12.05.1981
Efri deild: 96. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4230 í B-deild Alþingistíðinda. (4333)

203. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um frv. til l. um veitingu ríkisborgararéttar og hefur að því máli verið unnið með hefðbundnum hætti, þ. e. að tveir fulltrúar allshn. þessarar hv. d. og tveir fulltrúar úr allshn. Nd. fóru yfir allar umsóknir ásamt skrifstofustjóra Alþingis. Svo sem venja er til hafa allmörg nöfn bæst hér við, umsóknir sem borist hafa frá því að frv. var samið, og þær eru raunar nokkru fleiri en þau nöfn sem talin eru upp í frv., en allshn. leggur til að við bætist 27 nöfn, svo sem nánar er tilgreint á þskj. 763. Þess er að geta, að nokkrir þeirra einstaklinga, sem hér eru upp taldir, öðlast ekki ríkisborgararétt fyrr en síðar á þessu ári og er það þá tekið sérstaklega fram við nafn þeirra á þessu þskj.

Þess er að geta, að fram hefur komið brtt. við 2. gr. frv. og hafa nm., sem sumir hverjir styðja hana, annars óbundnar hendur um afstöðu til hennar. Allshn. leggur sem sagt til að frv. verði samþykkt.