12.05.1981
Neðri deild: 91. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4253 í B-deild Alþingistíðinda. (4350)

Umræður utan dagskrár

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Það er rétt, að þetta mál var flutt fyrir jólahlé þingmanna, og ég get sagt frá því, að meiri hl. nm. hefur krafist þess á mörgum nefndarfundum í allan vetur að þetta mál hlyti afgreiðslu. Málið var sent til umsagnar fjmrn. og þar kemur fram að það telur öll tormerki á því, að þetta mál nái fram að ganga, og í lok þess bréfs, sem er dags. 24. febr. þannig að það má segja að málið hafi legið lengi í nefnd, stendur: „Með vísan til þess, sem að framan segir, getur rn. ekki mælt með að umrætt frv. nái fram að ganga.“ Og fram kemur að tekjutap ríkissjóðs samkv. þessu lagaboði yrði væntanlega ekki undir 3 millj. nýkr. á þessu ári, eins og frv. lá fyrir, m. a. með tilliti til þess, að ekki þótti fært að skilja í milli í hvað þessi tæki færu.

Síðan eigum við mörg viðtöl við fulltrúa fjmrn. Ég hef ekki hjá mér hversu oft við köllum þá á fundi. Þeir breyttu ekki með neinum hætti um afstöðu. En okkur þótt samt nauðsynlegt að taka tillit til þess, sem fram kom í umsögn fjmrn., með því að breyta orðalagi frv. þannig:

„Enn fremur er heimilt að endurgreiða söluskatt af vogum og rafeindabúnaði í flokkunarvélar, enda séu tæki þessi eingöngu ætluð til notkunar í fiskiðnaðinum.“

Það er alveg ljóst að tekjutap ríkissjóðs vegna þessa verður ekkert sambærilegt við það sem stendur í umsögn fjmrn.

Ég vil taka það fram, að ég tel það með öllu rétt, sem fram kemur í nál. að við höfum haft samráð við fulltrúa fjmrn. Það má vissulega deila um í hversu miklum mæli skuli gera grein fyrir umræðum, umsögnum og öðru sem fram kemur í nefndum. Það er skoðun út af fyrir sig, að allt slíkt skuli koma fram í umr. á Alþingi með sem nákvæmustum hætti. En það er ekki sá þingsiður sem ég hef vanist. Ég hef vanist því, að slíkar umsagnir og viðræður í nefndum séu sérstaklega til þess fallnar að nm. geti myndað sér skoðanir áður en þeir mæla á móti eða samþykkja mál og það sé undir þeirra mati komið, hvað af þessum rökstuðningi komi fram í nál. og umræðum í þinginu, en aðalatriðið sé að nefndarstörfin gangi þann veg að menn geti gert sér sem besta grein fyrir málinu.

Ég tel mjög óheppilegt að það sé verið að væna menn um falsanir þegar svona er unnið. Ég er helst á því, að það mætti þá halda fram að það væru bókstaflega falsanir hér í öllum málum ef slíkan skilning á að leggja í vinnubrögð nefndanna. Ég skal taka það á mig, að ég hef beðið um frest til að afgreiða þetta mál skipti eftir skipti í allan vetur og legið undir ásökunum nm. um að ég væri að tefja framgang þessa máls, sem ég tel mig þó ekki hafa verið að gera, heldur vildi ég gera mér sem besta grein fyrir málinu. Og með þeim breytingum, sem komnar voru á orðalag frv., þar sem sú mikla breyting er gerð, að hér er um heimild að ræða, en ekki skyldu, og sú takmörkun, að hér sé um að ræða tæki, sem eingöngu eru notuð í fiskiðnaði, þótti mér ekki mögulegt annað en að standa að samþykkt málsins. Og ég vil vísa því alveg á bug, að fjh.- og viðskn. hafi verið að reyna að fela einhverja afstöðu fjmrn. — ég vil helst ekki nota orðið fölsun — en koma á framfæri villandi upplýsingum varðandi þetta mál.