12.05.1981
Neðri deild: 91. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4256 í B-deild Alþingistíðinda. (4353)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það hefur ekki verið auðvelt verk sem þeir hafa þurft að vinna, formenn fjh.- og viðskn. í báðum deildum Alþingis í vetur, því að reglan hefur verið sú, að þau mál, sem frá hæstv. ríkisstj. eiga að koma lögum samkv., og þau mál, sem hæstv. ríkisstj. hefur kosið að leggja fram, hafa yfirleitt ekki komið til þessara nefnda fyrr en á allra síðustu augnablikum, jafnvel eftir að möguleiki hefur verið á að vinna að þeim með skaplegum hætti. Alveg laust við það að formenn beggja þessara nefnda í Ed. og í Nd. séu andstæðingar mínir í stjórnmálum, annar framsóknarmaður og hinn Alþýðubandalagsmaður, þá vil ég taka fram að þessir þm. báðir hafa lagt sig fram um að reyna að greiða eins fyrir hæstv. ríkisstj. og þá ekki síst hæstv. fjmrh., sem yfirleitt hefur flutt þessi mál sem hafa aldrei komist til Alþingis fyrr en á elleftu stundu eða jafnvel síðar, og þeir frekast hafa getað. Jafnframt hafa þessir nefndarformenn báðir reynt, eins og þeir hafa mögulega getað, að sinna öllum erindum frá öðrum þm. í nefndunum, jafnvel þó svo að hæstv. ríkisstj. og þá ekki síst hæstv. fjmrh. hafi iðulega gert þeim erfitt fyrir um slík viðfangsefni vegna þess hve seint og illa verkin hafa verið af hendi leyst af þeirra hálfu.

Ég vil einnig taka það fram, að allt okkar samstarf við báða þessa nefndarformenn hefur verið með miklum ágætum. Frv. það, sem hér er um að ræða, kom til fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar nokkru fyrir jól, er flutt af varaþingm. sem þá sat á Alþingi. Hvað eftir annað hefur málið verið tekið til umr. á fundum fjh.- og viðskn., og formaður n., hv. þm. Halldór Ásgrímsson, hefur gert sér sérstakt far um að gefa fjmrn. og hæstv. fjmrh. ekki eitt, ekki tvö, heldur fjölmörg tækifæri til þess að fjalla um málið og gefa um það umsögn. Það er hins vegar alveg nýtt ef það er nú allt í einu orðin skoðun hæstv. fjmrh. að það að hafa samráð við einhvern aðila þýði hið sama og að sá aðili hafi lýst yfir samþykki sínu við viðkomandi aðgerð.

Ég veit ekki betur en hæstv. fjmrh. og aðrir í ríkisstj. eigi lögum samkv. að hafa samráð við ASÍ og aðila vinnumarkaðarins um ýmsar aðgerðir á sviði efnahagsog kjaramála. Yfirleitt hefur hæstv. ríkisstj. og hæstv. fjmrh. ekki sinnt þessari lagaskyldu sinni. Stöku sinnum hefur það þó borið við að hæstv. ríkisstj. og hæstv. fjmrh. hafa haft málamyndasamráð við aðila vinnumarkaðarins um mát sem þeir hafa lagt fram hér á hinu háa Alþingi. En það hefur ekki verið skoðun hæstv. fjmrh. fyrr en þá nú, að það að hafa slíkt samráð þýði að samráðsaðilinn eigi að vera samþykkur niðurstöðunni. (Fjmrh.: Það hefur enginn sagt það.) Auðvitað vita allir að fjmrn. hefur ávallt og undir öllum kringumstæðum verið andvígt því, að tilhliðranir yrðu gerðar á skattalögum sem minnka tekjumöguleika ríkissjóðs, þó um óverulegar fjárhæðir sé að ræða eins og í þessu sambandi. Það kemur þm. ekkert á óvart. Hins vegar kemur það mér nokkuð á óvart þegar hæstv. fjmrh. finnst það best þjóna hlutverki sínu nú á síðustu þingdögum, þegar þm. í fjh.- og viðskn. beggja deilda, að formönnum meðtöldum, leggja sig fram um að geta afgreitt þau mál, sem hafa ekki komið frá hæstv. ráðh. fyrr en löngu eftir tilsettan skilatíma, svo hann standi ekki uppi næstum því klæðalaus í embætti sínu að þinginu loknu, þegar þm. og formenn n. leggja sig fram um að reyna að fá afgreidd fyrir hann mál á þessum síðustu dögum þannig að menn þurfa að halda tvo, þrjá og upp í fjóra fundi á dag til þess að geta sinnt erindum hæstv. fjmrh., — að þá skuli honum þykja það líklegast til ávinnings hér í þinginu að ráðast með ómaklegum stóryrðum að þingnefndum sem eru allar af vilja gerðar til að vinna sín störf rétt og vel, ekki aðeins að okkur stjórnarandstæðingum í þessum þingnefndum, heldur líka að stuðningsmönnum og flokksbræðrum sínum sem eiga sæti í þessari nefnd og stóðu að gerð nál. Þetta sýnir aðeins þann hroka og það yfirlæti sem komið er í nokkra af hinum nýju forustumönnum Alþb.