11.11.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í B-deild Alþingistíðinda. (436)

Umræður utan dagskrár

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það ætlar að ganga erfiðlega að fá lokið umr. um þessa fsp. mína. Ég verð að lýsa undrun á því, að nú skuli umr. vera frestað. Hæstv. utanrrh. fór fram á það og sagði að best væri að hafa allt frá fyrstu hendi. Ég minni á það, að hæstv. núv. utanrrh. var forsrh. í þeirri ríkisstj. sem fékk þessi lög um breytingu á verðgildi gjaldmiðilsins samþykkt. Og ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann telji að nú sé fullnægt þeim forsendum sem var byggt á, þegar frv. var lagt fram og lögin samþykkt á sínum tíma. Það hefur komið hér fram, að erfitt sé að breyta ákvörðuninni um gjaldmiðilsbreytinguna nú um áramótin vegna þess að það sé ekki hægt vegna seðlaútgáfu Seðlabankans. Ég leyfi mér að efast um að þetta sé rétt, og ég tel að svo mikið sé í húfi í þessu máli, að það þurfi að athuga miklu betur, hvort ekki eigi þrátt fyrir einhverja framkvæmdaerfiðleika að fresta þessari aðgerð. Vegna þess að málið er svo aðkallandi er óhæfa að fresta umr. nú.