13.05.1981
Neðri deild: 93. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4313 í B-deild Alþingistíðinda. (4410)

320. mál, raforkuver

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég er sammála ýmsu í því lagafrv. sem hér er til umr., t. d. stækkun Hrauneyjafossvirkjunar, auknum vatnaveitum og auknum vatnsmiðlunum á Suðurlandi, þar með talið byggingu stíflugarðs Sultartangavirkjunar, enda er ekki á annan fljótvirkari, auðveldari og ódýrari hátt unnt að auka og tryggja raforkuöflun þjóðarbúsins. Ég er einnig sammála því að halda áfram undirbúningi Blönduvirkjunar og Fljótsdalsvirkjunar. Aftur á móti er ég alfarið ósammála þeim hægagangi sem frv. gerir ráð fyrir í uppbyggingu orkufreks iðnaðar og stóriðju undir því mottói hæstv. iðnrh. að farið verði með gát í uppbyggingu orkufreks nýiðnaðar, eins og hann orðar það.

Að mínu mati á þessi stefna engan rétt á sér þegar lífskjör almennings í landinu rýrna frá misseri til misseris. Við verðum að gera stórátak til að snúa þeirri þróun við og gerum það ekki á fljótvirkari og öruggari hátt en með hraðri uppbyggingu orkufrekra iðnfyrirtækja af ýmsum stærðum og gerðum sem staðsett verði víðs vegar um landið. Inn í þá mynd kemur einnig veruleg aukning stóriðju og það á fleiri en einum stað á landinu. En mér virðist að hæstv. iðnrh. beiti öllum brögðum til að koma í veg fyrir, að okkur takist í framtíðinni að ná eðlilegum samningum við erlenda aðila, með því að vera með hótanir hér uppi á Íslandi um þjóðnýtingu, rétt eins og við værum komnir suður í Afríku. Ég er alfarið andvígur þeim hægagangi í þessum efnum, sem hæstv. iðnrh. hefur beitt sér fyrir að undanförnu og gerir enn, þótt eitthvert lát virðist vera þar á hina síðustu daga, sbr. þau þrjú frv. sem hafa verið lögð fram allra síðustu daga. Það á eftir að verða þjóðinni mjög dýrt ef ekki verður hressilega snúið við blaðinu í þessum efnum.

Þrátt fyrir langar og erfiðar fæðingarhríðir þessa frv. hefur hæstv. iðnrh. og hæstv. ríkisstj. ekki tekist að taka af skarið um röðun virkjana. Þar eru allir endar lausir, nema hvað gert er ráð fyrir að Sultartangavirkjun verði mjög aftarlega á merinni. Það virðist vera það eina sem samkomulag hefur náðst um í hæstv. ríkisstj. Við röðun virkjunarframkvæmda verður fyrst og fremst að hafa tvennt í huga:

Í fyrsta lagi að næsta stórvirkjun verði komin í gagnið nægilega fljótt til að afstýra orkuskorti þótt myndarlega verði tekið á í því verkefni — að hraða uppbyggingu orkufreks iðnaðar víðs vegar um landið á allra næstu árum, ekki á tíunda áratugnum eða síðar, eins og hæstv. iðnrh. vill. Ég tel að Sultartangavirkjun ein geti uppfyllt þetta skilyrði. Það er eina virkjunin sem gæti með góðu móti verið tilbúin 1985.

Í öðru lagi verður röðunin að byggjast á þjóðhagslegu arðsemimati, bæði til skamms og til langs tíma, en þá verður að taka alla þætti með. Það má ekki fyrir fram útiloka ákveðna virkjunarkosti, eins og frv. gerir ráð fyrir varðandi Sultartangavirkjun, þótt misviturleg orð í misviturlegri stefnuskrá misviturrar ríkisstj. segi eitthvað þar um. Þjóðhagslegt mat á að ráða, en þá verða allir þættir að koma inn í það mat, ekki fyrir fram að útiloka eitt eða neitt. Það eru ekki vísindaleg vinnubrögð.

Í grg. frv. er greint frá áætluðum stofnkostnaði þeirra þriggja virkjana sem mest hefur verið talað um að undanförnu, þ. e. Blönduvirkjunar, Fljótsdalsvirkjunar og Sultartangavirkjunar. Það er gott og blessað svo langt sem það nær. Inn í þá mynd vantar áætlaðan kostnað við tengingu virkjananna við núverandi háspennudreifikerfi landsins og meta með hverjum hætti hagkvæmast er að nýta orku nýrra virkjana í samrekstri með þeim virkjunum sem fyrir eru. Orkustofnun gaf, eins og fram kom hjá hv. 6. þm. Reykv., nýlega út fróðlega skýrslu um vinnslu og flutning raforku til aldamóta þar sem þessi atriði og mörg fleiri eru tekin með í hagkvæmniútreikninga. Í þessari skýrslu Orkustofnunar kemur fram að hagkvæmast sé að byggja Blönduvirkjun fyrst og síðan Sultartangavirkjun, ef engin aukning stóriðju er inni í myndinni og ef stóriðjufyrirtæki verður reist á Norðurlandi. Ef aukning stóriðju verður fyrst og fremst á Austurlandi er hagkvæmast að byrja á byggingu Fljótsdalsvirkjunar, en þá er verið að tala um stóriðju sem þarf 150 mw. afl eða álíka mikið og álverið notar. Það er eina tilvikið þar sem Fljótsdalsvirkjun er hagkvæmust sem fyrsti virkjunarkosturinn.

Ef aukning stóriðju verður fyrst og fremst á Vesturlandi, þ. e. á Grundartanga, munar sáralitlu á í hagkvæmni hvort byrjað er á Blönduvirkjun eða Sultartangavirkjun. Fljótsdalsvirkjun er nr. 3 í því tilviki. Í skýrslu Orkustofnunar er kostnaður við framleiðslu og flutning raforku ekki reiknaður út frá þeirri forsendu að aukning stóriðju verði á Suður- eða Suðvesturlandi, en ljóst er að í því tilviki er hagkvæmast að Sultartangavirkjun verði fyrst í röð þessara umræddu þriggja virkjana. Mér finnst augljóst að aukning stóriðju muni ekki verða á einhverjum einum stað, eins og miðað er við í útreikningum Orkustofnunar, heldur á nokkrum stöðum á landinu. Mér finnst einnig augljóst að uppbygging margs konar orkufreks iðnaðar muni dreifast um landið allt. Nauðsynlegt er því að fjölga þeim forsendum sem reiknað er út frá þegar meta á hinar ýmsu virkjunarleiðir þessa og næstu áratuga.

Ég endurtek að þjóðhagsleg arðsemi á að ráða röðum virkjana, en það má ekki útiloka neina kosti fyrir fram. Þá verður útkoman röng. Ég vek einnig athygli á að stækkun Búrfells — eða Búrfell II — hefur lítið verið til umræðu í þessu sambandi þótt það sé hagkvæmasti virkjunarkostur sem nú er þekktur og þar sem framleiðslukostnaður á orkueiningu er ekki nema 2/3 af því sem er við Blönduvirkjun, sem þó hefur verið talin að þessu leyti hagkvæmasti kosturinn. Þetta á sérstaklega við eftir að auknar hafa verið vatnaveitur og vatnsmiðlanir á Suðurlandi sem koma öllum virkjunum á svæðinu til góða.

Annað, sem ég er mjög óánægður með í frv., er hálfkákið við ákvörðun um virkjunaraðila. Það á hiklaust að taka ákvörðun um það strax, að Landsvirkjun verði framkvæmdaaðill, eigandi og starfrækjandi allra nýrra stórvirkjana, hvar á landinu sem þær verða byggðar, og rökstuddi ég þá skoðun fyrir nokkru í framsöguræðu minni með frv. til l. um breytingu á lögum um Landsvirkjun. Mér finnst að Alþingi eigi strax að taka af skarið um það. Jafnhliða þarf að taka eignaraðild að Landsvirkjun til endurskoðunar þannig að öll sveitarfélög landsins geti með einum eða öðrum hætti orðið með eigendur og átt aðild að stjórn fyrirtækisins.

Þar sem ég á sæti í þeirri nefnd, sem fær þetta frv. til umfjöllunar, og þar sem ég hef nýlega rætt allítarlega um virkjunarmál hér í þessari hv. deild mun ég ekki á þessu stigi málsins fara nánar út í einstaka efnisþætti málsins. Þó að mér finnist allt að því vítavert — ég er ekki vanur að nota svo stór orð, en mér finnst að ég þurfi að gera það núna — að leggja slíkt frv. fram fyrir hið háa Alþingi tæpum tveimur vikum eða rúmlega hálfri annarri viku áður en áætlaðar þinglausnir eiga að fara fram, eftir að hafa haft mjög rúman tíma til að ganga frá því, mun ég eigi að síður gera mitt til að stuðla að afgreiðslu þess fyrir þinglausnir.