13.05.1981
Efri deild: 98. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4282 í B-deild Alþingistíðinda. (4399)

283. mál, lagning sjálfvirks síma

Frsm. (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Fjh.og viðskn. Ed. hefur fjallað um frv. þetta til l. um lagningu sjálfvirks síma. Hér er um mjög þarft og brýnt mál að ræða. Það er mikil áhersla lögð á að veita þessa þjónustu um allt land. Við vitum hvers virði það er frá öryggissjónarmiði að hafa símaþjónustu í fullkomnu lagi. Víða um land er símaþjónustu enn þannig háttað að menn ná trauðla sambandi við umhverfi sitt, ef það þarf að fara í gegnum landsímastöðvar, nema fjóra til sex tíma á dag þegar þessar stöðvar eru opnar. Í besta lagi er nokkuð víða komin á heils sólarhrings þjónusta landsímastöðva, en þó þannig að opið er þá símasamband innan sveitar og því enn erfitt um hvers konar einkasímtöl í þeim tilfellum. Þess vegna er mjög brýn sú krafa að koma sjálfvirku símasambandi um allt land og er þá einkum eftir að koma á þessu sambandi í sveitum, en talið er að eftir sé að símavæða á þennan hátt um 3200 sveitabæi.

Í umfjöllun n: kom það m. a. fram hjá póst- og símamálastjóra, sem kom til viðtals við n., Jóni Skúlasyni, að þeir þyrftu nokkurn fyrirvara á því að geta framkvæmt þetta verkefni, það væri mjög gott að fyrir lægi áætlun fram í tímann til lengri tíma um hvernig ætti að vinna að því. Póst- og símamálastofnunin þarf sinn undirbúningstíma til efnisútvegunar og til þess að skipuleggja sína vinnu. Þess vegna fagnaði símamálastjóri því, að tekin væri sú stefna sem hér er boðuð. Rétt er samt að fram komi að hann var með ákveðna fyrirvara um að lögð er til nokkur lántaka hjá Póst- og símamálastofnuninni til að framfylgja þessum lögum.

Í skoðun n. á málinu — og reyndar samkvæmt þeim upplýsingum sem n. fékk frá Póst- og símamálastofnuninni — kemur í ljós að um nokkra tekjuaukningu er að ræða hjá Pósti og síma við það að geta komið sjálfvirku símasambandi um sveitir landsins. Áætlaður heildarkostnaður við verkefnið er um 135 millj., en ef felld eru niður aðflutningsgjöld og undanþegið söluskatti við innflutning það efni sem nota þarf til þessa verkefnis er heildarkostnaðurinn nettó um 92 millj. kr. En tekjuauki af þessu er á tvennan hátt: Það er annars vegar árlegur sparnaður hjá stofnuninni við að geta lagt niður símstöðvar og sparnaður í viðhaldi og rekstri símalagna upp á 8.5 millj. á ári svo og aukin símanotkun í sveitum vegna þess að það sýnir sig að þar sem sjálfvirkt símasamband er nota menn símann meira og ársfjórðungsgjaldið, fastagjaldið, af símanum er einnig nokkru hærra. Þess vegna mun þetta þýða auknar tekjur fyrir Póst- og símamálastofnunina og hún mun því geta staðið undir nokkurri aukningu á lántöku vegna þessa verkefnis, eins og frv. gerir ráð fyrir.

Nefndin fjallaði um frv. þetta á nokkrum fundum og eins og ég greindi frá áðan kom póst- og símamálastjóri, Jón Skúlason, til fundar við n. og gerði grein fyrir viðhorfum stofnunarinnar til frv. Þá fékk n. nokkrar skriflegar upplýsingar frá Póst- og símamálastjórninni sem m. a. greindu frá þessum fjármálalegu upplýsingum. Nefndin varð sammála um að leggja til að frv. þetta verði samþykkt óbreytt. Fjarstaddir afgreiðslu málsins voru hv. nm. Gunnar Thoroddsen og Ólafur Ragnar Grímsson. Undir þetta nál. skrifa Guðmundur Bjarnason, Davíð Aðalsteinsson, Kjartan Jóhannsson, Eyjólfur Konráð Jónsson og Lárus Jónsson.

Það er rétt, herra forseti, að það komi fram að þrátt fyrir að í 1. gr. frv. segi svo: „Í áætluninni um lagningu sjálfvirks síma skal að því stefnt, að símnotendur eigi kost á sjálfvirkum síma innan fimm ára frá 1. jan. 1982“ — þá er í 2. gr. hins vegar rætt um að tæki og búnaður til lagningar og uppsetningar sjálfvirks símasambands séu undanþegin aðflutningsgjöldum og söluskatti við innflutning. Nm. álíta þetta ákvæði 2. gr. taki gildi nú þegar því að síðan er í síðustu grein frv., 4. gr., sagt: „Lög þessi öðlast þegar gildi og halda gildi sínu þar til framkvæmdum samkv. 1. gr. er lokið.“ — Við álítum að það hljóti að vera ljóst að þetta ákvæði, að lög þessi öðlist þegar gildi, eigi við þann útbúnað sem þarf að panta til landsins nú og flytja til landsins vegna fyrirhugaðra framkvæmda sem eiga að geta hafist þegar í ársbyrjun 1982. Það er skilningur okkar nm. að þar sem segir að lög þessi öðlist þegar gildi eigi það við um ákvæði 2. gr. Það þarf að panta efnið. Það þarf að liggja fyrir sá útbúnaður sem nota þarf til þess að hægt sé þegar að hefja framkvæmdir og vinna að þessari fimm ára áætlun, eins og segir í 1. gr., frá 1. jan. 1982.