14.05.1981
Efri deild: 100. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4359 í B-deild Alþingistíðinda. (4432)

288. mál, Landakaupasjóður kaupstaða og kauptúna

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Félmn. hefur tekið þetta frv. til umfjöllunar og leggur til að það verði samþykkt með brtt. sem n. flytur á þskj. 835. Ólafur Ragnar Grímsson var fjarverandi afgreiðslu málsins.

Það hefur verið um langan aldur stefna sveitarfélaga að ráða yfir því landi sem á þarf að halda vegna þéttbýlisþróunar. Ljóst er að víða er slíkt land í einkaeign og sveitarfélög leita því jafnan eftir samningum við viðkomandi landeigendur eða leita eignarnáms ef ekki semst um kaupin áður en landið er tekið til skipulags vegna byggðaþróunar.

Kaup á landi af þessu tagi geta verið viðkomandi sveitarfélagi mjög þungur baggi fjárhagslega og sjaldnast er vitað með löngum fyrirvara hvort eða hvenær af kaupum verður. Veldur þetta m. a. því, að erfitt getur verið fyrir sveitarfélagið að áætla framlag á fjárhagsáætlun vegna slíkra landkaupa. Það þykir rétt að gera ráð fyrir sérstökum sjóði til að annast það hlutverk að aðstoða sveitarfélög í þeim efnum sem hér um ræðir. Eldri lög, þ. e. lög nr. 41 frá 1963, um aðstoð ríkisins við kaupstaði og kauptún vegna landakaupa, gera ekki ráð fyrir sjóðsstofnun, en í reynd hefur myndast sérstakur sjóður. Meginbreytingin með frv. þessu er að auka ráðstöfunarfé sjóðsins. Gildandi lög veita ekki sjóðnum lántökuheimild, heldur skal ríkissjóður leggja honum árlega framlag, 10 millj. kr., sem heimilt er að lána kaupstöðum og kauptúnum.

Það þykir rétt í þessu frv. að fella niður hið árlega framlag ríkissjóðs, en þess í stað komi heimild til lántöku. Þá er gert ráð fyrir að sjóðurinn endurláni síðan ráðstöfunarfé sitt til kaupstaða og kauptúna vegna landakaupa eða réttara sagt vegna kaupa á landi.

Ég gat þess, að n. flytti brtt. Það er einmitt með tilliti til þess sem réttara er að nefna það viðfangsefni sem þetta frv. fjallar um, þ. e. kaup á landi. Félmn. líkar ekki það orð sem er í fyrirsögn frv. og í einni grein þess þar sem talað er um Landakaupasjóð. Finnst n. fara betur á því að kalla þennan sjóð Landkaupasjóð. Sú nafngift fellur að bestu lögmálum íslenskrar tungu. N. mælir því eindregið með þessari breytingu. Hún kemur fram á þskj. 835. Fyrri brtt. er við 5. gr. frv., að í stað „landakaupa“, sem þar stendur, komi „kaupa á landi“. Önnur brtt. á þskj. 835 varðar fyrirsögn frv., að í stað „Landakaupasjóðs“ komi: „Landkaupasjóðs“.