13.05.1981
Efri deild: 98. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4287 í B-deild Alþingistíðinda. (4405)

283. mál, lagning sjálfvirks síma

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins þakka þeim tveimur hv. nm., sem hér hafa gefið skýringar, fyrir alveg skýr svör. Það ætti engum manni að blandast nokkur minnsti hugur um að 2. gr. tekur gildi um leið og lögin verða staðfest. Ég tel að þessar ótvíræðu yfirlýsingar tveggja nm. til viðbótar við þau orð, sem hæstv. samgrh. lét hér falla við 1. umr., séu alveg fullgild sönnun þess, að 2. gr. laganna taki gildi eins og lögin segja til um og þau gildi varðandi allt það efni sem verður til þessa verkefnis flutt inn eftir að lögin verða afgreidd héðan frá Alþingi.