13.05.1981
Efri deild: 97. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4274 í B-deild Alþingistíðinda. (4388)

231. mál, eftirlaun til aldraðra

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Heilbr.- og trn. þessarar hv. deildar hefur fjallað um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 97 1979, um eftirlaun til aldraðra. Nefndin mælir með samþykkt frv. ásamt þeim brtt. sem hún flytur á sérstöku þskj. Hins vegar skal það tekið fram, að það var ágreiningur í n. vegna fjármögnunar þessa kostnaðar sem samþykkt frv. hefur í för með sér. Því varð niðurstaðan að einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. um málið. Þeir hv. alþm., sem hafa fyrirvara, eru hv. þm. Karl Steinar Guðnason og hv. þm. Salome Þorkelsdóttir. Þessir fyrirvarar eru fyrst og fremst, eins og ég hef getið hér og stendur í nál., um það, með hvaða hætti þessi útgjaldaauki verður fjármagnaður.

Ég vil þá leyfa mér að gera grein fyrir brtt. sem öll n. flytur á þskj. 755. Að mínum dómi skýra þessar brtt. sig að nokkru leyti sjálfar. Ég ætla að fara yfir þær. Fyrsta brtt. hljóðar svo:

„Á undan 1. gr. komi ný grein, sem verði 1. gr. og orðist svo:

Aftan við 11. gr. laganna bætast þrjár nýjar mgr., er orðist svo:

Nú telur umsjónarnefnd eftirlauna, að störf, sem umsækjandi um ellilífeyri eða látinn maki umsækjanda um makalífeyri hefur stundað á tímabilinu 1970–1980, hafi verið tryggingarskyld samkv. 5. gr. laganna, en iðgjöld hafa þó ekki verið greidd af þeim til lífeyrissjóðs, og skal þá reikna hlutaðeigandi rétt samkvæmt þessum kafla er svarar til 60% þeirra tekna sem um ræðir, þó aldrei meira en 0.6 stig hvert einstakt ár.

Ákvæði 5. mgr. skulu gilda á hliðstæðan hátt, ef réttindi samkv. I. kafla hafa glatast vegna endurgreiðslu iðgjalda, sem átt hefur sér stað á tímabilinu frá 19. maí 1969 til 22. júní 1977. Telji hlutaðeigandi lífeyrissjóður, að endurgreiðslan hafi komið í stað bótagreiðslu, og sé hann reiðubúinn að taka á sig skuldbindingar í samræmi við iðgjaldagreiðslurnar, er umsjónarnefnd þó heimilt að úrskurða lífeyri samkv. I. kafla í samræmi við þær.

Frá og með 1. jan. 1981 verði réttindi samkv. þessum kafla einungis áunnin með iðgjaldagreiðslum til lífeyrissjóða.“

Brtt. 2: „Á undan 1 . gr. komi ný grein, sem verði 2. gr. og orðist svo:

Á eftir 1. mgr. 16. gr. laganna komi ný mgr., svohljóðandi:

Nú upplýsir lífeyrissjóður, sem afgreiðir umsókn samkv. I. kafla, að réttindatími sé á sviði fleiri en eins lífeyrissjóðs, og getur þá umsjónarnefnd að beiðni sjóðsins úrskurðað um skiptingu greiðslna milli hlutaðeigandi sjóða, en gefa skal hún hlutaðeigandi sjóðum kost á að láta í ljós álit sitt áður en úrskurður er kveðinn upp.“

Brtt. 3: „Á undan 1. gr. komi ný grein, sem verði 3. gr. og orðist svo:

„1. tölul. 1. mgr. 25. gr. laganna falli niður.“

Brtt. 4: „Í stað 2. gr. komi ný grein, sem verði 5. gr. og orðist svo:

Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 2. gr. um réttindi vegna tímabilsins 1970–1980 skulu gilda frá 1. jan. 1980 að telja.“

Áður en lengra er haldið í þessu efni vil ég taka fram að ég mun ekki taka langan tíma af fundinum í þetta mál. Ég vil vekja athygli á því, að samkvæmt útskýringum með frv. er getið um útgjöld árið 1981 samkvæmt I. kafla laga um eftirlaun til aldraðra og þá útgjaldaaukningu sem samþykkt frv. mun hafa í för með sér. Að gefnu tilefni vil ég taka það fram, að útgjaldaaukningin vegna þessarar þriggja stiga hækkunar er í stað 820 millj., eins og stendur þarna í frv., 1 milljarður og 83 millj. gkr. Ég vildi að þetta kæmi fram.

Vegna brtt. skal það tekið fram að þær eru gerðar í nánu samráði við umsjónarnefnd eftirlauna og í samráði við heilbr.- og trmrn. og eins og tekið var fram áðan og hefur komið fram er einhugur um þær. Umsjónarnefnd eftirlauna hefur kynnt þessar brtt. endurskoðunarnefnd lífeyriskerfisins og átta manna lífeyrisnefnd Alþýðusambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna.

Í 1. lið brtt. er kveðið svo á að menn geti öðlast nokkurn rétt samkvæmt lögunum fyrir tímabilið 1970–1980, jafnvel þótt ljóst sé að þeim hefur borið að greiða iðgjöld og áunnið sér með því rétt samkvæmt I. kafla laganna. Reynslan hefur sýnt að skilin á milli I. og II. kafla laganna geta verið afar óglögg þar eð starfssvið sumra verkalýðsfélaga er ekki skýrt afmarkað og verkalýðsfélögum og lífeyrissjóðum þeirra hefur gengið misvel að ná til þess fólks sem ætti að vera innan vébanda þeirra. Er því lagt til að jafnan verði veitt réttindi sem nokkurn veginn svara til þess iðgjaldahluta sem vinnuveitandi hefði átt að greiða. Til samræmis þykir enn fremur rétt að hliðstæð regla gildi ef endurgreiðsla iðgjalda hefur átt sér stað á tímabilinu frá 19. maí 1969 til 22. júní 1977, og gildir þá síðari dagsetningin gagnvart réttindamissi bæði samkvæmt I. og II. kaflanum.

Með lögum nr. 55 1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingar lífeyrisréttinda, var komið á almennri skyldu manna til að greiða iðgjöld af atvinnutekjum sinum til lífeyrissjóða. Með hliðsjón af því er lagt til að frá og með árinu 1981 verði réttindi samkv. lögum um eftirlaun til aldraðra einungis áunnin með iðgjaldagreiðslum til lífeyrissjóðs.

Með skyldutryggingunni er enn fremur fallin brott forsendan fyrir því að leggja gjald á þá launaskattsgreiðendur sem vinna við eigin atvinnurekstur eða stunda sjálfstæða starfsemi og eru ekki í lífeyrissjóði, og er því lagt til að 1. tölul. 1. málsgr. 25. gr. laganna falli niður.

Ákvæðið um að skipta megi milli sjóða skuldbindingum þeim, sem með lögunum eru lagðar á þann sjóð er afgreiðir umsókn samkvæmt I. kafla, getur talist eðlilegt þar eð þeim málum fer fjölgandi þar sem slík skipting á við.

Ég lít svo á að ekki þurfi að hafa um þetta fleiri orð. En vegna þeirrar niðurstöðu í hv. heilbr.- og trn. að gera ekki sameiginlegar brtt. um með hvaða hætti þetta verður fjármagnað vil ég geta þess, að á fund heilbr.- og trn. komu fulltrúar Atvinnuleysistryggingasjóðs og höfðu uppi þau orð að e. t. v. hefði ekki verið gert ráð fyrir því í þeirra eyru við samningaborð á liðnu hausti að Atvinnuleysistryggingasjóður tæki á sig þessar greiðslur. Þeir vildu halda því fram að þetta væri gert samkvæmt einhliða yfirlýsingu ríkisstj.

Þrátt fyrir þessi varnaðarorð var ekki samstaða um þessi efni í n. og niðurstaðan var sú sem ég hef getið um áður, að einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja um þennan hátt brtt.