11.11.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (434)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég er á móti því, að hæstv. ríkisstj. fái frest á umr. um svona mál þangað til ráðherrar koma allir heim, því að með því móti er að sjálfsögðu hægt að draga umr. óendanlega. Eins og bent hefur verið á hér, þá rekur menn a.m.k. ekki minni til þess að þeir hafi verið heima allir í einu nú um nokkuð langa hríð, og það er ágæt afsökun út af fyrir sig til að draga svona umr. á langinn. En ég vil aðeins vekja athygli manna á því, að þetta held ég að sé í fyrsta skipti, sem hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Verkamannasambands Íslands, óskar sérstaklega eftir því að fá að þegja þegar um er að ræða boðaða árás af hálfu ríkisstj., a.m.k. vilja til árásar á launakjör sem hv. þm. hefur nýlega gengið frá. Ég veit ekki til þess, hæstv. forseti, að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson hafi sérstaklega óskað eftir því að fá að þegja um slík mál fyrr en nú.