12.05.1981
Efri deild: 96. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4243 í B-deild Alþingistíðinda. (4339)

56. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir ýmislegt af því, sem hæstv. ráðh. hefur hér sagt, og þakka honum fyrir að hann hefur varið verulegum tíma til þess að fjalla um fsp. mínar og svara þeim, þó að ég sé ekki ásáttur um allt sem hann sagði, það verður að gera athugasemdir við sumt.

Þar er þá fyrst til að taka, að í bréfi eða öllu heldur álitsgerð nefndar, sem fjallaði um afurða- og rekstrarlánin, í niðurlagi hennar, er orðalagið eitthvað á þann veg, að nefndin telji ekki ástæðu til að gera tillögur um breytt fyrirkomulag. Mig minnir að orðalagið sé á þann veg. Nefndin var auðvitað ekki spurð að því, hvort hún teldi ástæðu til að gera breytingar. Hún var beðin um að gera till. um breytingar af því að Alþingi var búið að fyrirskipa breytingar. Það kemur í raun og veru engum manni við hvaða ástæðu hún sér til einhvers, hún á að framkvæma. Hún átti að hjálpa ráðh. til að framkvæma vilja Alþingis og snýr sig gjörsamlega út úr því. Með náttúrlega fádæma orðalagi, að hún sjái ekki ástæðu til þess. Hún er beðin um að gera till. um breytingar og enginn biður hana að segja hvaða ástæðu hún sjái. Fyrirskipunin var ótvíræð frá Alþingi. Nefndin hefur þar að auki í hendi bréf Seðlabankans. Að vísu vitnar hún til þess, en hún átti auðvitað að benda á miklu fleiri leiðir til breytinga. Breytingin var fyrirskipun Alþingis og undan því verður ekki skotist að breyta þessu á þann veg að bændurnir fái peningana um leið og lán eru veitt. Orðalagið „um leið“ — það var hnitmiðað, það er kannske ekki sama daginn, en í útgerðinni t. d. er hálfur mánuður sem má dragast að reikna út og koma peningum til útgerðarinnar frá fiskvinnslufyrirtækjunum. Það gæti verið eitthvað svipað form. Það er alveg augljóst mál að það er ekki nokkurn skapaðan hlut meiri fyrirhöfn að senda útreikninga á innlagi bænda inn í banka og færa það þar inn í þeirra viðskiptareikninga heldur en það er hjá afurðasölufyrirtækinu að færa það inn í viðskiptareikning, nákvæmlega sama vinnan, nema hvað bankinn hefur greinilega hæfara fólk og betri tæki og getu: þess vegna gert þetta auðveldlegar.

Það er búið að vera með útúrsnúninga í þessu máli alla tíð af því að sterkir aðilar vilja halda þessum fjármunum hjá sér og ætla að reyna að kenna einhverjum tækniástæðum um, og þess vegna er allt rakaleysa sem fram kemur í þessu efni hvernig sem að er farið. Og það er ekki bara rakaleysa, heldur algjör fásinna að það sé eitthvað verra að ráða við tryggingar í þessu efni, að það séu ekki tryggingar fyrir afurðalánunum. Það er hvorki meira né minna en það, að ég held ég geti fullyrt og það sé samdóma álit margra lögfræðinga, sem hjálpuðu mér fyrir tveim, þremur árum að fara ofan í þessi mál, að bankarnir hafi ekki veð í einu einasta kílói af kjöti. Það er engin lagastoð fyrir því, að afurðasölufélögin geti tekið slík sameiginleg veð, og það geta engir nema bændur veðsett fé á fjalli sameiginlega. Það getur ekkert af þessum félögum.

Ef eitthvert afurðasölufyrirtækið fer á hausinn tapar bankinn fénu. Þar að auki er margyfirlýst að allar þessar afurðir séu í umboðssölu og það er farið með þær sem slíkar. Það er reiknað eftir á. Ég get náttúrlega ekki kallað það glæp vegna þess að menn gera þetta í fásinnu, en ef þeir gerðu þetta vísvitandi: að veðsetja eignir allt annarra manna sem engin lagastoð er náttúrlega til fyrir, þá væri þetta saknæmt. Ég held að þetta sé svona einfalt, það sé allt saman ólöglegt, sem gert er í dag og gert betur verið undanfarna áratugi, og geti ekki heldur helgast af hefð. En það væri algjörlega löglegt og fullkomlega eðlilegt að bændurnir t. d. gæfu afurðasölufélögunum skriflega heimild til þess að veðsetja sínar eignir, en þetta eru þeirra eignir, en ekki afurðasölufélaganna.

Um þetta er nú búið að rífast svo lengi og oft að við skulum ekki fara að gera stórmál úr því núna. En þá er það þetta, sem fram kemur í bréfi Árna Jónassonar og Stéttarsambandsins og hefur komið fram í útreikningum sem hæstv. ráðh. hefur látið gera varðandi það að greiða niður áburðinn t. d., að ég veit að það er rétt að þetta nýtist lakar, eins og það er orðað. En það er bara venjuleg skynsemi hvers manns að sjá að þetta nýtist lakar vegna reikningsaðferðanna, vegna þess að það er verið að falsa vísitöluna. Það sér hver einasti heilvita maður að auðvitað getur bóndinn framleitt vöruna ódýrar, ef hann fær vaxtalausa peninga eða peninga á mjög lágum vöxtum strax, heldur en ef hann þarf að bíða eftir þeim mánuðum eða misserum saman. Varan er ódýrari. Þess vegna er það auðvitað ekkert annað en einhver leiðrétting á grundvellinum, einhver leiðrétting á útreikningsaðferðum sem þarf til að koma til þess að hagur bæði bænda og neytenda verði betri. En það er svona með þessa kerfiskarla, að þeir eru kolfastir í einhverjum gömlum aðferðum og svo náttúrlega tilhneiging — ekki bara þessar ríkisstj., heldur allra ríkisstj. — að reyna að falsa vísitöluna með því að ráðast á einhvern lið sem er ódýrast að greiða niður, eins og hæstv. ráðh. sagði: sem „nýtist lakar“ eða nýtist betur. Þetta er auðvitað ekkert annað en vilji. „Vilji er allt sem þarf.“ En það er enginn vilji til að gera nokkurn skapaðan hlut í málinu.

Þá er það spurningin um framkvæmdaerfiðleika varðandi beinu greiðslurnar í niðurgreiðslu- og uppbótakerfinu. Ég sé ekki að það séu nokkrir framkvæmdaerfiðleikar þar í námunda við það sem er með kvótakerfinu. Allt það, sem hæstv. ráðh. nefndi um það, hverjir ættu að fá þetta, hvort allir ættu að fá jafna greiðslu o. s. frv., o. s. frv., hvort það ætti að taka tillit til vanhalda, slysa og óhappa og það allt saman, það er allt það sem verið er að gera núna með kvótakerfinu. En svo eru þar margfaldir aðrir erfiðleikar og flækjur og það býður heim svindli eins og hæstv. ráðh. raunar gat um.

En hitt er ekki rétt, sem hann sagði orðrétt, að það hefði enn ekki verið úr því skorið, á hvern hátt þetta yrði framkvæmt. Það er skorið úr því í reglugerðinni frá 1979 alveg nákvæmlega. Hæstv. þáv. landbrh., Steingrímur Hermannsson, skar úr þessu með eftirfarandi orðum sem ég las upp áðan. Ég er ekki að segja að niðurstaða hans sé nákvæmlega sú rétta. Það er sjálfsagt hægt að gera þetta einhvern veginn öðruvísi. En þar er úr því skorið. Og meðan það stendur í reglugerðinni á að framfylgja því. En þar segir, b-liðurinn, með leyfi forseta: „Að greiða með samþykki ríkisstj. hluta af niðurgreiðslum til framleiðenda í samræmi við framleiðslumagn að ákveðnu marki, en síðan stiglækkandi eftir því sem framleiðslan vex.“

Og síðan er nákvæmlega sagt hvernig eigi að gera það, skorið úr öllu þessu sem hæstv. ráðh. var að benda á sem annmarka og þyrfti að taka afstöðu til, en ekki væri búið að taka afstöðu til. Þar segir: „Full greiðsla skal ná til 400 ærgildisafurða“ — þar er skorið úr því — „eins og þær voru viðmiðunarárin, sbr, a-lið, samkv. landsmeðaltali, en greiðslan lækkar um 5% fyrir umframafurðamagn á hverju 100 ærgilda bili, þó aldrei meir en 25%“.

Það er skorið úr þessu öllu saman alveg nákvæmlega. Það getur ekkert farið á milli mála hvernig þetta á að framkvæma. Og síðan heldur áfram. „Hæsta skerðing kemur á framleiðslu þeirra framleiðenda er ekki búa á lögbýlum“ — það er skorið úr því líka, það þarf engar vangaveltur lengur um það — „þeirra framleiðenda er ekki búa á lögbýlum nema þeir hafi meiri hluta tekna sinna af búvöruframleiðslu.“ Það er skorið úr þessu líka, sem hæstv. ráðh. sagði áðan að hefði ekki verið skorið úr. Auðvitað er þetta ekki endanlegur úrskurður um aldur og ævi. En á meðan það er í reglugerðinni er búið að skera úr því.

Um greiðslur til félagsbúa, það er líka sagt hér hvernig á að ganga frá þeim: „Um greiðslur til félagsbúa fer samkvæmt 7. mgr. a-liðar og þessum ákvæðum, eftir því sem við á“ o. s. frv.

Steingrímur Hermannsson skar úr þessu öllu saman. Það getur vel verið að hæstv. núv. landbrh. sé ekki sammála um að þetta sé eðlilegasta og heppilegasta framkvæmdin. Þá á hann að breyta reglugerðarákvæðinu ef hann vill framkvæma þetta. Hann hefur til þess fullt vald. Málið er allt saman miklu einfaldara, ef menn vilja framkvæma það, þá er það allt saman einfaldara en í veðri er látið vaka.

Ég ætla ekki að orðlengja meira um þetta. Ég er hæstv. ráðh. mjög þakklátur fyrir það, að ég heyri að hann er að láta vinna í þessum málum, og ég treysti því, að bæði að því er afurða- og rekstrarlánin varðar og eins beinu greiðslurnar muni hann beita sér fyrir því, að lengri dráttur verði ekki á því, að farið verði inn á þær brautir sem Alþingi hefur falið framkvæmdavaldinu fyrir raunar tveim árum.

Að því er varðar 1% stofnlánadeildarframlag bænda, greiðslu bænda, þá, eins og ég sagði áðan, er ég að hugleiða að flytja um þetta frv. Ég geri ekki ráð fyrir að það fengi neina afgreiðslu á þessu þingi, og ég get tekið undir það með hæstv. ráðh., að það er eðlilegt að skoða þetta mál nokkru nánar. Ég læt því kannske nægja hér að varpa þessari hugmynd fram í trausti þess, að réttir aðilar hugleiði það, og það er þá tími til þess seinna að gera þessar breytingar.