12.05.1981
Neðri deild: 91. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4250 í B-deild Alþingistíðinda. (4348)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það er mjög óvenjulegt að þm. sjái sig tilneydda að standa upp utan dagskrár til þess að gera að umræðuefni og mótmæla ummælum ráðh. um störf þn. í annarri deild. En tilefni þess, að ég kveð mér hljóðs hér, eru ummæli sem hæstv. fjmrh. viðhafði í Ed. í síðustu viku, nánar tiltekið 7. maí, í sambandi við 1. umr. frv. sem var afgreitt úr þessari hv. deild 4. maí. Ég ætla ekki að ræða efnislega þetta frv., heldur aðeins hvað hæstv. ráðh. lét frá sér fara varðandi málsmeðferðina. Hann segir að fjmrn. hafi sent umsögn um þetta mál til n. í vetur og mælt eindregið gegn samþykkt frv. og öll afskipti fjmrn. væru á þann veg að mælt væri gegn því að frv. næði fram að ganga. Hann telur að n. hafi ekki skýrt rétt frá þessum málum, en í nál., sem dagsett er 14. apríl og undirritað er af öllum nm., segir:

„Nefndin hefur rætt frv. þetta á nokkrum fundum sínum og haft samráð við fulltrúa frá fjmrn. Nefndin hefur orðið sammála um að leggja til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu sem prentuð er á sérstöku þskj.

Það er rétt, að fulltrúar úr fjmrn. komu til viðræðna við n. út af þessu máli eins og mörgum öðrum, og ég hygg að það komi sjaldnar fyrir að fulltrúar úr fjmrn. mæli með frv., sem rýrir tekjur ríkissjóðs. En þetta frv. var á þann veg að við 1. mgr. 6. gr. laga um söluskatt bætist svohljóðandi: „Liður 17. Vogir og rafeindatæki til mælinga og skoðana í fiskiðnaði.“ M. ö. o. að niður væri felldur söluskattur af þessum tækjum. Um þessi atriði var fjh.- og viðskn. ekki sammála. En form. nefndarinnar óskaði eftir því við fulltrúa frá fjmrn. að þeir stilltu upp fyrir nefndina brtt. þar sem þetta væri í heimildarformi, og orðalag þeirrar brtt. var tekið óbreytt upp eins og fulltrúar fjmrn. gerðu að beiðni form. nefndarinnar, svohljóðandi: „Enn fremur er heimilt að endurgreiða söluskatt af vogum og rafeindabúnaði í flokkunarvélar, enda séu tæki þessi eingöngu ætluð til notkunar í fiskiðnaði.“

Þannig varð samkomulag um að afgreiða þetta mál út úr fjh.- og viðskn., nál gefið út og undir það skrifuðu allir nm., sjö að tölu.

Hæstv. fjmrh. var viðstaddur afgreiðslu málsins hér við 3. umr. og ég bar það á hann, eftir að ég sá þessa ræðu, að hann hefði greitt atkv. með frv. Hann neitaði því, en hann neitaði því ekki að hann hefði verið inni í deildinni, en hafði á orði að þetta frv. hefði verið afgreitt með einhverjum ógnarhraða þannig að hann, hæstv. fjmrh., hefði alls ekki áttað sig á afgreiðslu þessa frv. og ekki fylgst með og ekki áttað sig fyrr en frv. hafði verið afgreitt út úr deildinni. Og hann segir orðrétt — með leyfi hæstv. forseta — í ræðu Ed. eftir að hann gagnrýnir það og neitar að fjmrn. hafi verið annað en andvígt frv., — þá segir hann:

„Þetta tel ég vera ótvíræða blekkingu eða fölsun og get ekki látið hjá líða að mótmæla því, að þannig skuli að málum staðið. Síðan rann þetta mál svo snögglega í gegn að t. d. vissi ég ekki fyrr en málið hafði verið afgreitt frá Nd.

Nú skulum við líta á gang málsins. Þessu frv. er útbýtt 27. nóv. á s. l. hausti, tekið til umr. og vísað 3. des. til 2. umr. og fjh.- og viðskn. Og hraðinn á afgreiðslu málsins í fjh.- og viðskn. er ekki meiri en það, að 14. apríl er nál. undirritað og daginn áður er frv. afgreitt úr n. Síðan kemur það til umræðu hér 29. apríl til 2. umr. og er þá vísað shlj. til 3, umr. Og hraðinn á milli 2. og 3. umr. er ekki meiri en sá, að það er tekið til 3. umr. 4. maí. Þetta er gangur málsins, og ef þetta er talin hröð afgreiðsla í Alþingi, hvað mega menn þá segja um það sem er að gerast nú þessa síðustu daga?

Ég tel að þetta frv. hafi fengið fullkomlega eðlilega afgreiðslu. Okkur getur greint á um efni frv., en ég vil aðeins minna hæstv. ráðh. á það að „að hafa samráð“ þýðir ekki að viðkomandi aðilar séu sammála. Í Ólafslögum segir að það eigi að hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins. Það þýðir ekki að ríkisstj. eigi alls ekki eða þingmeirihluti að gera neitt nema það sem aðilar vinnumarkaðarins samþykkja. Þannig hef ég til þessa skilið orðið samráð.

Í bréfi ASÍ frá 17. febr. varðandi brbl., sem gefin voru út á gamlársdag, segir: „Stjórnvöld hafa nú ákveðið,“ með lögum að skerða verðbætur hinn 1. mars n. k. um 7%. Með því er gengið þvert á mikilvæg samningsákvæði, sem eitt sér er fordæmanlegt.“

Þetta gerist þrátt fyrir það að í Ólafslögum eða lögum um efnahagsmál eigi að hafa samráð. Þannig hef ég skilið orðið samráð og ég held nefndarmenn.

Mér finnst það í sannleika ákaflega undarlegt og hart gagnvart okkur þm. í nefndum — og það í nefnd sem á jafnannríkt og fjh.- og viðskn. — að sjálfur hæstv. fjmrh., sem á að hafa langmest samskipti við nefndina skuli brigsla okkur um það, nm., að við séum að falsa nál. Þó að ég hafi að beiðni form. n. og með samþykki annarra nm. verið frsm. þessa máls eru þessi ummæli alveg jafnt til annarra nm.

Ég vildi ekki láta hjá líða að mótmæla þessum ummælum hæstv. ráðh. í Ed. Það hefði ég gert ef hann hefði gert það hér í þessari deild við afgreiðslu málsins, en þetta vildi ég að kæmi fram. Ég tel hér um ákaflega undarleg ummæli og leiðinleg vinnubrögð frá hendi hæstv. ráðh. að ræða gagnvart nm. í fjh.- og viðskn.