13.05.1981
Neðri deild: 93. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4348 í B-deild Alþingistíðinda. (4419)

320. mál, raforkuver

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Það er orðin nokkur ástæða til þess að stjórnarandstaðan láti í sér heyra í þessum umr., sem stjórnarþm. hafa alfarið ginið yfir í kvöld og raunverulega tafið framgang þessa máls meira en ég hefði haldið að hæstv. iðnrh. hefði kosið. Hér hafa stjórnarþm. flutt langar og ítarlegar ræður, rúmlega klukkustund, a. m. k. einn þeirra, og er alveg augljóst að þeir hafa ekki mikinn hug á að flýta þessu máli og hafa ekki hug á að það fái afgreiðslu fyrir þinglok, enda stefnir fátt í þá átt.

Það hefur farið hér eins og áður, að fáum þm. hefur tekist að tala jafnrækilega gegn hagsmunum eigin kjördæmis og hv. þm. Páli Péturssyni. Það er nánast hörmulegt að hlusta á það, að maður, sem er kjörinn á þing, í þessu tilviki í Norðurl. v., til að gæta hagsmuna sinna kjósenda og þá um leið síns kjördæmis, skuli yfirleitt leyfa sér að tala eins og hv. þm. Páll Pétursson hefur talað í kvöld.

Ég vil láta þá skoðun mína í ljós, að nú hafi verið reynt svo rækilega á þolrifin í þeim mönnum, sem hagsmuna eiga að gæta varðandi Blönduvirkjun og þá samninga sem þar eru í vændum, að það sé naumast ekkert annað eftir en að taka það land sem um ræðir, eignarnámi. Ég vil láta þessa skoðun mína í ljós einfaldlega vegna þess að ég er sannfærður um að þar í sveit er fámennur hópur manna sem stendur í vegi fyrir því, að eitt mesta hagsmunamál þess kjördæmis um áratugaskeið nái fram að ganga. Hvað veldur þessari afstöðu ætla ég ekki að verða orðmargur um hér í kvöld, en ugglaust mætti segja margt um það.

Ég er þeirrar skoðunar, eins og þetta mál nú stendur, að þar sem 2/3 hlutar eigenda þess afréttarlands, sem um ræðir, hafa samþykkt þessa virkjun, en 1/3 hluti stendur á móti og kemur í veg fyrir að stórkostlegt hagsmunamál kjördæmisins og þjóðarinnar allrar nái fram að ganga, hafa þeir til þess stofnað að landið verði af þeim tekið þó þeir fái greiðslu fyrir.

Ég verð að taka undir það sem hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði við umr. fyrr á þessu ári, að bændur og landeigendur verða að fara að gæta sín á því að beita ekki of mikilli hörku í samningum við þá menn og við þann yfirgnæfandi fjölda landsmanna sem þarf á þeirri orku að halda sem hér er um að ræða. Það getur verið að tilfinningaleg sjónarmið ráði miklu, en tilfinningaleg sjónarmið hafa ekki leyfi til að standa í vegi fyrir framförum. Og ef hv. þm. Páll Pétursson metur meira nokkra hektara lands sem beitiland fyrir sauðfé en hagsmuni kjördæmis, kjördæma og heillar þjóðar, þá gef ég heldur lítið fyrir þá baráttu sem ég taldi að hann hefði ætlað sér að heyja á hinu háa Alþingi a. m. k. þegar hann fór í framboð.

Þetta mál með blessaða Blönduvirkjunina er nú komið á það stig að ég held að mjög mikill meiri hl. þjóðarinnar geti engan veginn sætt sig við að steinn verði lagður í götu þeirra framkvæmda sem Orkustofnun telur hagkvæmustu raforkuframkvæmd í landinu. Þess vegna segi ég, að menn verða að fara að hugleiða betur en áður hver það sé, sem eigi það land, eða hverjir það séu, sem eiga það land sem við búum í. Eru það tiltölulega fáir menn, sem geta gert tilkall til alls afréttarlandsins, eða þjóðin, sem í landinu býr? Ég er jafnframt þeirrar skoðunar, að hér séu í húfi svo miklir hagsmunir fyrir þjóðina í atvinnulegu tilliti og í þá veru að halda áfram á framfarabraut að þetta verði ekki liðið miklu lengur.

Það er ábyggilega vaxandi skilningur fyrir þeirri skoðun og fyrir þeirri stefnu Alþfl.-manna að það þurfi hér á Alþingi að samþykkja frv. Alþfl. um þjóðareign á landi. Sá þvergirðingsháttur, sem hér er við að stríða, nær ekki nokkurri einustu átt. Hann kostar þjóðina milljónir á milljónir ofan. Ég hef áður í umr. hér á Alþingi minnt á það sem gerðist í Laxárdeilunni forðum. Ég hef minnt á að í Laxá er ódýrasti virkjunarkostur á öllu Íslandi í vatnsaflsvirkjun. Ég hef minnt á að vegna tregðu nokkurra manna varð Kröfluævintýrið til. Ef sú tregða hefði ekki verið fyrir hendi hefði Krafla aldrei orðið til og þeir milljarðar, sem þar hafa farið í súginn, hefði verið notaðir í arðbærari framkvæmdir. Ég minni á þetta vegna þess að ég er alfarið þeirrar skoðunar og ég stend í þeirri trú, að þjóðin, sem þetta land byggir, geti ekki liðið það miklu lengur að svo fáir stöðvi svo mikilvæg verkefni sem eru þjóðarheildinni nauðsynleg og koma henni til góða. Ég er þeirrar trúar, að svo fáir menn geti ekki komið í veg fyrir eðlilegar framfarir í landinu. Og ég vil segja við hv. þm. Pál Pétursson, að hann mun ekki og hans líkar geta í náinni framtíð haldið uppi því þrefi og streði sem hann hefur verið formælandi fyrir að undanförnu. Þetta gengur beint á hagsmuni hvers einasta einstaklings í þessu landi. Þess vegna munu menn af hans toga líklega verða þess valdandi að sú sátt, sem hefði þurft að komast á milli dreifbýlis og þéttbýlis, verður að engu gerð, heldur verður stofnað til stríðs. (ÓÞÞ: Er herforinginn í ræðustólnum?) Það er búið að smíða skotfærin. — Herra forseti. Mér var kennt það sem skrifara í eina tíð að heldur væri óviðurkvæmilegt að úr þeim stól væru menn með frammíköll. Ég veit ekki hvort einhver þingsköp, fjalla um hegðan skrifara í þeim stól sem hann situr í, en heldur kann ég illa við að það sé kallað og einkum og sér í lagi í bakið á mér.

Þá vil ég fá að fara nokkrum orðum um það frv. sem hér liggur fyrir. Ég verð að segja það strax, að ég finn til ákveðinnar vorkunnar með hæstv. iðnrh. þegar hann leggur þetta frv. fram í þeim dúr sem það er. Það er í raun og veru af sama toga og ég orðaði það á sínum tíma í umr. um orkumál hér: það er í véfréttarstíl, því miður. Mér er alveg fullljóst að hæstv. iðnrh. á í miklum brösum í þingflokki sínum. Það er ákaflega eðlilegt. Menn eru ekki sáttir við röðun á verkefnum og þess vegna grípur hann til þess ráðs að leggja frv. fram eins og það nú liggur fyrir okkur. Þetta er óskalisti. Það er engin ákvörðun tekin í þessu frv. um röðun framkvæmda og ekki heldur um framkvæmdir, einfaldlega vegna þess að í 2. gr. frv. á 2. síðu er skýrt tekið fram, og hlýtur það að hafa komið inn í frv. í umr. í ríkisstj., að ákvarðanir um framkvæmdir í virkjunarmálum, þ. á m. um framkvæmdaröð, skuli staðfestar af Alþingi. Þetta frv. tekur sem sé ekki af skarið um nokkurn skapaðan hlut. Þetta frv. er óskalisti.

Þetta frv. er lagt fram til að skjóta á frest ákvarðanatöku um hvað gera skuli í orkumálunum. Ég verð að segja eins og er, að ég harma það mjög að iðnrh. skyldi ekki hafa kjark til að láta skeika að sköpuðu og setja upp eigin óskalista um framkvæmdaröðina. Hæstv. iðnrh. hefði orðið meiri maður fyrir að leggja fram þann óskalista, sem hann telur skynsamlegastan í þessum efnum, og láta slag standa, standa og falla með eigin ákvörðunum, en það hefur hann ekki gert í þessu tilviki.

Ég vil líka geta þess, að þó svo að hæstv. iðnrh. hafi nú gert það sem af honum hefur verið krafist nánast í allan vetur, þá hefur hann gert það á þann hátt að ekki verður séð að það þjóni umtalsverðum tilgangi í þeirri viðleitni Alþingis og langflestra alþm. að móta atvinnumálastefnu í þessu landi að móta stefnu sem getur orðið til að fjölga atvinnutækifærum, vegna þess að hér stendur ekkert um hvað gera skuli við alla þessa raforku, ekki eitt orð, ekki eitt einasta aukatekið orð. Auðvitað hlýtur það að liggja í hlutarins eðli og hefur verið mikið rætt á þessu þingi fyrr og síðar, að áður en ákvarðanir eru teknar um stórvirkjanir þurfi að liggja fyrir hvað gera skuli við raforkuna. Það er ljóst að við þurfum eitthvað af þessara raforku til innanlandsþarfa. En hvað eigum við að gera við allt hitt? Liggja fyrir einhverjir samningar um t. d. stóriðju á Austfjörðum eða einhvers staðar annars staðar? Ónei, þeir liggja ekki fyrir. Það liggja hins vegar fyrir tillögur og frumvörp um verksmiðjur af ýmsu tagi og margar hugmyndir hafa komið fram.

Ég vil benda á að líklega verður það ekki eins auðveldur leikur og margur ímyndar sér að nýta þá orku sem við erum að tala um að virkja. Það er m. a. vegna þess að þjóðir, sem framleitt hafa ýmislegt af því sem við gætum framleitt, eins og ál, eru að leita fyrir sér annars staðar þar sem bæði er að finna ódýra raforku og mun ódýrara vinnuafl en á Íslandi. Þar mætti t. d. nefna Japani, sem eru að leita fyrir sér í Indónesíu og í Afríku og víðar, hafa jafnvel í hyggju að taka upp heilar álverksmiðjur frá Japan og flytja þær til þessara landa, bjóða hagstæð lán, fá í staðinn ódýra orku og ódýrt vinnuafl. Vera kann, og það hlýtur að vera von og ósk hvers einasta manns, að okkur geti haldist vel á þessari orku þannig að hún nýtist okkur í náinni framtíð. Kannske getum við selt Færeyingum eitthvað af þessu. Það gæti verið að það hefði verið kannað, en þar væri kannske möguleiki í sambandi við Austurlandsvirkjun.

Þá hefur hæstv. iðnrh. talað mjög mikið og rækilega um að þau fyrirtæki, sem hugsanlega risu í sambandi við þau orkuver sem nú eru til umr., yrðu alfarið að vera í eigu og í höndum Íslendinga. Ég verð að segja eins og er sem leikmaður í þessu máli, að ég skil ekki hvað hæstv. ráðh. er að fara, einfaldlega vegna þess að aðstæður á heimsmarkaði, á markaði þess varnings sem við kynnum að framleiða með okkar orku, eru ekki þess eðlis. Ef við eigum ekki samvinnu við erlenda aðila eigum við yfirleitt sáralitla möguleika á því að koma varningi okkar á markað. Að þessu leytinu skil ég ekki hæstv. iðnrh. — og lái mér hver sem vill.

Ég vil líka geta þess, að margir þeir möguleikar, sem hér hafa komið til umr. eða hæstv. iðnrh. hefur talað um í sambandi við verksmiðjur sem gætu stuðst við þau orkuver sem hér eru nefnd, eru að margra dómi býsna hæpnir. Ég hef t, d. undir höndum álit manns á sjóefnaverksmiðju á Reykjanesi sem menn hafa kannske bundið mjög miklar vonir við og treyst á að yrði okkur til mikilla hagsbóta og færði fé í þjóðarbúið. Ýmsir fróðir menn, sem um það mál hafa fjallað, telja að það sé yfirleitt ekki nokkur einasti möguleiki fyrir Íslendinga að framleiða salt á verði sem væri samkeppnisfært, það væri svo langt frá því að vera samkeppnisfært við t. d. spánskt salt að það telji nánast engar tölur. Ég er þeirrar skoðunar, að m. a. sé þarna á ferðinni mál sem þurfi að kanna miklu betur en gert hefur verið. Þetta á einnig við um fleiri mál sem hæstv. iðnrh. hefur nefnt í sinni bjartsýnisþulu um það, hvernig við eigum að leysa þau mál að nýta þá raforku sem hann ætlar að fara að virkja.

En fyrst og fremst er kjarni þessa máls, sem hér er um að ræða, frv. til l. um raforkuver, sá, að þetta er ekkert frv. Þetta er plagg. Þetta er að vísu þykk bók eins og allar bækur sem koma frá iðnrn., en það er ekkert á þessu að græða — ekki nokkurn skapaðan hræranlegan hlut. Þetta er á tveimur bls. — óskalisti um það sem búið er að tala um hér á þingi í allan vetur, um þá virkjunarmöguleika sem fyrir hendi eru, sem búið er að vera að rannsaka, sem allir hafa vitað um að eru fyrir hendi. Og hvað segir svo frv.? Það segir ekki neitt, ekki nokkurn skapaðan hræranlegan hlut. Ég vil mælast til þess við hæstv. iðnrh. að hann komi hér í ræðustól á eftir og segi okkur frá því í hjartans einlægni hvað hann hyggst gera í sambandi við þessar virkjunarframkvæmdir, hvar hann ætli að byrja og hvar hann ætli að enda. Síðan vil ég fá að heyra frá honum hvernig á að greiða þessar framkvæmdir, með hvaða fjármagni, hvernig á að nýta rafmagnið, til hverra hluta á að nýta það, á hvaða hátt, hvar verksmiðjurnar eiga að rísa, í hvað þessi raforka á að fara. Þetta eru allt spurningar sem engin svör hafa fengist við, ekkert svar. Véfréttin er eftir sem áður hér, og hæstv. iðnrh. hefur ekki haft kjark og kannske ekki dug til að setja þá valkosti, sem fyrir hendi eru, upp í skynsamlega röð. Þess vegna vil ég taka undir orð hv. þm. Sverris Hermannssonar fyrr í dag, að hér sé á ferðinni næsta marklaust plagg sem engum tilgangi þjóni að reyna að keyra í gegnum þetta þing. Það þjónar nákvæmlega engum tilgangi. Þó að ég vilji ekki taka undir það að lýsa vantrausti á hæstv. iðnrh. held ég að miklu ríkari ástæða væri til að lýsa vantrausti á hæstv. ríkisstj. vegna þess að auðvitað er þetta afkvæmi hennar. Auðvitað er þetta plagg orðið til eftir mikla umræðu í ríkisstj. þar sem engir tveir menn hafa getað orðið sammála um hvernig röðin ætti að vera á þessum virkjunum. Það er nánast dapurlegt að ríkisstj. skuli krefjast þess, að þetta frv. verði samþykkt núna fyrir þinglok. Til hvers? Er það til þess að ríkisstj. geti haft umþóttunartíma í þinghléi til að geta borið undir næsta þing hver á að vera fyrsta virkjun? Er það tilgangurinn með þessu frv.? Ef svo er, þá er það lagt fram í fullkomnu tilgangsleysi og er nánast engin ástæða til að eyða orðum á þetta frv. þó svo stjórnarsinnar hafi í löngu máli í dag sagt álit sitt á frv. og raunverulega tafið mjög framgang þessa máls með umr. á þingi.