12.05.1981
Neðri deild: 91. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4255 í B-deild Alþingistíðinda. (4352)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það getur varla verið ástæða til að dvelja lengi við þetta mál sem ekki getur talist af stærra taginu, þó að ég sé hins vegar þakklátur hv. þm. fyrir að vekja athygli á þessu máli út af fyrir sig. Það er þakkarvert. Ég tel það hins vegar ákaflega villandi þegar tveir hv. þm. reyna að gera það að kjarna þessa máls hvort nál. eigi að vera stutt eða löng, ítarlega eða einföld. Málið snýst alls ekkert um það. Menn reyna hér að gera það að kjarna þessa máls og aðalumræðuefni, hvort eigi að segja frá öllu því, sem fram kemur í nefnd, eða hvort eigi að greina frá því nákvæmlega hverjir hafi lýst andstöðu sinni og hverjir ekki. Það er alls ekki það sem málið snýst um. Mér er vel kunnugt um að nál. eru oft og tíðum mjög stutt og einföld og ekkert við því að segja. En það sem ég hef hér gert að umtalsefni og gerði að umtalsefni í Ed., er þegar gefið er í skyn með mjög ísmeygilegum hætti að ákveðinn aðili sé samþykkur máli sem hann er alls ekki samþykkur. Ég tel að ef á annað borð er verið að segja að samráð hafi verið haft við tiltekinn aðila, þá eigi að láta uppi hver var afstaða hans, en ekki setja punkt þar á eftir. Það er það sem gerir málið mjög ísmeygilegt og upplýsingarnar villandi, að ekki sé sagt beinlínis blekkjandi, að þess er látið sérstaklega getið, að samráð hafi verið haft við tiltekinn aðila— og punktur, basta, ekkert sagt meira um afstöðu viðkomandi aðila. Þá er að sjálfsögðu betra að nefna ekki þann aðila á nafn.

Þetta er kjarni málsins. Það er spurningin um það, hvort menn eru að villa öðrum sýn með því að taka þannig til orða að menn dragi rangar ályktanir, en ekki um hitt, hversu ítarlegar upplýsingar á að gefa í nál. Það verður auðvitað viðkomandi nefnd að ákveða sjálf og getur enginn gagnrýnt hana þó að nál. sé ekki nema þrjú orð.

Herra forseti. Ég sé að öðru leyti ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál, en vek bara athygli á því, að það var eðli hinna villandi upplýsinga í nál. sem ég gagnrýndi, en ekki hitt, hvort nál. væri ítarlegt.