13.05.1981
Efri deild: 98. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4285 í B-deild Alþingistíðinda. (4402)

283. mál, lagning sjálfvirks síma

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um þrennt: um áætlunargerð, um undanþágu frá aðflutningsgjöldum og um lántöku til að hrinda tiltekinni framkvæmd af stokkunum.

Ég skal segja það fyrst að ég tel engan vafa á að lögin, eins og þau eru úr garði gerð, fell það í sér að 2. gr. laganna, sem fjallar um undanþágu aðflutningsgjalda og söluskatts, taki þegar í stað gildi samkv. 4. gr. um að lögin öðlist þegar gildi. Ég tel að hún sé óháð þeim ártölum eða dagsetningum sem nefndar eru í 1. gr. Þannig að það liggi alveg ljóst fyrir að um leið og þetta frv. yrði að lögum væri sá búnaður, sem hér um ræðir, undanþeginn aðflutningsgjöldum og söluskatti til innflutnings samkvæmt því sem um getur í 2. gr. frv. Þetta tel ég tvímælalaust.

Ég held að augljóst sé að það geti verið til bóta að gera áætlanir um verkefni af því tagi sem hér um ræðir. Hér er um verulegan kostnað að ræða, eins og komið hefur fram í máli manna, en þetta er líka réttlætis- og jafnaðarmál. Engu að síður hljóta menn með tilliti til kostnaðarins að líta á hvernig útkoman verður úr þessu dæmi. Það verður að segja eins og er að upplýsingar, sem borist hafa frá Póst- og símamálastofnuninni, hafa ekki verið í sérlega aðgengilegu formi, en ef okkur hefur tekist að ráða þær rúnir, sem þar voru ristar, virðast hér vera um að ræða kostnað sem í heild er 135 millj. kr., en 92 millj. kr. fyrir 3250 símnotendur eða því sem næst. Hins vegar gæti sparnaður af því að leggja niður handvirkar stöðvar og tekjuaukning af þessari breytingu allri verið af stærðinni 17 millj. kr. á ári.

Sjálfsagt má um það deila hvort sá ábati, sem af þessu fæst, réttlæti að ráðast í þetta verkefni. Ef menn vilja á hinn bóginn líta á lántöku fer það vitaskuld eftir lánstímanum hvort þess er kostur að láta þann ábata, sem þessu fylgir, standa undir þeim stofnkostnaði sem hér um ræðir. Hins vegar má segja að miðað við nokkuð langan lánstíma geti það ekki tekist, enda sé þá farin sú leið, sem hér er gert ráð fyrir, að fella niður aðflutningsgjöld og tolla. Auðvitað er það ákvörðun Alþingis og ríkisstj. hverju sinni með hvaða hætti skuli greiða fyrir framkvæmdum. En það má segja að með niðurfellingu þessara gjalda í sambandi við þetta verkefni sé farin önnur leið en í rafmagnsmálum við að mæta hinum félagslega þætti, hinum félagslega þætti sé hér mætt með niðurfellingu gjalda af þessu tagi og að því gerðu sé náttúrlega hugmyndin að þetta geti staðið undir sér. Hvort tekst að standa undir lántökum með þessum hætti fer vitaskuld eftir því hver lánstíminn er.

Auðvitað er varasamt að fara lántökuleiðir í mjög ríkum mæli í sambandi við framkvæmdir af þessu tagi, en það getur verið réttlætanlegt að gera það í einhverjum mæli. Ég tel að það hljóti að vera matsatriði við framkvæmd þessa að hve miklu leyti framkvæmdunum yrði mætt með lántöku, sem hér er þó heimiluð til þess sem nægir fyrir þessu, eða af rekstrartekjum símans.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta mál. En ég ítreka að hér er um réttlætis- og jafnaðarmál að ræða og með því að greiða fyrir því á grundvelli félagslegra sjónarmiða, eins og hér er gert ráð fyrir, virðist þetta geta verið bærilega viðráðanlegt verkefni. Auðvitað er ekki vansalaust að 10–12 þús. af íbúum þessa lands skuli enn þá búa við handvirkan síma, eins og kemur fram í þessum gögnum hér.