinu sem ekki eru aðilar að Efnahagsbandalaginu.

Ég skal ekki frekar vera hér að rekja einstök mál, en vísa til skýrslu fulltrúa Íslands á 32. þingi Evrópuráðsins frá apríl 1980 til jan. 1981 sem lögð hefur verið fram hér á Alþingi fyrir nokkru. Þó er það eitt mál sem varðar Evrópuráðið sem ég tel rétt og skylt að koma hér sérstaklega inn á.

Á undanförnum mánuðum hefur Tyrkland verið í sviðsljósinu, ekki síst á vettvangi Evrópuráðsins. Í þessum umr. hefur ekki verið minnst á þetta mikilvæga mál. Tyrkland er eitt af aðildarríkjum Evrópuráðsins og varðar því ráðið sérstaklega. Það er valdataka hersins 18. sept. s. l. undir forustu Evrin hershöfðingja sem Evrópuráðið hefur látið til sín taka.

Á septemberfundi Evrópuráðsins s. l. haust var fjallað ítarlega um ástandið í Tyrklandi, en herforingjastjórnin var þá nýbúin að taka völdin. Fulltrúar tyrkneska þingsins, sem þá var nýbúið að leysa upp, tóku þátt í þessum fundi. Af tólf fulltrúum Tyrkja á þinginu mættu þó aðeins fjórir. Á þessum fundi Evrópuþingsins var samþykkt ályktun þar sem þingið lýsti yfir að það líti valdatöku hersins í Tyrklandi alvarlegum augum. Bent var á að með því að leysa upp þingið og banna starfsemi stjórnmálaflokka jafnframt því að setja hömlur á starfsemi verkalýðshreyfingarinnar hafi verið skapað ástand þar í landi sem ekki væri samrýmanlegt ákvæðum um stofnskrá Evrópuráðsins. Þó að vitað væri að á síðustu mánuðum hefðu verið brotalamir á framkvæmd lýðræðisins í Tyrklandi og mannhelgi hefði verið ábótavant yrði að hafa í huga að hvers konar ráðstafanir til að bæta þar úr yrðu að grundvallast á lögum og rétti. Tekið var fram í ályktun þingsins að grundvallarskilyrði fyrir aðild að Evrópuráðinu væri að staðið væri við yfirlýsingar herforingjastjórnarinnar um að fljótlega yrði komið á lýðræði í landinu. Lögð var áhersla á að valdataka hvaða borgaralegs aðila sem væri eða hernaðaraðila, sem hefði í för með sér afnám lýðræðis, af hvaða ástæðum sem væri, samrýmdist ekki þeim grundvallarhugsjónum sem Evrópuráðið byggði á. Á þessum fundi var skorað á núverandi ríkisstjórn Tyrklands að gera tilteknar ráðstafanir:

1. Að virða ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu um mannréttindi.

2. Að láta lausa án tafar alla lýðræðislega kjörna stjórnmálamenn sem hefðu ekki gerst alvarlega brotlegir við lög fyrir 12. sept. 1980.

3. Að vinda bráðan bug að því að lýðræði megi á ný verða komið á fót með þeim hætti m. a. að leyfð verði frjáls starfsemi stjórnmálaflokka, verkalýðssamtaka og annarra lýðræðislegra samtaka jafnframt því sem tryggt yrði tjáningarfrelsi í landinu.

Á janúarfundi Evrópuráðsins í jan. s. l. var lögð fram skýrsla sem austurríski íhaldsþm. Ludwig Steiner hafði gert um ástandið í Tyrklandi, en Steiner hafði ásamt spánska sósíalistaþm. Yanez-Barnuevo farið á vegum Evrópuráðsins til Tyrklands til að kynna sér ástandið þar. Skýrsla þessi er byggð á upplýsingum og athugunum sem þeir félagar gerðu í þessari för sinni til Tyrklands sem farin var í jan. s. l.

Í skýrslu þessari er tekið fram að allir, sem þeir félagar töluðu við í Tyrklandi, hafi sérstaklega óskað eftir að ræða ástandið, eins og það var fyrir 12. sept. 1980, á þeim grundvelli að það væri ómögulegt að skilja ástandið núna án þess að athuga ástæðurnar fyrir valdatöku hersins. Tekið er fram að menn hafi ekki greint á um hvert hafi verið hið raunverulega ástand í landinu fyrir 12. sept., þó að þeir menn, sem viðræður voru við, hafi ekki verið sammála um ástæðurnar fyrir valdatöku hersins og hverjir hafi borið ábyrgð á henni. Allir viðmælendur lögðu áherslu á þá staðreynd, að hryðjuverk hafi herjað landið á síðustu mánuðum fyrir valdatökuna. Gagnvart þessari hryðjuverkastarfsemi hafi ríkisstjórn Demirels, sem þá var við völd, raunverulega verið varnarlaus.

Annað atriði, sem sagt var nauðsynlegt að hafa í huga til skilnings á núverandi ástandi, var að starfsemi löggjafarþingsins fyrir 12. sept. hefði verið lömuð. Það hefði valdið því að þingið hafi reynst ófært um að gegna skyldum sínum. Ekki einungis hefði því ekki tekist að kjósa forseta lýðveldisins eftir að það hefði verið meira en 100 atkvgr. um forsetakjör frá 25. mars 1980, heldur hefði einnig verið ómögulegt að fá samþykkta nauðsynlega löggjöf sem ekki hefði þolað bið. Löggjafarþingið hefði verið óstarfhæft af því að tveir helstu stjórnmálaflokkar landsins, Réttlætisflokkurinn og Lýðveldisflokkurinn, hefðu neitað að hafa nokkurt samband um úrræði til lausnar. Jafnframt þessu hafði upplausn fylgt í stjórnsýslukerfi landsins, embættismannakerfi, lögreglu o. s. frv. Tekið er fram að lýsing sú, sem gefin er á ástandinu fyrir valdatöku hersins og byggð er á viðtölum við fólk í landinu, fari saman við þá lýsingu sem gefin hafi verið af Evrin hershöfðingja í fyrstu yfirlýsingu hans eftir valdaránið.

Í skýrslu þessari, sem ég vitna hér til, er tekið fram að bæði herforingjarnir og hin nýja ríkisstjórn þeirra hafi ítrekað lýst yfir þeirri fyrirætlun sinni að tryggja að Tyrkland taki aftur upp lýðræðislega stjórnarhætti. Greint er frá því, að bæði forsrh. og utanrrh. landsins hafi fullvissað sendimenn Evrópuráðsins um þetta. Allir, sem þeir hafi talað við um þetta atriði, hafi án undantekningar lýst yfir trausti á heilindum hershöfðingjanna og ríkisstjórnarinnar í þessu efni. Hins vegar kveðast þeir ekki hafa fengið nákvæma tímasetningu fyrir því, hvenær lýðræði yrði komið á fót né hvaða skilyrðum yrði áður að fullnægja til þess að svo yrði gert. Aftur á móti lýsa stjórnvöld því yfir, að afturhvarf til lýðræðisins mundi eiga sér stað í tveim áföngum. Fyrri áfanganum yrði náð með baráttu gegn hryðjuverkum og útrýmingu hryðjuverkastarfsemi. Aðspurður hafi forsrh. lýst því yfir, að útrýming hryðjuverkastarfsemi þýddi að lögð yrðu að velli samtök hryðjuverkamanna sem ættu upptök sín og störfuðu í landinu sjálfu. Aðeins þegar það hefði verið gert teldi ríkisstjórnin vera mögulegt að snúa sér að því sem lýtur að öðrum áfanganum, sem fólginn er í því að koma á aftur þingræði í landinu. Þetta mundi fela í sér að sett yrði á fót stjórnlagaþing sem falið yrði það hlutverk að setja landinu nýja stjórnarskrá, kosningalög og lög um stjórnmálaflokka. Í skýrslunni er tekið fram að engar sérstakar yfirlýsingar sé að hafa um hvenær stjórnlagaþingið yrði kallað saman né hvernig það yrði skipað. Einungis hafi verið ítrekað það, sem Evrin hershöfðingi hefur þegar sagt opinberlega, að hann mundi tilkynna í lok ársins 1981 hvenær stjórnlagaþingið yrði kallað saman.

Allir þeir, sem sendimenn Evrópuráðsins komu að máli við, voru sammála um að almenningsálitið í Tyrklandi stæði með núverandi ríkisstjórn og treyst væri fullkomlega fyrirætlunum hennar um að snúa aftur til lýðræðisins. Þetta hafa þeir bæði eftir ráðherrum í ríkisstjórninni og foringjum stjórnmálaflokkanna, þar með töldum Demirel og Ecevit, þ. e. forsrh. og formanni stjórnarandstöðunnar þegar valdarán hersins átti sér stað. Þessi stuðningur almennings er sagður að mestu leyti byggjast á verulegum árangri hinnar nýju ríkisstjórnar í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi. Til skýringar á þessu eru gefnar raunhæfar og átakanlegar lýsingar á því hræðilega öryggisleysi sem tyrkneskir borgarar urðu að búa við vegna skefjalausra hryðjuverka sem áttu sér stað fram til valdatöku hersins. Tekið er fram að þó stjórnmálaforingjarnir telji almenningsálitið styðja núverandi ríkisstjórn réttlæti þeir ekki valdatöku hersins í sjálfu sér.

Í þessari ferð sinni til Tyrklands kynntu þeir Ludwig Steiner og Yanez-Barnuevo sér sérstaklega ásakanir um misþyrmingar á föngum sem Amnesty International hefur haft uppi gegn tyrkneskum yfirvöldum. Stjórnvöld viðurkenndu að það hefðu átt sér stað misþyrmingar, en sögðu að ábyrgðin á þeim lægi hjá einstökum lögreglumönnum eða lögregluforingjum. Var sagt að rannsókn hefði farið fram á hverju einstöku tilviki, sem kært hefði verið yfir, og hinum seku hefði verið refsað. Taka þeir sendimenn Evrópuráðsins fram að viðmælendur þeirra hafi verið sammála um að það væri ekki stefna ríkisstj. að beita fanga misþyrmingum. Þá taka þeir fram sérstaklega að allir, sem við hafi verið rætt, hafi lýst yfir að dómstólar landsins væru í störfum sínum óháðir ríkisstjórninni.

Í skýrslu þeirri, sem ég hef hér vikið að, er greint nánar frá ýmsum atriðum varðandi ástandið í Tyrklandi sem of langt mál yrði að rekja hér. Það skal þó tekið fram, að þar er greint frá að menn í Tyrklandi hafi áhyggjur af því, hver muni verða afstaða Evrópuráðsins og sérstaklega þings Evrópuráðsins gangvart Tyrklandi. Allir, sem haft hafi verið tal af, hefðu lagt áherslu á að aðgerðir, sem fælu brottrekstur Tyrklands úr Evrópuráðinu í sér, mundi verða lítið á sem fullkomlega óréttlætanlegar af tyrknesku stjórninni og miklum meirihluta þjóðarinnar. Slíkar aðgerðir mundu hafa alvarlegar afleiðingar á þann veg að almenningsálitið í Tyrklandi mundi snúast gegn Vesturlöndum. Það mundi efla áhrif þeirra minni hluta í landinu sem væru að vinna að því að fjarlægja Tyrkland löndum Evrópu. Stjórnvöld bentu á að fyrir 12. sept. s. l. hefði lýðræðinu verið svo komið, að mikilvægustu mannréttindi, eins og rétturinn til lífsins og rétturinn til þess að þurfa ekki að hlíta ómannúðlegri og niðurlægjandi meðferð, hefði verið einskis virtur af hryðjuverkasamtökum sem hefðu tekið til sinna ráða vegna vanmáttar framkvæmdavaldsins. Var lýst þeirri von, að þingmenn Evrópuráðsins vildu skilja að valdataka hersins hefði verið eina svarið við þessu óbærilega ástandi. Þess var vænst, að þm. Evrópuráðsins treystu því, að ríkisstjórnin mundi koma lýðræði á fót. Þess var vænst, að þeir skildu jafnframt að of mikill hraði í þessum efnum, án þess að vegið væri að rótum þeirra orsaka sem leitt hefðu til hins óbærilega ástands sem orðið var fyrir valdatöku hersins, mundi ekki leysa neitt og gæti jafnvel verið til hins verra. Sumir tóku fram að aðild Tyrklands að Evrópuráðinu mundi verða stöðug hvatning til hersins um að koma lýðræði á sem fyrst. Ef Tyrkland væri útilokað úr samfélagi lýðræðisríkja Evrópu mundi herinn telja sig frjálsari að aðhafast það sem hann vildi. Það segir í skýrslu þessari að lokum, að bæði ríkisstjórnin og aðrir menn sem talað hafi verið við, vænti þess, að Evrópuráðið sýni skilning og jafnframt hjálpi Tyrklandi til að ná því að endurreisa fullkomlega lýðræði í landinu.

Með samþykkt sinni í janúar s. l. fól þing Evrópuráðsins stjórnmálanefnd ráðsins að halda áfram að fylgjast vandlega með þróun innanlandsmála í Tyrklandi. Þá var þess óskað, að fastaráð ráðsins kynnti sér ástand mála, og hinn 26. og 27. mars s. l. hélt fastanefnd ráðsins fund þar sem gefin var skýrsla um þróun mála í Tyrklandi frá því í janúar. Þar kom fram að ekki hefur orðið nein veruleg breyting eða nein umskipti á ástandinu eins og það var í lok janúar. Ekki liggja neinar nýjar upplýsingar fyrir um tímasetningu eða þau skilyrði sem nauðsynleg eru talin til að lýðræði verði tekið upp á ný í landinu. Beðið er eftir að fá nákvæmar upplýsingar og án tafar um þau atriði sem eru enn óljós. Ekki eru enn neinar upplýsingar um hvert vald stjórnlagaþingsins verður né með hverjum hætti tillaga til nýrrar stjórnarskrár verður borin undir þjóðina.

Mér hefur þótt rétt að gefa Alþingi skýrslu eða gera Alþingi grein fyrir ástandi mála í Tyrklandi. Tyrkland er ásamt Íslandi aðili að Evrópuráðinu. Það varðar því Ísland hverju fram vindur í Tyrklandi í því ástandi sem þar er nú. Vandi Evrópuráðsins gagnvart Tyrklandi og allra aðildarríkja Evrópuráðsins er annars vegar sá, að samkv. stofnskrá ráðsins er það skilyrði fyrir aðild að því, að lýðræðislegir stjórnarhættir ríki í viðkomandi landi og mannréttindi séu virt. Hins vegar vilja menn halda í þá von, að senn verði endurreist lýðræði í landinu, en brottrekstur úr Evrópuráðinu mundi torvelda og seinka þeirri þróun. Það er þess vegna sterkur vilji innan ráðsins til að gera ekkert í bili sem dregið geti úr líkum fyrir því að lýðræði verði endurreist í landinu. Það er sterkur vilji innan ráðsins fyrir því að víkja Tyrklandi ekki úr þessum samtökum, a. m. k. fyrst um sinn. En ekki er hægt að útiloka þann möguleika að Tyrklandi verði vikið úr Evrópuráðinu. Í þessu sambandi er vert að minnast þess, að þegar herforingjarnir tóku völdin í Grikklandi árið 1967 hafði það þær afleiðingar að Grikklandi var vikið úr Evrópuráðinu. Það er talið fullvíst að sú ráðstöfun hafi í raun og veru stuðlað að því, að lýðræði var síðar endurreist í Grikklandi. Þessum sjónarmiðum hefur verið lýst af hálfu Evrópuráðsins, m. a, á blaðamannafundi sem de Koster, forseti Evrópuráðsins, hélt hér í Reykjavík í mars s. l. þegar hann kom hingað í heimsókn.

Ég tel fyrir mitt leyti að varast beri að gera nokkuð sem getur torveldað endurreisn lýðræðis í Tyrklandi, því sé ekki rétt að rasa um ráð fram um að vísa Tyrklandi úr Evrópuráðinu. Hins vegar er það mín skoðun, að ekki sé útilokað að til þess ráðs verði að grípa, og svo kann að fara að það verði á næstunni gert út um hvort til þess kemur.

Herra forseti. Í þessu efni er þýðingarmikil sú meðferð sem Tyrklandsmálin fá nú á næstu dögum á því þingi Evrópuráðsins sem hófst í dag.

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson): Herra forseti. Skylt er að þakka hæstv, utanrrh. fyrir fróðlega og glögga skýrslu um utanríkismál sem er til umr. á þessum degi. Það eru engin tök á því nú að ræða skýrslu þess lið fyrir lið, hún er margþætt og efnismikil, en rétt er að minnast á nokkur atriði skýrslunnar, örfá, og umræðu þá er út af henni hefur spunnist, þó að ég hafi því miður ekki haft tök á því að hlusta á allar ræðurnar í heild.

Herra forseti. Í fyrstu ætla ég að leyfa mér að hafa yfir stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens um utanríkismál o. fl. eins og hún birtist í stjórnarsáttmálanum frá 8. febr. 1980 og raunar eins í inngangi að skýrslu hæstv. utanrrh.:

Ríkisstj. leggur áherslu á að framfylgja sjálfstæðri utanríkisstefnu. Í því sambandi verði þátttaka Íslendinga í starfi Sameinuðu þjóðanna og Norðurlandaráðs sérstaklega styrkt.

Ríkisstj. mun beita sér fyrir samningum við Norðmenn til þess að tryggja fiskveiðiréttindi Íslendinga á Jan Mayen-svæðinu og fullnægjandi vernd fiskstofnanna þar. Jafnframt verði hafsbotnsréttindi Íslendinga á svæðinu tryggð.

Öryggismálanefndin hraði störfum sínum og geri reglulegar áfangaskýrslur um störf sín.

Áætlanir um flugstöð á Keflavíkurflugvelli verði endurskoðaðar og ekki ráðist í framkvæmdir við hana nema með samkomulagi allrar ríkisstj.

Undirbúið verði öflugt átak til atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum.

Athugað verði, hvort rétt sé að breyta því skipulagi, að utanrrn. hafi yfirstjórn allra málaflokka á Keflavíkurflugvelli.“

Það ætti að vera afar auðvelt öllum venjulegum mönnum, hvort sem þeir eru stjórnarsinnar eða stjórnarandstæðingar, að skilja og átta sig til fulls á því, hvað í þessari yfirlýsingu felst. Jafnframt er hægt að bera hina yfirlýstu stefnu saman við þá stefnu sem ríkisstj. hefur fylgt í raun fram á þennan dag. Um það geta menn greinilega lesið í hinni yfirgripsmiklu skýrslu hæstv. utanrrh. Vænti ég þess, að við þann lestur verði flestir glaðir og ánægðir, a. m. k. þeir sem aðhyllast þá öryggisstefnu sem Íslendingar hafa mótað og fylgt frá fyrstu dögum lýðveldisins til þessa dags í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum og lýsir sér gleggst í nánu samstafi við helstu frænd- og vinaþjóðir sem meta frelsi og mannréttindi öllu ofar í heimi hér, enda skortir ekki á það að hæstv. utanrrh. sé vottað fullt traust úr ýmsum áttum fyrir staðfesta og traust fylgi við þessa mótuðu stefnu.

Hér skal aðeins einn vitnisburður nefndur af þessu tagi. Í ályktun flokksráðs og formannaráðstefnu Sjálfstfl., sem haldin var í Reykjavík dagana 29. og 30. nóv. 1980, stendur svohljóðandi málsgrein:

„Flokksráðstefnan og formannafundurinn fagnar því, að fylgt er þeirri stefnu í öryggis- og varnarmálum sem Sjálfstfl. mótaði á fyrstu árum lýðveldisins og flokkurinn hefur síðan staðið vörð um.“

Þessi ályktun var samþykkt af öllum fundarmönnun á þeirri ráðstefnu, að því er ég best veit.

Það er ekkert launungarmál, að einn flokkurinn í ríkisstj., Alþb., hefur sérstöðu að því er þennan málaflokk varðar. Hitt eru gleðitíðindi, þó að hæstv. utanrrh. teldi sig ekki geta sagt mörg slík í sinni ræðu, að meginþorri íslensku þjóðarinnar er farinn að líta á utanríkis-, öryggis- og varnarmál sem ein hinna allra mikilvægustu mála sem varða lands- og þjóðarhag. Það er sannarlega ánægjuefni að leitast skuli vera við að lyfta þessum málum yfir hið venjubundna dægurþras og ræða þau af rósemi og festu svo sem vera ber og oft hefur verið minnst á að gera þyrfti.

Að því er snertir samstarf Íslendinga við þjóðir þær, sem hafa skipað sér í Atlantshafsbandalagið, get ég fyllilega tekið undir orð hæstv. utanrrh. í ræðu hans áðan, að hafi þörf verið á að taka þátt í NATO-samstarfi áður fyrr sé sú þörf enn brýnni nú.

Hæstv. utanrrh. gat þess í ræðu sinni, að ekki væri vanþörf á að skýrsla um samstarf Norðurlandaþjóðanna yrði gefin og rædd sérstaklega. Í þessu efni er ég honum alveg sammála. Þetta samstarf á langa og merka sögu að baki, eins og nýlega kom greinilega fram á 29. ársþingi Norðurlandaráðs sem haldið var í Kaupmannahöfn í marsbyrjun. Þessi samvinna frænda- og nágrannaþjóða á Norðurlöndum hefur vakið alheimsathygli. Til þeirrar samvinnu er oft vitnað sem fyrirmyndar á alþjóðlegum vettvangi. Mætti margt um hana segja, en verður að bíða betri tíma þar sem mér skilst að alþm. séu almennt sammála um að stytta mál sitt á þessu sólríka síðkvöldi. Sem dæmi nefni ég aðeins að innan fárra daga verður fundur haldinn í Helsingfors í nefnd þeirri sem hefur það hlutverk að fjalla um réttarstöðu Færeyja, Grænlands og Álandseyja í norrænu samstarfi og er undir forustu dómsmrh. Svíþjóðar. En ljóst er að samstarf áðurnefndra Norðurlandaþjóða í heild hefur þegar látið margt gott af sér leiða og mun svo verða framvegis ef rétt er á spilum haldið.

Hv. 1. og 4. þm. Reykv. ræddu í hófstilltum ræðum í dag um mörg athyglisverð efni, sem fjallað er um í margnefndri skýrslu utanrrh., og hæstv. félmrh. rakti efni breskra leyniskjala frá árunum 1945–1948 allan þann tíma sem mér gafst kostur á að hlýða á mál hans. Ekki skulu aths. gerðar við ræður þessar í einstökum greinum að þessu sinni þó fróðlegt væri að gera þær nokkru nánar að umtalsefni.

Það er deginum ljósara að Íslendingum ber að ástunda gott samstarf og ábatasöm skipti við allar þjóðir heims, eftir því sem atvik standa til hverju sinni, og styðja fátækar þjóðir eftir megni. Jafnframt ber þeim að framfylgja sjálfstæðri utanríkisstefnu. Hin aldna hlutleysisyfirlýsing frá 1918: „Ísland lýsir yfir ævarandi hlutleysi sínu og að það hafi engan gunnfána“ — er okkur engin vörn lengur þó að ýmsir ágætir menn reyndu að halda dauðahaldi í hana í lengstu lög. Við verðum að taka þátt í samstarfi þjóðanna og fylgjast vel með framvindu mála eins og aðrir sem eiga heimili sitt við fjölfarna þjóðbraut. Þó að allt virðist á stundum með kyrrum kjörum á yfirborðinu er hin kalda undiralda söm við sig á öllum tímum. Ég tel hyggilegast og réttast að fylgja framvegis sem hingað til í meginatriðum öryggisstefnu þeirri sem hinu unga íslenska lýðveldi tókst að móta í öndverðu og reynst hefur okkur á þann veg að við getum bærilega við unað.