13.05.1981
Efri deild: 97. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4273 í B-deild Alþingistíðinda. (4386)

297. mál, tilraunastöð Búnaðarsambands Suðurlands

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta hefur hlotið afgreiðslu hv. Nd. og var samþykkt þaðan óbreytt eins og það var lagt fram. Frv. fjallar um Tilraunastöð Búnaðarsambands Suðurlands og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins að Stóra-Ármóti í Flóa. Það felur í sér sem meginstefnu að landbrh. er heimilt að semja um rekstur á Tilraunastöð Búnaðarsambands Suðurlands og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins á þessum stað.

Á undanförnum áratugum hefur verið rekin tilraunastöð að Laugardælum í Flóa af Búnaðarsambandi Suðurlands. Þessi stöð hefur verið rekin af miklum myndarskap og hefur sinnt fjölþættum verkefnum sem rakin eru í grg. þessa frv. Laugardælir eru í eigu Kaupfélags Árnesinga og er leigusamningur þar útrunninn að fáum árum liðnum. Það getur auðvitað vel verið að unnt sé að endurnýja þann samning, en þó virðist að ekki sé framtíðarsvæði fyrir Tilraunastöð Búnaðarsambands Suðurlands á þessum stað vegna þess að Laugardælir eru að falla inn í þétta byggð Selfosskaupstaðar. Það er hins vegar svo, að hvað eftir annað hafa verið gerðar tilraunir til þess af hálfu Búnaðarsambandsins að fá þessa jörð keypta, en það hefur ekki tekist.

Á síðasta ári var jörðin Stóra-Ármót í, Flóa, sem er nágrannajörð Laugardæla, gefin Búnaðarsambandinu og stendur til að Búnaðarsambandið flytji starfsemi sína frá Laugardælum að Stóra-Ármóti. Eignir Búnaðarsambandsins í Laugardælum eru verulegar. Það mun hvíla að sjálfsögðu sú skylda á eiganda Laugardæla að kaupa þessar byggingar og þessi mannvirki þegar tilraunstöðin verður flutt, og þeir fjármunir, sem þaðan fást, munu renna til þess að koma upp nýjum byggingum og nýrri aðstöðu fyrir tilraunastöðina að Stóra-Ármóti.

Það er greint frá því í þessu frv., að Rannsóknastofnun landbúnaðarins muni taka þátt í rekstri þessarar tilraunastöðvar fyrir hönd ríkisins að því marki að þar verði ráðnir tveir starfsmenn, sérfræðingur og tilraunamaður, sem verði launaðir af Rannsóknastofnun landbúnaðarins og þar með af ríkissjóði. Engin önnur þátttaka ríkisins er ákveðin í rekstri þessarar tilraunstöðvar. Að öðru leyti er svo kveðið á, að framlög ríkisins til fjárfestinga og rekstrar umfram það, sem hér hefur verið greint, verði ákveðin á fjárlögum hverju sinni.

Á undanförnum árum hefur Tilraunastöð Búnaðarsambands Suðurlands í Laugardælum fengið lítils háttar styrk á fjárlögum og má vænta þess að svo verði áfram. En ég tel að það sé mjög heppilegt að styðja að því, að þessi tilfærsla geti orðið og átt sér stað, og styðja að því, að Búnaðarsamband Suðurlands geti flutt tilraunastarfsemi sína frá Laugardælum yfir að Stóra-Ármóti. Það er einnig heppilegt form að minni hyggju að þátttaka ríkisins í slíkum tilraunastöðvum beinist í það horf að heimamenn hafi þar verulega ábyrgð á rekstri og fjárfestingu og njóti til þess stuðnings hins opinbera. Að því stefnir þetta frv. og hygg ég að það sé stefna sem væri athugandi að færa út yfir tilraunastarfsemi víðar um landið enda þótt gera verði sér grein fyrir því, að Búnaðarsamband Suðurlands er mun öflugra og hefur þannig meiri fjárhagslega möguleika en önnur búnaðarsambönd á landinu.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að fjalla um þetta frv. í löngu máli. Það hefur verið, eins og áður sagði, afgreitt óbreytt og samhljóða af hv. Nd. og ég vænti þess að hv. Ed. sjái sér einnig fært að afgreiða þetta mál nú fyrir þinglok.

Að svo mæltu leyfi ég mér að óska eftir því, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.