16.10.1980
Sameinað þing: 4. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

Beiðni um umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Umr. utan dagskrár eru að sjálfsögðu einnig utan ramma þingskapa. Af þessu leiðir einfaldlega að ekki er hægt að ræða utan dagskrár mál sem liggur fyrir þinginu og hefur verið flutt samkvæmt gildandi reglum þingskapa.

Það er svo, að forseti Sþ. hefur, þar sem engin ákvæði eru í þingsköpum um slíkar umr., algjörlega á valdi sínu hvort hann leyfir þær eða ekki. En hann hlýtur að fara eftir því, að sé mál fyrir þinginu þessa dagana og hafi verið flutt eins og þingsköp gera ráð fyrir, þá getur hann ekki næsta starfsdag þings áður en mál á að koma til meðferðar, eins og verður með flutningi skýrslunnar á mánudag, leyft umr. um það mál utan dagskrár. Það er algjör fjarstæða. Þetta er hluti þingstarfa sem oft er nauðsynlegur, en á ekki að misnota á þann hátt sem mundi vera ef forseti leyfði slíkar umr. nú í dag.

Ég tel því að ómaklegt sé með öllu að vera með neins konar brigslyrði í garð forseta fyrir þessa meðferð málsins. Ég tel að sú afstaða, sem hann hefur tekið, sé rökrétt og sjálfsögð og engar forsendur séu fyrir því að rjúka í umr. og ryðja fyrir fram ákveðinni dagskrá frá vegna þessa máls í dag, þegar vitað er að sú skýrsla, sem beðið var um í upphafi þings, verður lögð fram á mánudag og rædd á þriðjudag.