13.05.1981
Neðri deild: 93. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4315 í B-deild Alþingistíðinda. (4411)

320. mál, raforkuver

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Frv. það um raforkuver, sem hér er á dagskrá, er án efa með viðameiri málum sem fram hafa verið lögð á þessu Alþingi. Ég skal ekki fjalla um frv. í löngu máli, enda hefur því verið fylgt úr hlaði af hálfu hæstv. iðnrh. með mjög ítarlegri ræðu. Frv. felur í sér víðtækar heimildir til virkjana og það felur í sér heimildir til töku lána til að fylgja framkvæmdum eftir. Frv. gerir ráð fyrir að nær tvöfalda afl raforkukerfisins á 10–15 árum og það gerir ráð fyrir mjög aukinni orkuframleiðslu. Þessir þættir frv., sem hér hafa verið raktir og eru meginefni þess, byggja á að þær vatnsaflsvirkjanir og e. t. v. jarðvarmavirkjanir sem frv. gerir ráð fyrir verði byggðar á 10–15 árum. Vissulega vilja sumir fara nokkru hraðar í þessum efnum og frv. hafa verið lögð fyrir Alþingi sem kveða á um að svipað framkvæmdamagn í virkjunum ætti að framkvæma á skemmri tíma en hér er talað um. Þó hygg ég að það sé ekki raunhæft að tala um skemmri tíma fyrir þær vatnsaflsvirkjanir, sem hér er um rætt, en 10–12 ár.

Ég vil láta það koma fram í sambandi við framkvæmdahraða þessara mála að hann hlýtur að ráðast af orkunýtingu, hann hlýtur að ráðast af því, hversu ört við getum stofnað fyrirtæki sem hafa þörf fyrir þá orku sem er umfram þarfir almenna markaðarins. Meðan ekki liggja á borðinu samningar um slíka orkunotendur er ógætilegt að slá föstu í lagafrv., hvort heldur er í frvgr. eða í grg., fastbundnum árafjölda eða fastbundnum dagsetningum varðandi þessi mál. Það hefur greinilega komið hér fram að virkjanir þurfa í fyrsta lagi að þjóna hagsmunum almenna markaðarins, en þær þarf einnig að byggja upp með tilliti til þess að auka raforkunotkun til iðnaðar og atvinnuuppbyggingar þannig að við nýtum þessa miklu náttúruauðlind okkar, orkuna í fallvötnum og jarðvarma, íslenskri þjóð til hagsældar og atvinnuaukningar. En án þess að ég ætli að ræða þá þætti málsins frekar vil ég aðeins ítreka að það verður engu slegið föstu um dagsetningar eða ártöl í þessu atriði án þess að hafa á borðinu samninga um stóriðjukosti sem geta þá krafist þeirrar orku sem hér er verið að tala um. Þess vegna hef ég t. a. m. fallist á að þetta hlaup í tímaskeiði, sem frv. kveður á um, sé notað, þ. e. 10–15 ár. Ef við hefðum haft á borði samninga um orkusölu til orkufrekra fyrirtækja umfram það sem hér er gert ráð fyrir hefði verið hægt að kveða skýrar á um þetta efni.

Ég minni á að að 15 árum liðnum, þegar þessar virkjanir eiga að vera komnar í gagnið að lágmarki, verða í orkukerfinu um 2000–2400 gwst. af ársframleiðslu umfram þarfir almenna markaðarins, þannig að jafnvel þótt hér sé um 15 ára skeið að ræða þarf vel að vanda þá vinnu og vinna að því með miklum dugnaði að koma upp orkufrekum iðnfyrirtækjum sem geta notað þessa orku. Ég tel að það væri gott ef við gætum stefnt hraðar í þessum efnum, en þá þurfum við auðvitað að gera okkur grein fyrir því, að ef við ætlum að virkja þetta á 10 árum er væntanlega um að ræða 2400–2800 gwst. sem þarf að nota til orkufreks iðnaðar.

Það hefur verið nokkuð gagnrýnt hér að þetta frv. kveði ekki á um röðun virkjana og því sé ekki slegið föstu í þessu frv., hvaða virkjunarkost verði næst ráðist í. Ég tel út af fyrir sig að það væri æskilegt að þegar væri unnt að slá slíku föstu. En með tilliti til þess, sem fram kemur í grg. frv. um þá vinnu sem ráðast á í á þessu ári við virkjanaframkvæmdir og undirbúning virkjana, er ekki um það að tefla að tafir þurfi að verða á því að koma næstu stórri vatnsaflsvirkjun í notkun. Þessar framkvæmdir, sem frv. gerir ráð fyrir og þegar er í rauninni kveðið á um að unnar verði á þessu ári, hafa verið raktar hér af hæstv. iðnrh. Ég aðeins ítreka það, að þegar er gert ráð fyrir að unnið verði að undirbúningi Kvíslaveitu og aukningu á miðlunarrými Þórisvatns ásamt Sultartangastíflu og er gert ráð fyrir að þessum framkvæmdum öllum ljúki á næstu 4–5 árum. Vafalaust lýkur hluta af þeim á miklu skemmri tíma, en þessar framkvæmdir eiga að hafa í för með sér aukningu á orkuvinnslugetu sem nemur allt að 830 gwst. á ári. Að vísu er samkv. greinargerð, sem ég hef fengið um þetta efni frá Landsvirkjun, tekið fram að ekki sé hægt að slá þessu algerlega föstu vegna þess að rannsóknir t. a. m. á Kvíslaveitum og árangri af þeim séu ekki á því stigi enn sem komið er, en úr þessu fæst skorið á þessu sumri að því er talið er. Þó er talið öruggt að þessar aðgerðir færi okkur a. m. k. 500–800 gwst. framleiðslu á ári þegar þær eru allar komnar til nota. Þetta gefur okkur svigrúm til að vinna að undirbúningi næstu vatnsaflsvirkjunar og ráðast í hana með þeim hraða að hún komi til nota á síðari hluta þessa áratugar eða á bilinu 1986–1987. Það ræðst vissulega af því hvort og hvenær við þurfum á auknu afli og aukinni orku að halda til orkufreks iðnaðar, hvenær þörf er á því að næsta vatnsaflsvirkjun taki til starfa á eftir þessum aðgerðum, en væntanlega má reikna með því, að sú vinna takist með þeim hætti að þörf verði fyrir það á síðari hluta þessa áratugar þannig að þessi markmið og eins þeir möguleikar, sem eru til framkvæmda, geti farið saman.

Í frv. og grg. frv. er einnig kveðið á um að í framhaldi af undirbúningi og framkvæmdum við þessar aðgerðir, verði á þessu ári unnið að því að hraða verkhönnun Blönduvirkjunar, að ljúka rannsóknum við Fljótsdalsvirkjun og hefja þar verkhönnun, að hefja tilraunir með uppgræðslu og gróðurbætur á Blöndusvæðinu og hefja þar vegagerð, enn fremur að ljúka sem fyrst samningum við hagsmunaaðila vegna þeirrar virkjunar. Þessar fyrirætlanir staðfesta það, að varðandi þá tvo virkjunarkosti verður haldið áfram með þeim hætti að reikna megi með að ekki þurfi að verða nein töf á framhaldsaðgerðum þegar ákvörðun verður tekin.

Ég vil láta þess getið, sem e. t. v. hefur ekki komið glögglega fram, að á þessu ári.er talið að þurfi a. m. k. 17–18 millj. kr. til að ljúka rannsóknum við Fljótsdalsvirkjun. Það er þó talið raunhæft að hefja þar verkhönnun þegar líður á síðari hluta ársins.

Varðandi Blönduvirkjun er talið að þurfi 3–4 millj. kr. til þess að ljúka þar verkhönnun og er þá miðað við hagstæðasta virkjunarkost. Jafnframt er nauðsynlegt að hefja þar uppgræðslu, gróðurbætur og vegagerð til þess m. a. að dreifa vegagerðarþættinum á nokkur ár og lenda ekki í sérstökum framkvæmdahnút með þann þátt málsins sem hefur þá í för með sér, eins og sums staðar mun hafa borið við, að orðið hefur sérstakt kapphlaup um tækjakaup. Enn fremur er mjög mikilvægt að geta nýtt tæki og vinnuafl heimaaðila í þessum efnum sem mest, en það gerist því aðeins að vinna að þessum þætti framkvæmda verði unnin á nokkrum árum. Þetta tel ég vera mjög mikilvægt.

Þá segir í grg. frv. að ríkisstj. muni taka ákvörðun á síðari hluta þessa árs og leita staðfestingar Alþingis á haustþingi. Þetta er gert með tilliti til þess að í 2. gr. frv. er ákvæði þess efnis að leita skuli staðfestingar Alþingis á ákvörðunum varðandi framkvæmdir, eða eins og þar segir: þ. á m. framkvæmdaröð, og er þá sett ákvæði í grg. í samræmi við það. Þessar ákvarðanir verði teknar með því að taka mið af þjóðhagslegri hagkvæmni og öryggi raforkukerfisins. Þessi atriði eru ákaflega mikilvæg. Ég vil hins vegar segja um það, hvort hyggilegt hefði verið að taka ákvörðun nú, að það hefur verið talið að ástæða væri til að reyna frekar að ná samningum við hagsmunaaðila Blönduvirkjunar en þegar hefur verið gert og mun verða unnið að því á næstu mánuðum. Þetta er ekki síst mikilvægt vegna þess, eins og segir í grg. frv., að ríkisstj. hyggst taka ákvörðun með því að taka mið af þjóðhagslegri hagkvæmni og öryggi raforkukerfisins.

Í ræðum þeirra hv. þm., sem hér hafa tekið til máls, hefur verið fundið nokkuð að því, einkanlega af hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni, að samanburð kostnaðar skorti með grg. þessa frv. Að sjálfsögðu hefði mátt setja þann kostnað skýrar upp en þar er gert. Þær kostnaðartölur, sem þar liggja þó fyrir, eru með þeim hætti að það er auðvelt fyrir hvern og einn að bera þær saman. Í þeim forsendum, sem þær kostnaðartölur eru byggðar á sem birtast með fskj. þessa frv., er gert ráð fyrir að 50% af orkunni frá hverju raforkuveri um sig verði notuð til orkufreks iðnaðar, 35% til almenns markaðar og 15% til húshitunar. Þetta eru þær meginforsendur sem lagðar eru til grundvallar í kostnaðartölum sem fylgja frv. Virkjunarkostirnir eru síðan metnir á desemberverðlagi á síðasta ári og stofnkostnaður þeirra metinn við stöðvarvegg. Það er vitaskuld nokkuð rétt í því, sem hv. þm. Magnús H. Magnússon sagði, að það er hægt að setja upp ýmiss konar forsendur í þessum útreikningum, en miðað við þessar forsendur er Fljótsdalsvirkjun 24% dýrari en Blönduvirkjun og Sultartangavirkjun 44% dýrari en Blönduvirkjun. Villinganesvirkjun er 31% dýrari en Blönduvirkjun. Í þetta dæmi er einnig reiknað nokkuð vegna aðstöðumunar og er reiknað í það 2.6% við Blöndu umfram Sultartangavirkjun og 3.7% við Fljótsdalsvirkjun umfram Sultartangavirkjun, 2.1% við Villinganes.

Það er auðvitað álitamál hvort hér sé fyllilega mætt þeim mismun sem er á aðstöðu þessara virkjunarkosta, en hér er þó um verulegar fjárhæðir að ræða, sem metnar eru inn í þetta dæmi, og ekki hægt að segja um það með neinni fullvissu hvort þar er of skammt eða of langt gengið.

Í greinargerð, sem ég hef fengið um samanburð á þessum virkjunarkostum frá Landsvirkjun, dags. 29. apríl s. l., eru þessir virkjunarkostir metnir nálega alveg á sama máta, þannig að í útreikningum sérfræðinga Landsvirkjunar og raunar útreikningum, sem hafa verið unnir með sérfræðingum Rafmagnsveitna ríkisins, er niðurstaðan nálega hin sama, miðað við þær forsendur sem ég gat um og gerð er grein fyrir í frv., sem er þó byggt á útreikningum sem gerðir hafa verið á vegum Orkustofnunar af Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens. Þar kemur einnig fram, sem hér var rakið áðan, að Sultartangastífla ein út af fyrir sig er ekkert sérstaklega hagstæð. Hún er 40% dýrari til orkuframleiðslu en t. a. m. Blönduvirkjun. En hún er svo mikilvægur þáttur í því að auka öryggi virkjanakerfisins á Suðurlandi að það eru, held ég, allir sammála um að nauðsynlegt sé að ráðast í þá framkvæmd. Einnig eru, eftir því sem ég best veit, allir sammála um að ráðast í þær vatnaveitur sem fylgja stækkun Þórisvatns og ég rakti hér áðan, en þær vatnaveitur eru mjög hagstæðar svo að þær aðgerðir allar samanlagt eru hagstæðustu framkvæmdir sem við getum ráðist í til raforkuöflunar eins og nú standa sakir.

Í þessari greinargerð Landsvirkjunar kemur hins vegar fram að ef þessar þrjár höfuðvirkjanir væru metnar einvörðungu með tilliti til eftirspurnar hins almenna markaðar kemur út meiri munur þeirra á milli. Einkanlega er það Fljótsdalsvirkjun í óhag þannig að Fljótsdalsvirkjun yrði þá 47% dýrari en Blanda miðað við kwst. Sultartangavirkjun yrði 42% dýrari en Blanda miðað við kwst. Munurinn milli Sultartanga og Blöndu er því nákvæmlega að heita má hinn sami ef þessar forsendur eru notaðar.

Nú sagði hv. þm. Magnús H. Magnússon réttilega að það væri fleira sem gæti komið til greina að meta inn í þetta dæmi. Það er í fyrsta lagi línukerfi, hvernig þessir virkjanakostir og staðsetning þeirra mæta hagsmunum raforkukerfisins með tilliti til hins almenna markaðar, og svo í öðru lagi staðsetning orkufrekra iðnfyrirtækja. Það er ekkert álitamál, ef lítið er til hagsmuna raforkukerfisins vegna hins almenna markaðar, það er mikil nauðsyn, að slepptu öllu tali um eldvirk svæði og þá áhættu sem við tökum af þeim sökum, að reisa stóra vatnsaflsvirkjun í öðrum landshluta en virkjanirnar eru á Þjórsársvæðinu. Við skulum segja að við vinnum þar að framkvæmdum á allra næstu árum, sem verða allt að ígildi einnar nýrrar stórvirkjunar með þeim framkvæmdum sem þegar eru ákveðnar, og héldum síðan áfram á því svæði virkjunarframkvæmdum án þess að virkja annars staðar. Það verða miklir erfiðleikar í orkuflutningskerfinu vegna taps á orku og vegna þess að flutningsgeta þess mundi bresta og við yrðum að bæta við línulögnum. Það yrði allt mjög óhagstætt þjóðhagslega. Þess vegna þarf að taka tillit til þessa. Enn fremur þarf að taka tillit til þess við staðsetningu á orkufrekum iðnfyrirtækjum því staðsetning þeirra getur einnig haft veigamikil áhrif í þessu efni þannig að skilja á milli virkjanakosta hvað hagkvæmni snertir.

Í þeirri skýrslu, sem send var Alþingi fyrir fáum vikum frá Orkustofnun og hér var vitnað í af hv. þm. Magnúsi H. Magnússyni, er stillt upp ýmsum virkjanaleiðum eða virkjanakeðju með mismunandi röð og er reiknað út frá þeim forsendum að stóriðjukostir verði settir niður á þrem stöðum, þ, e. á Grundartanga, í Eyjafirði og Reyðarfirði. Í öllum tilvikum, hvaða virkjanaröð sem sett er upp, eru þær virkjanaraðir, sem byrja á Blönduvirkjun, hagkvæmastar, nema þegar stóriðja er sett niður á Reyðarfirði og eins og kom fram allt að 150 mw. Í nýjum útreikningum, sem byggjast á þeim rannsóknum sem unnar voru á síðasta ári á þessum virkjunarsvæðum, einkanlega við Fljótsdalsvirkjun og Sultartangavirkjun, kemur hins vegar í ljós að þarna eins og annars staðar hefur tognað nokkuð á milli virkjanakosta Blönduvirkjun í hag þannig að allar þær virkjanaleiðir og þær raðir virkjana, sem settar eru upp í þessari töflu, eru hagkvæmastar þegar þær byrja á Blönduvirkjun, nema stóriðja sé á Reyðarfirði. Þó er munurinn svo lítill á milli þess að byrja á Blönduvirkjun eða byrja á Fljótsdalsvirkjun að hann er ekki talinn marktækur. Þar munar aðeins til eða frá örfáum millj. nýkr. og þá veltur á því hvort orka fæst úr Kröflu eða ekki. Ef orka fæst að verulegu marki úr Kröflu er samt hagstæðara að byrja á Blönduvirkjun, en ef engin orka fæst til viðbótar úr Kröflu er hagstæðara að byrja á Fljótsdalsvirkjun. Þessi munur til eða frá er þó talinn það lítill að hann sé ekki marktækur.

Nú hef ég talið eðlilegt að rekja þetta, sem hér hefur verið sagt um hagkvæmni virkjunarkosta og hagkvæmni virkjunarleiða, vegna þess að hér var sagt að þessi mál væru ekki nægilega skýrð í grg. þessa frv. Það má vel segja að unnt væri að setja þetta upp með skýrari hætti, en raunar, eins og fram kom í máli hæstv. iðnrh., hafa upplýsingar um þessi efni verið að berast alveg fram á síðustu daga.

Nú tel ég ekki ástæðu til að flytja um þetta öllu lengra mál. Það liggur þó fyrir að skoðun ríkisstj., sem fram kemur í grg. með þessu frv., og skoðun t. a. m. hv. þm. Magnúsar H. Magnússonar fara saman að því leyti, að þar er sagt að við ákvörðun um næstu virkjun eða ákvörðun um framkvæmdaröð skuli taka mið af þjóðhagslegri hagkvæmni og öryggi raforkukerfisins. Ég tel, miðað við þau gögn sem ég hef hér vitnað til, að þetta stefni mjög í eina átt. Þar þarf hins vegar að vinna enn nokkurt undirbúningsstarf til þess að hægt sé að slá hlutum algerlega föstum.

Ég held að það sé ekki ástæða til að fjalla um þetta miklu meira en hér hefur verið gert. Ég vil aðeins segja þetta út af því atriði í ræðu hv. þm. Magnúsar H. Magnússonar að næsta virkjun komi ekki nógu fljótt í gagnið ef hún er ekki farin að hefja vinnslu árið 1985: Þetta kann að vera álitamal ef við hefðum þá mjög orkufrekan kaupanda sem þyrfti á því ári á orku að halda. Ef eitthvað slíkt gerist þarf að bregðast við því á þann máta að tryggja slíkum orkukaupanda orku. En ekkert slíkt liggur á borðinu, eins og ég hef hér sagt, og ég hygg, þó að ég hafi ekki mjög kynnt mér þau mál, að þau mál þurfi a. m. k. nokkuð vandlegan undirbúning, og það þarf að leggja verulega í samningagerð og aðra þá þætti sem geta leitt til þess að ákvörðun sé hægt að taka um stóriðjukosti. Ef engir stóriðjukostir verða tilbúnir höfum við næga orku, miðað við þær aðgerðir sem á að vinna á Suðurlandssvæðinu, til ársins 1987 og jafnvel lengur eða a. m. k. 1986–1987, þannig að það er ekki að þessu tilskildu neitt sem rekur á eftir því að næsta virkjun þurfi að taka til starfa árið 1985, nema þá verði komin, eins og ég sagði, mjög orkufrekur iðnaðarkostur sem þarf á þessari orku að halda.

Ég vil aðeins bæta því við út af því sem fram kom í ræðu hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar, að hér væri verið að fara fram á frest til allt að eins árs, að ég tel að það sé of í lagt. Það er greint frá því í grg. frv. að ríkisstj. hyggist taka ákvörðun á síðari hluta þessa árs og leggja þá ákvörðun fyrir til staðfestingar Alþingis á haustþingi. Ég get vel hugsað mér að það geti gerst með framlagningu fjárlagafrv. og staðfesting Alþingis fáist þá með afgreiðslu fjárlaga. En ég held að það væri mjög hæpið að standa þannig að málum að það dragist a. m. k. fram yfir þann tíma. Ég vil þó segja það, að ef allt gengur eins og reikna má með væri hægt að hefja gerð útboðsgagna fyrir t. a. m. Blönduvirkjun fyrir lok þess árs. Gerð útboðsgagna hefst vitaskuld eftir að verkhönnun lýkur. Verkhönnun Sultartangavirkjunar lýkur einnig væntanlega á þessu ári, en það er yfirlýst stefna ríkisstj. og kemur fram í þessu frv. að næsta virkjun skuli virkjuð utan eldvirkra svæða. Það stefnir vitaskuld á Blöndu- eða Fljótsdalsvirkjun. En hvað sem þessu líður vil ég taka það fram, að ég tel, að eitt ár til ákvörðunar sé of langur tími, og ég tel, að það sé ekkert í þessu frv. sem gefur tilefni til að ætla að svo langur tími líði til ákvörðunar. Ákvörðun ríkisstj. á að liggja fyrir þannig að unnt sé að leita staðfestingar Alþingis á haustþingi.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þetta meira. Ég ítreka að hér er um ákaflega þýðingarmikil mál að ræða og það er eðlilegt að um þau séu umr. Þær umr. leiða væntanlega til þess að greiða fyrir því að þetta mál hafi farsælan framgang.