12.05.1981
Neðri deild: 91. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4257 í B-deild Alþingistíðinda. (4357)

50. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Frsm. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Tveir hv. þm. í deildinni hafa lagt fram það frv. sem hér er á dagskrá. Það er í því formi að lagt er til að breytt verði lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Efni málsins er í fáum orðum það, að hafist verði handa um að fram fari tilraunir með klak og eldi þorsks og annarra nytjafiska með því að ala upp þorskseiði í stórum stíl og sleppa þeim síðan með það í huga að aðstoða náttúruna við að stækka þorskstofninn. Þetta er býsna mikið mál og var hér við 1. umr. rætt í löngu og ítarlegu máli af flm. Mér finnst því ekki ástæða til að fara efnislega mikið út í þetta mál, heldur aðeins að fjalla um afgreiðslu n. á því.

Þetta frv. hefur verið óvenjulengi til meðferðar í n. af ýmsum ástæðum, og ýmsir gætu látið sér detta í hug að n. hafi lagst á þetta frv. og ekki verið að flýta sér við afgreiðslu þess. En sú er ekki raunin. Ýmislegt hefur tafið afgreiðsluna og sumar umsagnir hafa komið býsna seint. En það hefur verið rætt ítarlega á nokkrum fundum n. og hún hefur leitað umsagna um málið og fengið auk þess á sinn fund forstjóra Hafrannsóknastofnunarinnar.

Það er skemmst frá því að segja, að í umsögnum aðila er það þannig að menn taka heldur jákvætt undir þetta mál, það er, eins og ég sagði áðan, býsna stórt, en eru ekki samþykkir forminu. Hafrannsóknastofnunin leggst gegn því að verið sé að breyta lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, ósköp einfaldlega á þeim forsendum að í þeim lögum eru til þegar allar heimildir til að gera þetta. Þó að n. hafi ekki fallist á að samþykkja frv. í þessum búningi er það ekki vegna þess að n. vilji slá á móti þessu máli eða vísa því frá sér. Auk þess kom það fram hjá hafrannsóknastofnunarmönnum, að þeir telja óeðlilegt að það sé sett í lög hversu gömul seiði eigi að vera þegar þau eru látin fara til sjávar. Það hlýtur að fara eftir einhverju annars konar mati heldur en bara aldri. Það er sjálfsagt vísindalegt mát sem ég treysti mér varla til að fjalla um.

Sjútvn. var sammála um að þetta mál fengi frá okkur jákvæða umsögn. Álit n. kemur fram á þskj. 781 sem ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Sjútvn. Nd. hefur rætt frv. ítrekað á fundum sínum og fengið á sinn fund forstjóra Hafrannsóknastofnunar, Jón Jónsson, og tvær umsagnir.

Það er sameiginleg skoðun nm. að hér sé hreyft athyglisverðu máli sem ekki er vansalaust fyrir fiskveiðiþjóð eins og Íslendinga að láta afskiptalaust með öllu.

Nm. taka undir þá skoðun Hafrannsóknastofnunar, að ekki sé þörf á að breyta 17. gr. laga um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, heldur beri, eins og raunar kemur skýrt fram í hugmyndum flm., að auka rannsóknir á þessu sviði en til þess vanti fjármagn. Sjútvn. Nd. telur rétt og skylt að láta safna öllum tiltækum gögnum sem finnast um ræktun fisks í sjó.

Í síðari umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar mælir stofnunin með að Hafrannsóknastofnunin fái fjárveitingu á næsta ári til þess að lausráða sérfræðing til þess að athuga gaumgæfilega allt það sem gert hefur verið á þessu sviði austan hafs og vestan, gera úttekt á þekkingu okkar varðandi fiskeldi í sjó við Ísland og meta hvort hægt sé að færa sér í nyt þá reynslu og þekkingu sem aðrar þjóðir búa yfir í þessum efnum.

Sjútvn. leggur til að þessu sinni að þetta spor verði stigið nú. Nefndin leggur því til að frv. verði vísað til ríkisstj. í trausti þess, að hún beiti sér fyrir fjárveitingu til þess að þessu markmiði verði náð.

Páll Pétursson, Halldór Ásgrímsson og Karvel Pálmason, voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.“

Undir þetta nál. skrifa allir hinir nm.

Herra forseti. Þannig stóð á á síðustu fundum sjútvn., að miklar annir voru hér í hv. Alþingi og erfitt reyndist að ná saman nefndarfundum svo að málið tafðist nokkuð þess vegna. En ég vil geta þess, að þó að hv. þm. Karvel Pálmason hafi þá verið fjarstaddur hefur hann setið alla aðra fundi n. í vetur þannig að þarna stendur sérstaklega á að hann skuli ekki vera viðstaddur.

Þeir nm. aðrir, hv. þm. Páll og Halldór, sem ekki áttu þess kost að koma á þennan fund, þekktu málið einnig og þó að það hafi nú verið afgreitt án þeirra undirskrifta veit ég að þeir voru hlynntir þessari afgreiðslu.

Herra forseti. Aðeins að lokum þetta:

Það hefur lengi verið þannig að þn. hafa notað þá aðferð til að vísa frá sér málum að vísa þeim til ríkisstj. En að þessu sinni er ekki um það að ræða. Ástæðan til þess, að það er gert, er sú, að ekki var í rauninni fallist á form frv., en jákvætt tekið undir efni þess. Og í umsögnum Hafrannsóknastofnunar, eins og ég gat um áðan, er talið ráðlegt að fá vel menntaðan sérfræðing til þess að sinna þessu verkefni í eitt ár fyrst um sinn. Þess vegna er þessi málsmeðferð viðhöfð: að vísa frv. til ríkisstj., vegna þess að til þess að geta ráðið þennan mann þarf auðvitað peninga. Vona ég eins og aðrir nm.hæstv. ríkisstj. taki vinsamlega í þetta mál og beiti sér fyrir því að fjármagns verði aflað í þessu skyni.