12.05.1981
Efri deild: 96. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4236 í B-deild Alþingistíðinda. (4338)

56. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Það hefur verið varpað til mín nokkrum fsp. og frv. þetta rætt bæði hér af hv. 5. landsk. og af hv. 11. landsk. fyrr, þegar það var þá á dagskrá í síðustu viku. Það er rétt sem hv. þm. Eyjólfur Konráð segir, að landbúnaðurinn eins og aðrir atvinnuvegir á í erfiðleikum. Íslenskt þjóðfélag á auðvitað í erfiðleikum, þ. á m. atvinnuvegir þess, vegna þeirrar miklu verðbólguþróunar sem hér hefur geisað í langan tíma. Og það er einmitt svo, að barátta stjórnvalda, bæði núv. ríkisstj. og annarra ríkisstj., hefur beinst að því að fást við þessi vandamál sem að meginhluta stafa af verðbólgu, þó að árangur hafi verið misjafn í tíð hinna ýmsu ríkisstj. Þetta er einnig viðfangsefni þeirrar ríkisstj. sem nú situr. Ég skal ekki fara að rekja hér hvaða árangur hefur þó náðst í þessari baráttu. En þegar það er haft í huga að ríkisstj. tekur við efnahagsmálum í því ástandi að það ríkir 61% verðbólga ásamt stórkostlegum hallarekstri allra höfuðatvinnuvega þjóðarinnar, þá verður ekki þrautalaust að koma því efnahagskerfi í sæmilegt horf.

Um það kvótakerfi, sem hv. þm. spurði um og sagði að það væri uggur í bændum vegna kvótakerfisins og ýmissa þeirra framleiðslutakmarkana sem væru á döfinni og beitt hefði verið í landbúnaði, þá vil ég segja það, að kvótakerfið er sú leið sem Framleiðsluráð og Stéttarsamband bænda völdu sem fyrstu leið til þess að hafa áhrif á framleiðsluþróun. Framleiðsluráðslög, sem afgreidd voru á þingi 1979, færðu bændasamtökunum í hendur allvíðtækar heimildir til þess að taka á framleiðsluvandamálunum. Þær heimildir, sem er að finna í þeim lögum, hafa verið notaðar þannig að Stéttarsamband bænda og Framleiðsluráð landbúnaðarins með samþykki landbrh. ákvað að nota þessa kvótakerfisleið sem fyrstu aðgerð í þessum efnum. Ég vil gjarnan segja frá því, að vinnsla á þessu kerfi hefur verið tímafrek og erfið og kostað verulega fjármuni. Það er rétt sem hv. þm. vék lauslega að, að það væri tæplega hægt að segja að þetta kerfi sé komið til framkvæmda. Það hefur hins vegar vofað yfir, bændur hafa vitað að þetta kerfi væri í vinnslu og kynni að koma til framkvæmda fyrr en síðar, og af þeim sökum hefur það án efa haft nokkur áhrif í sambandi við framleiðslumagn.

Ég hef látið þá skoðun mína í ljós oftar en einu sinni, að ég ber nokkurn ugg í brjósti varðandi þetta kerfi. Ég hef talið að það væri a. m. k. vandmeðfarið og væri því beitt til hins ýtrasta eftir föstum reglum mundi geta komið út úr því verulegt ranglæti. Sú vinnsla, sem fram hefur farið, hefur miðað að því að sneiða hjá þeim ágöllum sem mundu valda slíku ranglæti. Vinnsla hefur miðað að því að beita slíku kerfi af miklum sveigjanleika. Þáttur í því að gera slíkan sveigjanleika mögulegan í meðferð þessa kerfis var sú breyting sem felst í þeim brbl. sem sett voru 23. júní og eru nú hér til staðfestingar Alþingis.

Ég skal ekki fullyrða um það, hvað þetta kvótakerfi helst lengi. Ég vænti þess, að það verði unnt a. m. k. að beita ákvæðum þess með þeim sveigjanleika að helstu ágallar kerfisins hverfi. Þó er ljóst að það má varast það, ef þetta kerfi verður till einhverrar frambúðar, að það skeri ekki á framtaksmöguleika bænda í landbúnaðinum því það væri hið hættulegasta sem slíkt kerfi gæti haft í för með sér.

Ég held að það sé ekki ástæða til þess að ég fjalli um það kerfi frekar, en það hefur verið samþykkt af Framleiðsluráði, að 1 milljarði gkr. til mjólkurframleiðenda af því, sem inn hefur komið vegna kjarnfóðurgjalds, verði ráðstafað eftir útreikningum kvótakerfisins. Það er í rauninni það fyrsta sem kemur til framkvæmda beint eftir þessu kerfi.

Hv. 5. landsk. þm. ræddi hér ályktun Alþingis um afurða- og rekstrarlán annars vegar og um útflutningsbætur og niðurgreiðslur hins vegar. Varðandi þann þátt málsins, sem snýr að afurða- og rekstrarlánum og hæstv. viðskrh. hefur svarað í hv. Nd., vil ég gjarnan taka þetta fram:

Þegar ég kom í landbrn. var að starfi nefnd sem fjallaði um afurða- og rekstrarlán, þ. á m. að gera till. um framkvæmd á því, hvernig rekstrar- og afurðalánum verði beitt þannig að bændur geti fengið laun sín greidd og óhjákvæmilegan rekstrarkostnað svipað og aðrir aðilar fá nú. Nefnd þessi var skipuð af fyrrv. landbrh. Steingrími Hermannssyni og í henni áttu sæti Árni Gunnarsson alþm., Geir Magnússon gjaldkeri SÍS, Gunnar Guðbjartsson formaður Stéttarsambands hænda, Kjartan Ólafsson þáv. alþm., Sveinn Jónsson aðstoðarbankastjóri Seðlabanka Íslands, Magnús Jónsson bankastjóri Búnaðarbanka Íslands, Helgi Bergs bankastjóri Landsbanka Íslands og Vilhjálmur Hjálmarsson fyrrv. alþm. sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar. Garðar Ingvarsson tók við af Sveini Jónssyni sem fulltrúi Seðlabanka Íslands, í nefndinni frá 20. júní 1980. Þessi nefnd skilaði áfangaskýrslu varðandi hækkun rekstrar- og afurðalána sem ekki hefur mikið blandast inn í þessar umr., en því miður hefur ekki tekist að verða við að koma fram þeim till. sem n. gerði um það efni. Þó hafa rekstrar- og afurðalán fyllilega fylgt verðlagsþróun á þeim tíma sem liðinn er síðan ég kom í þetta ráðuneyti.

Hins vegar var það ákvörðun mín í sambandi við ályktun Alþingis sem hv. þm. Eyjólfur Konráð hefur vitnað til, að auka við erindisbréf nefndarinnar. Það gerði ég með bréfi 20. mars 1980 þar sem segir m. a., með leyfi forseta:

„Jafnframt felur rn. nefndinni að gera till. til rn. svo sem fært þykir um tilhögun afgreiðslu rekstrar- og afurðalána landbúnaðarins sem tryggi að bændur fái í hendur þá fjármuni, sem þeim eru ætlaðir, um leið og lánin eru veitt, sbr. ályktun Alþingis, dags. 27. maí 1979, um beinar greiðslur til bænda.“

Nefndin skilaði endanlegu áliti 13. febr. 1981 og er álit hennar undirritað af öllum nm. Meginniðurstaða n. um þetta verkefni, sem ég fól henni að kanna sérstaklega, er svo sem segir í síðustu málsgr. í áliti n., svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Með vísun til framanritaðs svo og að vandlega athuguðu máli gerir n. ekki till. um breytta tilhögun afurða- og rekstrarlána landbúnaðarins umfram það sem greinir í 1. og 2. áfanga nál.,“ en það fjallaði einkanlega um hækkun á þessum lánum til landbúnaðarins.

Þetta er meginniðurstaða nefndarinnar. Þrátt fyrir það vekur nefndin athygli á þeirri leið sem bent er á í umsögn Seðlabankans svo og öðrum skýringum sem fram koma í grg. bankanna allra. Það bréf, sem hefur í umræðum hér á Alþingi verið vitnað í, frá Seðlabanka Íslands, sem er ritað til landbrn. 15. jan. 1980, felur í sér þessar ábendingar, og þessar ábendingar hafa komið fram í blöðum. Ég veit ekki hvort ástæða er til að ég fari að rekja þær hér að öðru leyti en því, að þær eru efnislega á þá leið í fyrsta lagi, að framleiðslufélögin verði áfram eins og verið hefur lántakendur bæði rekstrar- og afurðalána. Það er talið nauðsynlegt að lántakandi þessara lánaflokka beggja sé hinn sami vegna innbyrðis tengsla þeirra og vegna þess að rekstrarlánin eru endurgreidd af afurðalánum sem veitast í nóvembermánuði, en rekstrarlánin veitast frá því í marsmánuði og þangað til í ágústmánuði. Síðan væri hægt annað tveggja með samkomulagi eða jafnvel með fyrirmælum að kveða á um það, að því fjármagni, sem rennur til fyrirtækjanna í gegnum rekstrar- og afurðalánin, verði ráðstafað á reikning viðkomandi bónda, annað tveggja viðskiptareikning eða bankareikning eftir ósk hvers og eins.

Þetta er sú leið sem ég hef oft látið í ljós að ég telji að sé fær í þessu máli, — leið sem farin er hjá ýmsum afurðasölufyrirtækjum svo að um þá leið hefur skapast reynsla.

Ég tel að það sé ekki ástæða til þess að fjalla um tæknileg atriði í sambandi við þessi mát umfram það sem hér hefur komið fram að vandlega athuguðu máli þeirrar nefndar sem um þetta hefur fjallað og ég fól að athuga þetta sérstaklega. Þar eru nm. sem ég ber fyllsta traust til og ég tel að niðurstöður hennar séu býsna fullnægjandi bæði fyrir mitt rn. og eins fyrir Alþingi. Hitt er rétt að láta koma til athugunar, og það mun ég væntanlega gera í samráði við viðskrh. Þar sem þessi mál, þ. e. afurða- og rekstrarlán, heyra að formi til undir viðskrh., þá tel ég eðlilegt að viðskrn. og landbrn. taki til athugunar með hvaða hætti unnt sé að koma þarna breytingum við og hvaða leiðir beri að fara í þeim tilgangi.

Ég vil hins vegar taka það fram, að ég hef ævinlega verið þeirrar skoðunar, eins og raunar fram kemur í því sem að framan er rakið, að það sé ekki fær leið að gera alla framleiðendur búvöru í landinu eða jafnvel alla bændur að lántakendum og sinna öllu því bókhaldi sem af því leiðir, þ. e. endurgreiðslum lánanna, tryggingum og öðru sem slíkum lántökum er samfara. Ég þarf ekki að fara frekar út í það. En það má auðvitað minna á að þar koma til ýmis vafaatriði, þ. á m. að búvöruframleiðendur eru mjög miklu fleiri í landinu heldur en bændur sjálfir.

Þá er það hinn þáttur þessa máls sem hv. þm. Eyjólfur Konráð spurði um sérstaklega, en það var um þann þátt ályktunar Alþingis að láta fram fara athugun á því, á hvern hátt niðurgreiðslur og útflutningsbætur gætu nýst landbúnaðinum betur.

Það er rétt, sem hv. þm. sagði, að á árinu 1979 var athugað nokkuð af Stéttarsambandi bænda hvernig þessu yrði komið við og hvort hægt væri að tengja þessa aðferð því að ráðast samtímis að því verkefni að hafa stjórn á framleiðslumálum landbúnaðarins. Að þessu verki var nokkuð starfað og fylgdist hv. fyrirspyrjandi náið með því verki, eftir því sem ég best veit. Þau dæmi, sem reiknuð voru út á þessum tíma, benda hins vegar til þess, að fjármagnið, sem varið er til niðurgreiðslna, nýtist lakar eftir þessari leið heldur en með því að greiða niður vöruverð á útsölustigi. Það kemur þannig út, t. a. m. miðað við að 25% framleiðslukostnaðar væru greidd beint til bænda með þessum hætti, af niðurgreiðslufé upp að 500 ærgilda búi, þá er það þannig að verð á mjólk samkv. þessu yrði 70 kr. hærra í útsölu en með því að greiða niður á lokastigi og heildsöluverð á fyrsta flokks dilkakjöti yrði 486 kr. hærra eftir þessari aðferð heldur en með því að greiða niður á sölustigi. Þetta er raunar í samræmi við það sem hefur verið athugað í önnur skipti varðandi þátt niðurgreiðslna í verðmyndun búvöru.

Stéttarsamband bænda fékk m. a. búnaðarhagfræðing Björn S. Stefánsson til þess að gera á þessu sérstaka úttekt, og niðurstöður hans voru í sömu átt, að niðurgreiðslur á frumstigi búvöru nýttust ekki eins vel í verðlagsþróun og að greiða niður á lokastigi.

Það síðasta, sem ég hef látið kanna alveg sérstaklega í þessu efni, er hugsanleg niðurgreiðsla á áburðarverði. Þar kemur þetta sama í ljós, því miður. Því miður nýtast fjármunir, sem varið er til niðurgreiðslu á þeirri rekstrarvöru landbúnaðarins, verr til áhrifa á verðlagsþróun heldur en með því að nota þá til að greiða niður á lokastigi framleiðsluvörunnar. Ég tók ekki með mér það blað sem um það fjallar, en ef ég man rétt mun kosta 85 millj. kr. að greiða niður eitt vísitölustig með niðurgreiðslu á áburði, en 52 millj. kr. með því að greiða niður vöruverð á útsölustigi. Hér er því miður um mjög mikinn mun að ræða sem ekki er hægt annað en taka tillit til. Þessar tölur eru þó, eins og raunar þegar hefur komið fram, með fyrirvara. Ég mun láta endurskoða þessa niðurstöðu. Þess vegna er nú mælt með nokkrum fyrirvara, en þetta er það síðasta sem ég hef látið athuga í þessu efni.

Varðandi þetta mál að, öðru leyti: að koma niðurgreiðslufé eða útflutningsbótafé beint til bænda, þá lét ég fara fram á því sérstaka athugun á s. l. hausti, hvort ekki væri fært og hagkvæmt að taka orlofið út úr grundvellinum og greiða orlofsféð beint til bænda eins og hv. þm. hefur gert till. um að leitað verði að leiðum til.

Ég batt verulegar vonir við að þetta reyndist auðvelt. Það hefur í rauninni ekkert komið fram um að það sé ekki hagkvæmt að orlofið gangi beint til bændanna án þess að fara inn í vöruverðið. Hins vegar komu fram slíkir framkvæmdaerfiðleikar við þetta mál að að þessu sinni var horfið frá að ráðast í framkvæmd þess.

Varðandi þá framkvæmdaerfiðleika var auðvitað gerð á því sérstök athugun af þar til kvaddri nefnd, en formaður Stéttarsambands bænda tók saman minnispunkta um ýmis þau álitaefni sem þar koma til úrskurðar, og þeir minnispunktar eru dagsettir 26. nóv. 1980, einmitt á þeim tíma sem þessi atriði voru til meðferðar. Ég veit ekki hvort ástæða er til að ég reki mikið úr þessum minnispunktum, en til þess að gefa hugmyndir um það get ég sagt að fyrsta spurningin er það, hverjum á að senda greiðslur. Eru það bændur eða allir búvöruframleiðendur. Ef það á aðeins að senda aðeins bændum, hverjir eru það þá sem eru bændur? Eru það þeir, sem hafa lögbýli til umráða, eða allir sem lifa að hluta eða að öllu leyti af landbúnaði? Ef aðeins er haldið sér við lögbýli er rétt að vekja á því athygli, að allar jarðir eru taldar lögbýli og auk þeirra ýmis smábýli og iðnaðarbýli þar sem þeir, sem þar búa, hafa tekjur a. m. k. að mestu leyti af öðru en venjulegri búvöruframleiðslu. Þar eru t. d. menn eins og iðnaðarmenn, prestar, kennarar, bílstjórar o. s. frv., sem hafa tekjur af öðru en búskap. Þarf að skilgreina hugtakið bóndi til þess að fá úr því skorið, hverjir eiga að taka við greiðslu og hverjir ekki. Enn fremur koma til álita félagsbú og oft þeir sem stunda félagsbúskap t. a. m. feðgar, jafnvel þar sem yngri bóndinn er námsmaður o. s. frv. Þar koma allra handa tilvik. Eiga þeir að fá jafnmikla greiðslu og tveir bændur sem búa á tveim jörðum, eða hvaða skil á að gera í þeim efnum. Það má segja að nokkrir menn telji sig bændur þó að þeir hafi ekki í raun og veru lögbýli til umráða. Það má enn geta þess, að framleiðendur búvöru, eins og þegar hefur komið fram, eru vafalaust mun fleiri en þeir bændur, sennilega þrisvar til fjórum sinnum fleiri en bændur á Íslandi.

Þá er einnig eftir að koma upp álitamál við hvað á að miða þegar greiðsla er innt af hendi. Eiga allir að fá jafna greiðslu án tillits til bústofns eða framleiðslumagns, og ef miða á við þessi tvö atriði, hvort þeirra á þá að miða við? Framleiðslumagn á hverja búeiningu er ákaflega misjafnt. Það veltur auðvitað á ýmsum atriðum, bæði landsgæðum, afurðasemi, mjólkurmagni o. s. frv. Það eru dæmi talin um það að vetrarfóðruð kind skilar 7 kg af kjöti á meðan á einhverju öðru búi skilar hún 40 kg af kjöti. Eiga þessir bændur að fá jafnt fyrir bústofn eða eiga þeir að fá greiðslu til samræmis við afurðamagn? Enn þarf að taka tillit til veikinda og vanhalda og slysa eða óhappa o. s. frv.

Mjög mörg álitaefni, sem þarf að skera úr, er hægt að rekja, önnur en þau sem hafa komið hér fram, og þau eru rakin miklu nákvæmar í þessari grg. formanns Stéttarsambands bænda. En þessi álitaefni eru svo mörg að enn hefur ekki verið úr því skorið á hvern máta þetta yrði framkvæmt.

Ég hef beðið Stéttarsamband bænda að athuga þessi mál áfram, og ég vil sannarlega leggja lið mitt til þess að það verði reynt að komast að niðurstöðu um það hvort ekki finnst hagkvæm framkvæmdaleið í þessum efnum. Þó ekki væri annað en orlofið, sem greitt væri til bændanna beint, þá teldi ég það a. m. k. mikils virði.

Aðrir þættir, sem snerta beint búreksturinn að öðru leyti, eru meira álitamál. Þó væri það auðvitað kostur ef unnt væri með jafngóðum árangri að lækka vöruverð með niðurgreiðslum á frumstigi, sem því miður horfir ekki vel um.

Ég tel að með þessu hafi ég í rauninni veitt eins fullnægjandi svör við fsp. hv. þm. Eyjólfs Konráðs og mér er unnt að þessu sinni. Ég vil aðeins bæta því við um þau atriði, sem hv. þm. réttilega vitnaði til í reglugerð við framleiðsluráðslögin, svo og lagagreinarnar sjálfar og þær greinar sem eru í því frv. sem hér liggur fyrir hv. Ed., að þar er um heimildarákvæði að ræða. Þar er um að ræða eina af þeim leiðum sem Stéttarsamband bænda og Framleiðsluráð hafa fram til þessa haft í hendi sér að velja um með staðfestingu landbrh., og þess vegna hefur það verið í þeirra höndum. Ég vænti þess, að ef það er vilji þeirra aðila að fara þessar leiðir, þá reki það enn þá meira á eftir því að þessi mál verði nákvæmlega könnuð.

Það var eitt atriði sem hv. þm. minntist á í lok sinnar ræðu. Það var um stofnlánadeildargjaldið sem lagt er á búvöruframleiðsluna. Ég tel að hér sé um mál að ræða sem þurfi athugunar við, það sé e. t. v. kominn tími til að kanna hvort ráðlegt sé að skerða tekjustofna Stofnlánadeildar landbúnaðarins á þennan máta. Það er rétt að vekja á því athygli, að ríkissjóður leggur fram fé á móti, enda þótt hlutdeild ríkissjóðs í tekjustofnum stofnlánadeildarinnar eins og annarra stofnlánasjóða í landinu hafi verið skert með lögum bæði á þessu þingi og á undanförnum árum. Eigi að síður tel ég að á þessu þurfi að fara fram athugun. En ég vil ekki slá neinu föstu um þessi mál án þess að mjög gaumgæfileg athugun fari fram. Ef hv. þm. hefur í hyggju að flytja frv. er það vitaskuld hans mál. En ég held að það væri ráðlegt að athuga þetta mál nokkuð gaumgæfilega, fyrst og fremst með tilliti til hagsmuna landbúnaðarins í heild, og í þeim orðum felast auðvitað hagsmunir einstakra bænda og hagsmunir þessa stofnlánasjóðs landbúnaðarins.

Ég tel að ég hafi svarað ræðu hv. þm. og ekki sé ástæða til að fjalla um hana frekar.

Hv. þm. Egill Jónsson, hv. 11. landsk., flutti hér ræðu í síðustu viku og ég held það sé ekki ástæða fyrir mig að fjalla um þá ræðu í löngu máli. Hann gerði grein fyrir andstöðu sinni við frv. (EgJ: Andstöðu Sjálfstfl.) Andstöðu Sjálfstfl. tekur nú hv. þm. fram í. En hann sagði að afstaða Sjálfstfl. til þessa máls hefði ekki breyst á síðustu tveimur árum. Hann taldi skattheimtu eða fóðurbætisgjald vera hættulegt fyrir landbúnaðinn og frv., sem hér er leitað staðfestingar á, skaðlegt, í því fælist þvingun á starf bóndans o. s. frv. Margt fleira sagði í þeirri ræðu sem ekki er ástæða til að rekja. Ég vil nú aðeins segja það, að hér er verið að leita staðfestingar Alþingis á því að hafa heimild til þess að leggja á kjarnfóðurgjald. Lagasetning er eitt, framkvæmd setur verið annað þegar um heimildarlög er að ræða. Ég tel að það sé mikil nauðsyn að hafa heimild til þess að leggja kjarnfóðurgjald á. Ég tel að það hafi sýnt sig að beiting kjarnfóðurgjalds hafi reynst áhrifarík, fljótvirk og tiltölulega greið leið til áhrifa á framleiðslumagn, a. m. k. framleiðslu mjólkur. Þetta tel ég að hafi sannast.

Ég skal ekkert um það segja, hver framvindan verður í framkvæmd. Hv. þm. hann vitnaði mjög til þess, að það hefði verið harður vetur, það væri enn þá kalt þó komnir væru vordagar og menn vissu ekki hvort kal yrði í túnum, og undir það tek ég. Ég skal ekkert um það segja hvernig um það fer. Hitt er víst, að enn þá njóta menn uppskeru sumarsins í fyrra, og ákvarðanir um framkvæmd og beitingu þessara heimilda, ef áfram verða í lögum, hljóta vitaskuld að velta m. a. á því, hver verður þróun framleiðslu, hvaða uppskera fæst af túnum bænda og hvaða aðrar ástæður ráða í þjóðfélaginu og fyrir landbúnaðinn. Þess vegna eru þessi lagaákvæði í heimildarformi og þeim er hægt að beita af sveigjanleika eftir því sem ástæður eru til, bæði framleiðslu- og markaðsástæður og eins veðurfarslegar eða náttúrufarslegar ástæður, er alveg nauðsynlegt að slíkt sé ekki alveg rígskorðað og fast í lögum. Ég teldi það hins vegar mikið slys ef hv. Alþingi vildi ekki fallast á að þessi heimild væri í lögunum.

Varðandi þann þáttinn í máli hv. 11 landsk., að engin breyting hefði orðið á þessari afstöðu Sjálfstfl. á síðustu tveimur árum, þá virðist, miðað við hans mál, að það hafi þurft miklu skemmri tíma en tvö ár til þess að breyting yrði á. Á þessu Alþingi er flutt á þskj. 111 till. til þál. um stefnumörkun í landbúnaði. Þar er hv. 11. landsk. fyrsti flm. Þegar kemur að útfærslu þessarar till. segir, með leyfi hæstv. forseta, eftir að rakin eru meginmarkmið till. sem ég ætla ekki að ræða hér:

„Gerðar verði markvissar ráðstafanir til að koma á jafnvægi í framleiðslu og sölu búvara. Samtök bænda fái víðtækar heimildir til að stjórna framleiðslu landbúnaðarvara í samræmi við þarfir markaðarins á hverjum tíma. Í þessu sambandi er lögð áhersla á:

a) Heimilt verið að leggja gjald á allt innflutt kjarnfóður, er að upphæð verði svipað og nemur útflutningsbótum á kjarnfóður hjá viðskiptalöndum okkar.

b) Á meðan það ástand varir í landbúnaðinum, að heimildir til útflutningsbóta nægja ekki til að verðbæta útfluttar búvörur, verði heimilt að leggja á sérstakt gjald á hámarksnotkun kjarnfóðurs, er miðist við framleiðslu og bústofn.“

Ég tel ekki ástæðu til þess að rekja fleira úr þessari þáltill., sem hv. 11. landsk. er fyrsti flm. að, til þess að sýna fram á að það er miklu styttri tími en tvö ár sem það hefur tekið að ná fram breytingu á afstöðu Sjálfstfl., sem hv. 11. landsk. kallar, í þessu máli. Ég held að það hafi tekið miklu skemmri tíma ef marka má þessi orð hans. Ég held þess vegna að réttara og sæmra væri fyrir hv. 11. landsk. að standa með þeirri heimild sem það lagafrv., sem hér liggur fyrir, ber með sér, þannig að greinin verði lögfest, og standa þar með við fyrri afstöðu sína sem skjalfest er á þessu tiltekna þskj.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um horfur í framleiðslumálum eða þróun framleiðslumála, hvorki hvað framleiðslumálin hafa þróast á liðnum tíma né hvaða horfur eru í þeim efnum. Það var af illri nauðsyn sem grípa varð til ráðstafana til þess að hafa áhrif á framleiðsluþróun. Það var auðvitað léttara verk að segja við bændur: Haldið áfram að framleiða, stækkið búin, framleiðið meira. — Þær aðstæður voru hins vegar ekki í markaðsmálum að þetta væri hægt. Það varð að taka á þessum málum af ábyrgð, það var ekki hægt að komast undan því. Þess vegna var farið í þessar ráðstafanir. Þess vegna voru ákvæðin lögfest við framleiðsluráðslögin 1979 og þess vegna voru sett brbl. 23. júní 1980. Víst var erfitt eða mikið kuldaár 1979, því skal ekki gleymt. En af þessum sökum hefur sá árangur orðið, að á síðasta ári stóð nærri í járnum að mjólkurframleiðsla og innanlandsneysla mjólkur og mjólkurvara fylgdist að. Þar munaði aðeins 1.2%. Og þar með tel ég að árangur hafi verið nægur orðinn.

Þess vegna vil ég segja það sem ég hef sagt í annan tíma, að þessu skeiði — samdráttarskeiði — á að vera lokið. Við þurfum að halda mjólkurframleiðslunni sem næst því horfi, sem innlendi markaðurinn hefur þörf fyrir, og búa þar kannske aðeins vel en vart. Og úr því að þessi samdráttur hefur verið nauðsynlegur verðum við að taka á okkur að halda framleiðslu sauðfjárafurða í svipuðu horfi og nú er og verið hefur, þannig að við flytjum eitthvað út til annarra landa og kostum til þess af almannafé að halda því verði uppi með þeim takmörkunum sem nú eru í lögum. Ég skal ekki fara út í þetta lengra. Það hefur hins vegar gerst að á fyrstu mánuðum þessa árs hefur orðið enn samdráttur í mjólkurframleiðslu. Það liggur þó ekkert fyrir um það, hvernig það framleiðslumagn muni verða þegar árið er liðið. Í síðasta mánuði, aprílmánuði, var mjólkurframleiðslan u. þ. b. 3% minni en í sama mánuði í fyrra. Og það er skoðun þeirra, sem best til þekkja og hér hafa verið send gögn um frá Framleiðsluráði landbúnaðarins, að það sé ekkert sem bendi til þess í framleiðslumálum mjólkur að skortur verði á þeim vörum á þessu ári. Það er reyndar svo, að kúastofninn var sem næst í sama horfi sem settur var á s. l. haust og haustið 1979.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta mál. Ég vil aðeins ítreka það, að ég tel mjög miklu skipta að mál þetta nái afgreiðslu og að þær heimildir, sem frv. gerir ráð fyrir, verði lögfestar.