13.05.1981
Efri deild: 98. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4283 í B-deild Alþingistíðinda. (4400)

283. mál, lagning sjálfvirks síma

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð frsm. n., hv. þm. Guðmundar Bjarnasonar, því að ég held að hér sé hreyft hinu merkasta máli og það sé ekkert síður réttindamál, að menn geti, hvar sem þeir búa á landinu, haft sjálfvirkan síma, en ýmislegt annað sem barist er fyrir í jöfnuði milli manna. Þess vegna er þetta frv. góðra gjalda vert og kannske ekki síst í því ljósi að síðustu tvö árin hefur verulegur niðurskurður orðið einmitt á því að leggja sjálfvirkan síma í sveitir landsins.

Við nm. í hv. fjh.- og viðskn. fengum í hendur tölur frá póst- og símamálastjóra. Að vísu voru þær þannig fram settar að það þarf að reikna svolítið út úr þeim til að sjá hvernig þróunin hefur orðið síðustu árin, en þó er alveg ljóst að á árinu 1978 munu um 500 sveitabæir hafa fengið síma, en tvö næstu ár hefur niðurskurðurinn verið slíkur að það er aðeins um að ræða að á tveimur árum hafi jafnmargir bæir fengið sjálfvirkan síma og árið 1978, ef ég get ráðið rétt í tölur póst- og símamálastjóra, og á þessu ári, árinu 1981, er niðurskurðurinn enn þá meiri í lagningu sjálfvirks síma í sveitir landsins. Það er þess vegna kannske ekki að furða þótt hæstv. samgrh. og hæstv. ríkisstj. vilji nú hrista af sér slyðruorðið með þessu frv. Þá er það von mín, og ég býst við allra hv. dm., að staðið verði við þetta frv.

Það bendir ekki til þess, að það sé mikill áhugi á því að ekki verði óhóflegur niðurskurður á framkvæmdum Pósts og síma, hvernig farið hefur um gjaldskrárákvarðanir þessarar stofnunar. Nú er ég ekki að mæla með því, að gjaldskrá sé óhóflegar hækkuð hjá þessari stofnun en öðrum. En þegar kostnaður ákveðinna stofnana hefur sannanlega hækkað stórkostlega er ekki um annað að ræða en að horfast í augu við það, ef menn vilja fá þessa þjónustu áfram. Nú er það svo t. d. að 60% af kostnaði Pósts og síma eru launagreiðslur. Ef launagreiðslur í landinu hækka verulega þýðir ekkert annað en að horfast í augu við þetta. Þessu hefur ekki verið þannig farið að undanförnu og alveg sérstaklega núna því að síðasta ákvörðun um gjaldskrá Pósts og síma þýðir stórfelldan niðurskurð í fjárfestingu þessarar stofnunar. Það hlýtur að koma að einhverju leyti líka niður á lagningu síma í sveitum landsins eins og það hefur gert á síðustu tveimur árum.

Þannig er á ýmislegt að líta í þessu sambandi. Þetta frv. er gott dæmi um að hæstv. ríkisstj. virðist vilja annað en hún gerir — maður verður alla vega að vona að svo sé — því að hún er oft með öðru málinu að gera þveröfugt við það sem hún framkvæmir. Og ég er ósköp hræddur um það, ef ekki verður stefnubreyting á þessu sviði frá því sem verið hefur í reynd, að svo verði einnig nú. En við skulum vona að það verði ekki. Alla vega er hér um að ræða allverulegar heimildir sem hæstv. ríkisstj. fær til þess sérstaklega að leggja áherslu á þetta mikilvæga hagsmunamál fyrir strjálbýlið í landinu.